Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85 prósent milli mánaða. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 9,9 prósent en hún mældist 9,6 prósent í síðasta mánuði og 9,3 prósent í nóvember 2022. Þetta er í annað sinn á nokkrum mánuðum sem tólf mánaða verðbólga mælist 9,9 prósent. Það gerðist síðast í júlí síðastliðnum. Þar áður þarf að leita aftur til september 2009 til að finna jafn mikla verðbólgu á Íslandi. .
Tólf mánaða verðbólga var 5,7 prósent í janúar í fyrra og hefur því aukist verulega síðastliðið ár.
Samkvæmt tilkynningu Hagstofu Íslands voru helstu ástæður þess að vísitalan hækkaði á milli október og nóvember þær að verð á matvörum hækkaði um tvö prósent, en hluti af þeirri hækkun skýrist af hækkun á mjólk, ostum og eggjum um 4,4 prósent. Áfengi og tóbak hækkaði um 5,5 prósent vegna hækkana á gjöldum sem renna í ríkissjóð,, hitaveita hækkaði um sex prósent, nýir bílar hækkuðu um 9,8 prósent og veitingar um 2,4 prósent.
Ýmislegt lækkaði einnig í verði líkt og oftast í janúar, þegar vetrarútsölur eru í gangi í kjölfar jólavertíðarinnar. Þannig lækkaði verð á fötum og skóm um 8,4 prósent, húsgögn og heimilisbúnaður um 4,4 prósent og raftæki um 6,2 prósent. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu líka marktækt, eða um 9,4 prósent.
Stýrivextir hækkaðir tíu sinnum í röð
Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sína í í lok nóvember upp í sex prósent. Þetta var í tíunda sinn í röð sem Seðlabankinn hækkaði vexti, en þeir voru 0,75 prósent í maí 2021. Fyrir vikið eru íbúðalánavextir hærri en þeir hafa verið í tólf ár, eða frá árinu 2010, skömmu eftir bankahrunið þegar enn var verið að endurreisa föllnu bankana og íslenskt atvinnulíf.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét hafa eftir sér í kjölfar ákvörðunarinnar að mikil aukning í einkaneyslu væri að koma niður á gengi krónunnar. Það auki innflutta verðbólgu. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri,“ sagði Ásgeir og bætti svo við að Seðlabankinn gæti„ ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum.“
Gríðarleg aukning á greiðslubyrði
Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hafa allskyns áhrif á daglegt líf fólks. Verð á nær öllum nauðsynjavörum hækkar vegna verðbólgunnar og afborganir af íbúðalánum stóraukast hjá mörgum samhliða vaxtahækkunum.
Í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem birt var í síðustu viku, kom fram að ef fólk ætlar að taka óverðtryggð lán fyrir 80 prósent af kaupverði og hefur greiðslugetu upp á 250 þúsund krónur á mánuði komi einungis 100 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til greina. Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í byrjun árs 2020 gat slíkur hópur valið úr um 800 íbúðum sem voru skráðar til sölu á verðlagi hvers tíma fyrir sig. Í maí 2020, þegar vextir höfðu verið lækkaðir skarpt sem viðbragð við faraldrinum, var sá fjöldi íbúða 1.600.
Í skýrslunni kom fram að yfir helmingur íbúða á höfuðborgarsvæðinu, eða 51,5 prósent þeirra, kosti nú 76 milljónir króna eða meira. Til þess að kaupa þær íbúðir á óverðtryggðum vöxtum, og fá lánað fyrir 80 prósent af kaupverðinu, þarf að takast á við mánaðarlega greiðslubyrði sem er yfir 400 þúsund krónur á mánuði. Þá eru ekki taldar með þær íbúðir sem eru ekki með ásett verð, en hægt er að ganga út frá því að þær seljist flestar á meira en 76 milljónir króna.
Vaxtagjöld munu bíta fast á árinu 2023
Í nýlegri greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að útlit sé fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um þrjú prósent á árinu 2023 þrátt fyrir spár um sex til sjö prósent verðbólgu.
Sérstaklega er þó tilgreint í greiningunni að þar sé ekki „tekið tillit til vaxtagjalda, en áhrifa vaxtahækkana á heimilin mun gæta af vaxandi þunga á árinu.“
Mörg heimili tóku óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum á þeim tíma sem vextir Seðlabankans voru lágir. Um fjórðungur allra íbúðalána eru nú óverðtryggð og á breytilegum vöxtum. Tíu vaxtahækkanir í röð hafa stökkbreytt greiðslubyrði þess hóps og hann tekur á sig þessar hækkanir af fullum þunga.
Ofan á þetta eru 4.451 heimila með óverðtryggð lán á föstum vöxtum sem koma til endurskoðunar næsta árið. Fjöldi heimila lýkur líka fastvaxtatímabili sínu á árinu 2024 en alls koma 340 milljarðar króna í óverðtryggðum íbúðalánum til vaxtaendurskoðunar á þessum tveimur árum. Á árinu 2025 koma svo lán upp á 250 milljarða króna í viðbót til endurskoðunar, en þorri þeirra lána eru óverðtryggð.
Því er ljóst að stór hluti heimila í landinu annað hvort býr við verulega aukinn húsnæðiskostnað eða sér fram á verulega aukningu.
Þessi kostnaður er ekki reiknaður með þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknar út kaupmátt ráðstöfunartekna.
Athugasemdir (1)