Rauði krossinn telur að þær breytingar sem útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra feli í sér muni skila sér í „ómannúðlegra og óskilvirkara kerfi þegar á botninn er hvolft.“ Hann gagnrýnir skort á samráði og samtali við aðila sem starfa við málaflokk flóttafólks sem hafi sérþekkingu og reynslu á þessu sviði. Í þeim breytingartillögum sem séu fyrirliggjandi sé þess í stað litið framhjá varnarorðum fjölmargra umsagnaraðila. „Telur félagið mikilvægt að lagabreytingar sem þessar séu unnar í þverfaglegu samráði, til þess að skapa sátt um stefnu og lagaumhverfi í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegum svörum Rauða krossins til allsherjar- og menntamálanefndar vegna athugasemda dómsmálaráðuneytisins við fyrri umsögn félagsins um frumvarpið.
Mun fjölga heimilislausum
Umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta margvíslegrar þjónustu á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum, svo sem húsnæðis, framfærslu og annarrar grunnþjónustu. Í grunnþjónustu felst m.a. heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna andlegra veikinda, tannlæknaþjónusta og grunnskóla- og leikskólaganga fyrir börn.
Í frumvarpinu sem nú er til umfjöllunar á þingi, og stjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á að verði samþykkt, eru meðal annars lagðar til breytingar á er lúta að því að skýra frekar þau réttindi sem útlendingum, sem lögum samkvæmt ber að fara af landi brott, stendur til boða og þær breytingar sagðar í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.
Helsta breytingin er sú að ný meginregla er lögð til. Í henni felst að útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd njóti áfram allra þeirra réttinda sem lögin kveða á um þar til hann hefur farið af landi brott en að hámarki í 30 daga frá því ákvörðun verður endanleg á stjórnsýslustigi.
Frá þeim tímafresti eiga öll réttindi niður að falla niður, með nokkrum tilgreindum undantekningum sem varða persónulega eiginleika eða „sérstakar aðstæður“ sem taka þarf tillit til.
Samband íslenskra sveitarfélaga sagði í umsögn sinni um frumvarpið að myndi fjölga heimilislausum á Íslandi.
Viðkvæmir gætu fallið á milli
Í svörum sínum til nefndarinnar segir Rauði krossinn að það sé skoðun hans að hugtökin um „viðkvæma stöðu" annars vegar og „sérstakar aðstæður" hins vegar séu samtengd. „Hingað til, og að öllum líkindum héðan af, hefur það verið nauðsynlegt fyrir umsækjendur að leggja fram gögn frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum, t.d. læknum og sálfræðingum, til þess að sýna fram á „sérstakar ástæður“. Afar óalgengt er að íslensk útlendingayfirvöld taki orð umsækjanda fyrir því að „sérstakar ástæður" séu uppi í máli hans og því þarf að styðja þá fullyrðingu gögnum. Að mati Rauða krossins er þessi mikla aðgreining á hugtökunum því aðeins til þess að flækja og torvelda málsmeðferðina og sé mikil hætta á að eitthvað falli á milli með því að aðskilja hugtökin og matið á þeim með þessum hætti.“
Þar segir einnig að félagið hafi áhyggjur af þessu sama atriði varðandi þær undanþágur sem fyrir liggja varðandi þjónustusviptingu eftir 30 daga, ef aðstæður eru þannig að mat á aðstæðum fólks sé ekki nægilega vandað. „Því geti afar viðkvæmir einstaklingar fallið á milli og farið á mis við réttindi sín.“
Of mikil áhersla á skilvirkni
Rauði krossinn segir einnig að hann hafi um árabil andmælt þrengingum á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar með talið á stjórnsýslulögum. Hann telji mikilvægt að „leikreglur stjórnsýslunnar“ sem birtist í málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga hafi það markmið að stuðla að og standa vörð um réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og því „eðlilegt að berskjaldaðir hópar og þeir sem hvorki tala tungumálið eða þekkja stjórnsýsluna í það minnsta að hljóta sömu réttindi og aðrir í íslensku samfélagi - en ekki lakari rétt.“
Vísbendingar séu um það í frumvarpinu að skilvirkni sé meginmarkmið þess, á kostnað mannúðar. „Jafnvel þó tekið sé fram að skilvirkni sé viðhöfð án réttarskerðingar er ljóst að verið er að þrengja að réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd, umfram íslenska ríkisborgara og aðra sem kunna að bera mál sín undir stjórnvöld, og því telur félagið að hér sé áherslan á skilvirkni of mikil og sannarlega á kostnað vandaðrar málsmeðferðar.“
Athugasemdir