Hópur innlendra fagfjárfesta hafa keypt hlutabréf í Alvotech fyrir 19,5 milljarða króna. Hlutirnir voru seldir í lokuðu útboði fyrir 1.650 krónur á hlut sem er 4,3 prósentum undir dagslokagengi bréfa í félaginu á föstudag.
Bréfin voru áður í eigu Alvotech í gegnum dótturfélag þess, Alvotech Manco ehf. Hlutafjárútboðið hófst 19. janúar og lauk í gær. Gert er ráð fyrir að uppgjör viðskiptanna og afhending bréfa fari fram 10. febrúar. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að Alvotech muni nota söluandvirði hlutabréfanna í almennan rekstur og til annarra þarfa félagsins. Innherji, undirvefur Vísis sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti, segir að íslenskir lífeyrissjóðir hafi keypt um þriðjung þeirra bréfa sem seld voru. Það þýðir að þeir hafi keypt bréf fyrir yfir sex milljarða króna.
Markaðsvirði Alvotech hefur aukist um 218 milljarða króna eftir að hlutabréf félagsins voru færð af First North markaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallar Íslands fyrir um einum og hálfum mánuði síðan. Í lok dags 7. desember var markaðsvirði Alvotech um 285 milljarðar króna en við lok viðskipta á föstudag var það komið í 476 milljarða króna. Það þýðir að markaðsvirði Alvotech hefur aukist um 67 prósent á tímabilinu.
Það gerir Alvotech að verðmætasta fyrirtækinu í Kauphöll Íslands, en á þessum dögum tók það fram úr Marel sem haldið hefur þeirri stöðu um árabil. Markaðsvirði Marel, sem hefur lækkað um tæplega 33 prósent á einu ári, var 408 milljarðar króna á föstudag.
Alvotech var fyrst skráð á First North markaðinn í fyrrasumar og hafði fallið skarpt í verði á þeim mánuðum sem liðnir voru frá skráningu.
Alvotech er líka skráð á markað í Bandaríkjunum og er eina íslenska félagið sem nokkru sinni hefur verið skráð bæði þar og hér.
Tilkynningaflóð síðustu mánuði
Alvotech er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja.
Félagið setti í fyrra á markað samheitalyfið Hukyndra sem framleitt er í lyfjaverksmiðju félagsins í Vatnsmýrinni. Um er að ræða fyrsta lyf Alvotech á markaði. Þann 7. desember var tilkynnt um að lyfið væri komið í sölu í 16 Evrópulöndum og í Kanada.
Síðar í desember var greint frá því að Alvotech hefði gengið frá fjármögnun að fjárhæð um 8,5 milljarða króna, miðað við þáverandi gengi Bandaríkjadals, í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti í almenn hlutabréf í Alvotech. Eigendur skuldabréfanna hafa rétt til þess að breyta upprunalegum höfuðstól auk áfallinna vaxta og ávöxtunar að hluta eða öllu leyti í almenn hlutabréf í Alvotech á föstu gengi, sem er tíu Bandaríkjadalir á hlut. Það er lægra verð en gengi bréfanna var í Kauphöllinni í New York á föstudag og lægra verð en þeir hlutir sem seldir voru til nýrra fjárfesta um helgina. Breytiréttinn má nýta að hluta eða öllu leyti þann 31. desember 2023 eða 30. júní 2024.
Nokkrum dögum síðar, 22. desember, var svo greint frá því að bandaríska lyfjaeftirlitið hefði lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT02, sem er líftæknilyfjahliðstæða gigtar- og húðsjúkdómalyfsins Humira, og staðfest að framlögð gögn sýni að kröfur um útskiptileika séu uppfylltar. Humira er söluhæsta lyf heims og selst fyrir tæplega 2.900 milljarða króna á ári, en um 85 prósent sölunnar er í Bandaríkjunum.
Veiting markaðsleyfis í Bandaríkjunum er nú háð fullnægjandi niðurstöðu komandi endurúttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík sem áætlað er að fari fram á fyrsta fjórðungi 2023. Umsóknina um markaðsleyfi á að afgreiða í síðasta lagi 13. apríl næstkomandi.
Þann 11. janúar var greint frá því að Alvotech væri byrjað að rannsaka lyfjahvörf AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi og Simponi Aria, sem er notað til meðferðar við þrálátum bólgusjúkdómum, svo sem liðagigt og sóraliðagigt. Það var fimmta líftæknihliðstæðan sem fyrirtækið hefur hafið lyfjarannsókn á.
Mikið tap í fyrra en lofa hagnaði bráðum
Þann 1. desember síðastliðinn var greint frá því að Mark Levick, forstjóri félagsins, hefði ákveðið að biðjast lausnar og að Róbert Wessman, starfandi stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, myndi taka við forstjórastarfinu á nýju ári. Róbert er því bæði stjórnarformaður og forstjóri.
Alvotech tapaði 28 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Tekjur félagsins jukust hins vegar mikið, úr 291 milljónum króna á sama tímabili 2021 í 8,7 milljarða króna. Róbert Wessman sagði við Fréttavaktina á Hringbraut í síðasta mánuði að áætlanir geri ráð fyrir að hagnaður verði af rekstrinum eftir mitt ár 2023.
Um síðustu áramót var fjárfestingafélagið Aztiq, sem er að stórum hluta í eigu Róberts, með rúmlega 40 prósenta hlut í Alvotech. Þar á eftir kom Alvogen, systurfélag Alvotech, með um 30 prósent, en Róbert á um þriðjung í því félagi. Þessi tvö félög voru langstærstu eigendur Alvotech, en hægt er að sjá hluthafalistann hér. Það mun svo koma í ljós 10. febrúar hvaða innlendu fjárfestar bættust við hópinn í útboðinu um liðna helgi.
Athugasemdir