Landspítalinn segir mikilvægt að við byggingu nýrrar björgunarmiðstöðvar ríkisins, sem rísa á við Kleppsgarða í Reykjavík, verði framkvæmdum hagað með þeim hætti að þær hafi sem minnst áhrif á líðan sjúklinga á Kleppi og að staðið verði að þeim með sambærilegum hætti og framkvæmdum við nýjan meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut á undanförnum árum.
„Í húsnæði spítalans við Klepp er hýst mjög viðkvæm starfsemi sem þolir illa truflun vegna framkvæmda, svo sem niðurrif eða sprengingar. [...] Sjúklingahópurinn sem dvelur á deildum Landspítalans við Klepp eru einn veikasti og viðkvæmasti hópurinn sem geðþjónustan sinnir og hluti hans dvelur þar yfir langan tíma,“ segir forstjóri Landspítala í umsögn til Reykjavíkurborgar, vegna skipulagslýsingar sem lögð hefur verið fram vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýja stórhýsisins.
Stefnt að 26-30 þúsund fermetra húsi
Fyrirhuguð björgunarmiðstöð á að nýtast embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslunni, Tollgæslunni, Neyðarlínunni, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Lóðin sem húsið á að standa á er 30 þúsund fermetrar og gert er ráð fyrir því að húsið sjálft verði 26 til 30 þúsund fermetrar að stærð.
Í skipulagslýsingunni, sem tekin var til umræðu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 11. janúar, kemur fram að nýta eigi landhalla á lóð til þess að „koma því byggingarmagni sem getur notið þess að vera neðanjarðar fyrir með þeim hætti“, auk þess sem stefnt sé að því að hæstu byggingarnar á lóðinni verði ekki hærri en 5 hæðir séð frá Sæbraut.
Þar segir einnig að stefnt skuli að því að byggingar á lóðinni verði umhverfinu til sóma, og að uppbyggingin verði „birtingarmynd metnaðarfullrar hönnunar hvað varðar umhverfis- og loftslagsmál og fagurfræði“, auk þess sem björgunarmiðstöðin verði Svansvottuð.
Mælt með verndun Víðihlíðar
Tvær byggingar eru á lóðinni sem ríkið hefur fengið undir nýja stórhýsið. Annað þessara húsa eru Kleppsgarðar 2, en húsnæðið er betur þekkt sem Víðihlíð. Húsið var byggt 1931 sem fjós og hlaða fyrir Kleppsspítala en hefur síðan þá þjónað ýmsum hlutverkum. Í dag er þar hluti af starfsemi geðendurhæfingardeildar Landspítala.
Í húsakönnun Borgarsögusafns sem fylgir skipulagslýsingu reitsins er mælt með því að þetta hús njóti verndar og fái að standa áfram innan nýrrar byggðar á lóðinni, en það er sagt hafa hátt menningarsögulegt gildi sem eitt af eldri uppistandandi húsum Kleppsspítala, auk þess sem það sé vitnisburður um þann búrekstur sem tengdist spítalastarfseminni.
Af umsögn frá forstjóra Landspítalans að dæma virðist þó ekki gengið út frá því að Víðihlíð fái að standa áfram á lóðinni, en í henni segir að nauðsynlegt sé að finna starfseminni sem þar fer fram nýtt húsnæði áður en framkvæmdir hefjast á lóðinni.
Í umsögninni segir að þar sé í dag miðstöð snemmíhlutunar í geðrofssjúkdómum og að þangað komi daglega um 100 manns, flest ungt fólk á aldrinum 18-35 ára með geðrofssjúkdóma. Legudeild sömu geðþjónustudeildar er við Laugarásveg 71 og segir í umsögn forstjóra Landspítalans að mikil tenging sé milli þessara tveggja eininga og mikilvægt sé að þær séu í göngufæri við hvor aðra.
Landspítali telur annars ekki hægt að gefa fullnægjandi umsögn um málið, þar sem enn skorti myndræn gögn um fyrirhugaða uppbyggingu og til dæmis sé ekki ljóst hvar fyrirhugaður byggingarreitur fyrir björgunarmiðstöð verði staðsettur á lóðinni.
Íbúaráð hugsi yfir umferðarmálum
Íbúaráð Laugardals sendi einnig inn umsögn um skipulagslýsinguna í haust, og lýsti þar yfir m.a. áhyggjum af áhrifum framkvæmdarinnar á umferðarþunga á Sæbraut, væntanlegri Sundabraut eða brú yfir Kleppsvík og trjágróðri á svæðinu, sem myndi væntanlega þurfa að víkja fyrir uppbyggingunni.
„Mikill umferðarþungi, með tilheyrandi hættu og mengun, er nú þegar til staðar fyrir íbúa við Sæbraut, allt frá rótum Vogabyggðar út að Snorrabraut og er mikilvægt að hugað verði að þessum þáttum við þessa framkvæmd. Gróður, hljóðmön og stokkur eru allt lausnir sem má beita sem mótvægisaðgerðum,“ sagði í umsögn íbúaráðsins.
Gerð skipulagslýsingar er undanfari vinnu við gerð deiliskipulags fyrir lóðina, en samkvæmt samkomulagi ríkisins og borgarinnar frá síðasta vori átti að ljúka skipulagsgerðinni innan tveggja ára, eða í síðasta lagi vorið 2024.
Hvers vegna er ekki svona bygging og það sem á að vera í henni upp á Kjalarnesi ? Eiginlega hinu megin við Kollafjörðin ?