Í nýbirtum gögnum Hagstofu Íslands kemur fram að heimili greiða meirihluta umhverfisskatta á Íslandi eða 59%, sem er eitt hæsta hlutfall í Evrópu. Alls greiddu heimilin um 32 milljarða króna í umhverfisskatta árið 2020 en atvinnulífið og erlendir aðilar um 22 milljarða. Þetta er í engu samræmi við losun gróðurhúsalofttegunda því atvinnulífið á Íslandi ber ábyrgð á tæpum 90% losunar og heimilin 11%.
Svo virðist sem stjórnvöldum þyki sjálfsagt mál að heimilin á Íslandi séu látin axla ábyrgðina á skattgreiðslum til að stemma stigu við losun. Frá árinu 2012 hafa hins vegar þau sem kaupa rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla notið skattaívilnana vegna kaupa á nýjum rafmagns- og tengiltvinnbílum svo hluti rennur aftur til heimilanna. BSRB hefur bent á að það séu frekar tekjuhærri heimili sem kaupi slíka bíla og að kolefnisgjöld og önnur gjöld af jarðefnaeldsneyti leggist hlutfallslega þyngst á tekjulægstu heimilin. Því má segja að tekjulægri heimili á Íslandi hafi niðurgreitt kaup tekjuhærri heimila á grænorkubifreiðum undanfarin 10 ár og axlað ábyrgð á hluta losunar atvinnulífsins.
Skattalegir hvatar eru mikilvægir
Þær aðgerðir sem eru hvað áhrifaríkastar til að draga úr losun eru fjárfestingar í grænum lausnum, þróun slíkra lausna og skattalegir hvatar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á mikilvægi þess að létta byrðum af tekjulægri heimilunum vegna kolefnisskatta. Ein skilvirkasta leiðin sé sú að endurgreiða hluta af skatttekjunum til þeirra sem eru með lægstu tekjurnar með beinum tekjutilfærslum. BSRB hefur ítrekað kallað eftir því að gerðar séu greiningar á þeim sköttum sem lagðir eru á til að draga úr losun þannig að ljóst sé hverjir beri þar þyngstu byrðarnar og hvernig þeir skattar sem leggjast á heimilin dreifist eftir tekjutíundum. Á það hefur ekki verið hlustað.
Stuðningur launafólks er ekki sjálfgefinn
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til að við sem ríki getum lagt okkar af mörkum til að draga úr alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Um knýjandi aðgerðir er að ræða því baráttan við loftslagsbreytingar er stærsta og mikilvægasta mál okkar tíma. Stefnt er að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Það er risavaxið verkefni sem krefst umbyltingar í framleiðsluferlum, nýrrar færni til að takast á við breytt og ný störf, neyslubreytinga og síðast en ekki síst orkuskipta í samgöngum. Samtök launafólks á Íslandi hafa lýst yfir stuðningi við markmið stjórnvalda en lagt áherslu á að raunverulegur árangur náist ekki án stuðnings almennings. Búast má við að sá stuðningur fari dvínandi ef stjórnvöld tryggja ekki að þeir sem losa greiði fyrir það.
Réttlát umskipti eiga að vera leiðarljósið
Alþjóðlega verkalýðshreyfingin og Alþjóðavinnumálastofnunin nota hugtakið réttlát umskipti og það er einnig að finna í Parísarsáttmálanum frá 2015. Í því felst m.a. að sköpuð verði græn og góð störf sem eru launuð með sanngjörnum hætti og tryggi vinnumarkaðstengd réttindi, að afkomuöryggi sé tryggt þegar breytingar verða á atvinnuháttum og að byrðum og mögulegum ávinningi af loftslagsaðgerðum verði dreift með sanngjörnum hætti. BSRB telur nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins myndi samstarfsvettvang um réttlát umskipti svo að réttindi og kjör launafólks séu tryggð, ekki síður en hagur atvinnulífsins. Aðilar verða að koma sér saman um þær leiðir sem fara á til þess að ná settum markmiðum, tryggja að þær séu réttlátar og stuðli að jöfnuði og velsæld.
Höfundur er hagfræðingur BSRB.
Athugasemdir