Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, sem felur í sér að allir félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði munu kjósa um kjarasamning sambærilegan þeim sem önnur félög innan Starfsgreinasambandins hafa þegar gert og að samningurinn feli í sér afturvirkar greiðslur frá 1. nóvember.
Þetta tilkynnti ríkissáttasemjari á blaðamannafundi sem hófst kl. 11 í dag.
Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur telst miðlunartillaga felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæðin eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá.
Atkvæðagreiðslan verður rafræn, hefst á laugardag og á að standa yfir þar til síðdegis á þriðjudag.
Til þess að fella miðlunartillöguna þurfa ríflega fimm þúsund félagsmenn Eflingar að greiða atkvæði gegn henni, en yfir 20 þúsund manns starfa samkvæmt samningum Eflingar á almennum vinnumarkaði. Ef miðlunartillagan er ekki felld, telst kjarasamningur á grundvelli hennar samþykktur.
Efling hafnar lögmæti tillögunnar
Efling hefur sent frá sér tilkynningu, þar sem fram kemur að stéttarfélagið hafni lögmæti miðlunartillögunnar á þeim grundvelli að ríkissáttasemjari hafi ekki farið eftir ákvæðum laga um samráð við deiluaðila, sem beri að viðhafa áður en tillaga er lögð fram.
„Tillagan var lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu,“ segir í tilkynningu frá Eflingu. Auk þess segir þar að miðlunartillagan gangi „gegn öllum venjum í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, þar sem tíðkast hefur að miðlunartillögur fari bil beggja“.
„Hin svokallaða miðlunartillaga felur í sér að afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn. Tillagan er algjörlega samhljóða síðasta tilboði Samtaka atvinnulífsins. Ekkert tillit var tekið til sjónarmiða Eflingar í tillögunni. Efling fordæmir þessi vinnubrögð,“ segir í tilkynningu Eflingar.
Útlit fyrir áframhaldandi ófrið
Ríkissáttasemjari sagði á blaðamannafundinum að það hefði kristallast á síðasta fundi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins að engin leið væri að frekar samtali á milli samningsaðila að það sem blasti við væru verkföll og jafnvel verkbönn og að afturvirkni í samningum yrði slegin út af borðinu af hálfu Samtaka atvinnulífsins.
Útlit væri fyrir að haldið yrði áfram á „einhverri ófriðarvegferð“ sem kæmi til með að hafa áhrif á samfélagið allt.
Aðalsteinn svaraði spurningum fréttafólks á fundinum og sagði meðal annars enga leið fyrir hann, fremur en nokkurn annan, að vita hver niðurstaðan úr atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna Eflingar yrði. Það þyrfti að koma í ljós.
Hann lagði áherslu á að hann teldi rétt að Eflingarfélagar fengju kost á að taka afstöðu til þess að gera kjarasamning með sömu launahækkunum og önnur félög SGS hafa þegar samið um við Samtök atvinnulífsins og einnig að félagsmenn fengju allir að greiða atkvæði um hvort þeir vildu taka áhættuna á því að afturvirkni samninga myndi renna þeim úr greipum.
Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa sagt að afturvirkni kjarasamninga frá 1. nóvember verði ekki á borðinu, ef gripið verði til verkfallsaðgerða en forsvarsmenn Eflingar hafa sagt að áfram verði gerð krafa um að samningar verði afturvirkir.
Á Aðalsteini var að heyra að hann teldi trúverðugt að Samtök atvinnulífsins myndu ekki hnika frá þeirri línu sem mörkuð hefur verið af hálfu samtakanna í þeim efnum.
Hann sagði mikið undir í þessum efnum fyrir félagsfólk Eflingar, og vísaði í þeim efnum til greinar Katrín Ólafsdóttir dósent í hagfræði skrifaði á vef Heimildarinnar í gær.
Hér er verið að taka samningsréttin af Eflingu og láta SA einhliða ákveða kjörin.
Það er nefnilega ekki nóg að meirihluti þeirra sem kjósa hafni tillögu ríkissáttasemjara.
Fjórðungur þeirra sem hafa atkvæðarétt verða að kjósa gegn tillögunni til að koma í veg fyrir að hún verði samþykkt. Það krefst mun meiri þátttöku í kosningunni en vaninn er.
Mér sýnist að flest bendi til að ríkissáttasemjari sé alls ekki starfi sínu vaxinn.