Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Eflingarfólk hjá Íslandshótelum samþykkti að fara í verkfall

Fé­lags­menn Efl­ing­ar sem starfa á sjö hót­el­um Ís­lands­hót­ela hafa sam­þykkt að fara í verk­fall. Óvíst er að af verk­fall­inu verði þar sem rík­is­sátta­semj­ari lagði fram miðl­un­ar­til­lögu í kjara­deil­unni.

Eflingarfólk hjá Íslandshótelum samþykkti að fara í verkfall
Samþykkt Mikil ánægja var með niðurstöðuna á fundi samninganefndar Eflingar í kvöld.

Starfsfólk Íslandshótela á félagssvæði Eflingar hefur samþykkt að fara í verkfall. Atkvæðagreiðslu lauk í kvöld og boðun verkfalls var samþykkt með 124 atkvæðum gegn 58 mótatkvæðum og sjö óskuðu að taka ekki afstöðu. Af þeim sem greiddu atkvæði voru því 65 prósent sem samþykktu boðunina. Samtals kusu 189 af þeim 287 sem voru á kjörskrá og var kjörsókn því 66 prósent.

Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í kvöld segir að stjórnendur Íslandshótela hafi beitt starfsfólk miklum þrýstingi og hótunum um tekjumissi tækju þau afstöðu með verkfalli. „Er það skýrt brot á ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Var allt starfsfólk skikkað á sérstaka fundi þar sem stjórnendur ræddu um kjaradeilu Eflingar við SA á villandi og einhliða hátt, og komu hótunum sínum í þá veru óspart á framfæri. Bárust félaginu margar kvartanir frá félagsfólki vegna þessa.“

Þar segir einnig að samninganefnd Eflingar hafi samþykkt frekari verkfallsboðanir á fundi sínum í kvöld og að þær verði auglýstar fyrir hádegi á morgun. Um þær ríkir trúnaður þangað til.

Slitu 10. janúar

Efling sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins 10. janúar síðastliðinn og tilkynnti samhliða að undirbúningur verkfallsaðgerða væri hafinn. Samninganefnd Eflingar samþykkti verkfallsboðun á fundi sínum 22. janúar. Hún tekur til starfsstöðva Íslandshótela á félagssvæði Eflingar, alls sjö hótela. Félagsfólk sem verkfallsboðunin nær til greiddi í kjölfarið atkvæði um hvort það vildi að ráðist yrði í aðgerðirnar eða ekki en um er að ræða starfsfólk sem sinnir þrifum á herbergjum og í sameiginlegum rýmum, störfum í eldhúsi, við framleiðslu veitinga, þvott og fleira. 

Atkvæðagreiðslan opnaði á hádegi 24. janúar og lauk klukkan 20 í kvöld. Samkvæmt upplegginu átti ótímabundin vinnustöðvun hefjast á hádegi 7. febrúar næstkomandi ef verkfall yrði samþykkt. Hún mun ná til allra starfa undir kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins um vinnu í veitinga- og gistihúsum sem starfa á sjö hótelum innan Íslandshótelasamstæðunnar

Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu

Eftir að atkvæðagreiðsla um verkfallið hófst lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hins vegar fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, sem felur í sér að allir félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði eiga að greiða atkvæði um kjarasamning sambærilegan þeim sem önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa þegar gert og að samningurinn feli í sér afturvirkar greiðslur frá 1. nóvember.

Þetta tilkynnti ríkissáttasemjari á blaðamannafundi 26. janúar.

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur telst miðlunartillaga felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæðin eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá.

Atkvæðagreiðslan átti að vera rafræn, hefjast síðastliðinn laugardag og átti að standa yfir þar til síðdegis á morgun, þriðjudag.

Til þess að fella miðlunartillöguna þurfa ríflega fimm þúsund félagsmenn Eflingar að greiða atkvæði gegn henni, en yfir 20 þúsund manns starfa samkvæmt samningum Eflingar á almennum vinnumarkaði. Ef miðlunartillagan er ekki felld, telst kjarasamningur á grundvelli hennar samþykktur.

Neituðu að afhenda félagatalið

Efling hefur hins vegar neitað að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Með því er ríkissáttasemjara ókleift að láta kjósa um miðlunartillögu. Hann hefur leitað til dómstóla til að knýja á um afhendingu félagatalsins. 

Efling lagði í dag fram stjórnsýslukæru til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna miðlunartillögunnar. Krafa Eflingar er að miðlunartillagan verði felld úr gildi, meðal annars vegna skorts á samráði við Eflingu. 

Í tilkynningunni sem send var út í kvöld segir að tveir ráðherrar Vinstri grænna í ríkisstjórn, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hafi vitað af miðlunartillögu ríkissáttasemjara áður en hún var kynnt samninganefnd Eflingar. Ráðherrarnir hafi auk þess stigið fram opinberlega til stuðnings við miðlunartillöguna þrátt fyrir háværa gagnrýni allra heildarsamtaka launafólks á hana. „Samninganefnd fagnar hugrekki Eflingarfélaga á Íslandshótelum, sem kusu með sjálfstæðum samnings- og verkfallsrétti sínum þrátt fyrir þvingunartilburði, þrýsting og hótanir frá öllum valdamestu stofnunum íslensks samfélags.“

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sveinn Hansson skrifaði
    0,445% atkvæðisbærra manna hjá eflingu hafnar afturvirkum samningum fyrir hin 99,555% félagsmanna.
    124 segja nei takk fyrir hina27876.
    Þetta kallar Sólveig og sósíalistahirð hennar lýðræði.
    -1
  • Jóhannes Ragnarsson skrifaði
    Glæsilegt. Til hamingju verkafólk.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Kjaradeila Eflingar og SA

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár