Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að verkefnið komi til með að kosta 15 milljarða króna, en samtal ríkisins og Reykjavíkurborgar um það hvernig nýja höllin skuli fjármögnuð og rekin er ekki enn útkljáð.
Þetta má lesa í nýrri skýrslu, svokallaðri frumathugun framkvæmdanefndar um nýju höllina, sem birt var í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og vinnumarkaðsráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur kynntu áformin á blaðamannafundi og á þeim var að heyra að einhugur væri um að koma verkefninu hratt til framkvæmda.
Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í upphafi árs 2024 og verklok verði haustið 2025.
Verkefnið, sem stjórnmálamenn hafa kallað „Þjóðarhöll“ hefur verið lengi til umræðu, en framkvæmdanefndin sem unnið hefur frumathugunina sem kynnt er í dag var skipuð í sumar, í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisins og borgarinnar um byggingu hallarinnar sem undirrituð var nokkrum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí í fyrra.
Gert er ráð fyrir því að Þjóðarhöllin verði sunnan Laugardalshallarinnar, þétt upp við Suðurlandsbrautina og að göngubrú tengi anddyri hallarinnar við stoppistöð almenningssamgangna á Suðurlandsbrautinni.
Vinna við deiliskipulag svæðisins er þegar hafin og gengið er út frá því að það verði staðfest í upphafi marsmánaðar og þá verði hægt að ráðast í hönnunarútboð vegna verkefnisins.
Framkvæmdanefnd mælir með því að rekstur verði allur á sömu hendi
Sem áður segir er ekki búið að útkljá hvernig nýja höllin verður fjármögnuð og svo rekin í framhaldinu, en áætlaður rekstrar- og viðhaldskostnaður hússins á ársgrundvelli er metinn um 300 milljónir króna í athugun framkvæmdanefndarinnar.
Í dag er rekstur gömlu Laugardalshallarinnar og nýju frjálsíþróttahallarinnar í höndum félagsins Íþrótta- og sýningahöllin ehf. (ÍSH), sem er í helmingseigu Reykjavíkurborgar og helmingseigu Samtaka iðnaðarins, og telur framkvæmdanefndin ríkis og borgar „skynsamlegt“ að mæla með því að félagið taki einnig að sér rekstur nýju hallarinnar.
Einnig eru þó settar fram tvær sviðsmyndir til viðbótar.
Önnur þeirra er sú að ríki og borg stofni hlutafélagið Þjóðarhöll ehf. til að halda utan um hagsmuni hallarinnar, en þó að samið yrði við ÍSH um að sjá um grunnþætti í daglegum rekstri.
Þriðja og síðasta sviðmyndin er svo sú að Reykjavíkurborg taki að sér rekstur nýju hallarinnar í samvinnu við, eða óháð, ÍSH, sem rekur Laugardalshöllina og frjálsíþróttahöllina í dag.
Ýmsir kostir um fjármögnun settir fram
Framkvæmdanefndin setur í skýrslu sinni fram þrjár sviðsmyndir um mögulega fjármögnun nýju hallarinnar.
Í fyrsta lagi að ríki og borg fjármagni byggingu hallarinnar í sameiningu og komi sér saman um hvernig skuli skipta kostnaðinum sín á milli og nefnir nefndin nokkrar tillögur að mögulegri kostnaðarskiptingu milli ríkis og borgar.
Ein lausn, sem feitletruð er til áhersluauka í skýrslunni, er sú að borgin greiði 4-5 milljarða króna, sem sögð er sú upphæð sem borgin þyrfti hvort sem er að greiða til þess að uppfylla þá tímaþörf sem er til staðar hjá íþróttafélögunum í Laugardal.
Í annan stað segir framkvæmdanefndin að ríkið og borgin gætu gert samkomulag við ÍSH um að auka hlutafé félagsins, veitt því stofnfjármagn, og það félag geti svo fjármagnað framkvæmdina með lánum eftir því sem líði á verkefnið.
Í umfjöllun framkvæmdanefndarinnar um þessa sviðsmynd segir að reynslan af rekstri Laugardalshallar og frjálsíþróttahallar samkvæmt samningi ÍSH við Reykjavíkurborg hafi verið góð, en komið hafi fram óánægja vegna þess að íþróttaæfingar falli niður vegna viðburða í núverandi mannvirkjum.
„Framkvæmdanefndin og ÍBR ásamt fleirum leggja áherslu á aukinn fyrirsjáanleika varðandi skipulagningu æfinga fram í tímann,“ segir um þetta í skýrslunni.
Í þriðja lagi segir framkvæmdanefndin svo að hægt væri að ráðast í alútboð á verkefninu, þannig að fjármögnun, hönnun og framkvæmd yrði boðin út og þriðji aðili myndi þannig koma að verkefninu með verulegum hætti. Þessi kostur myndi, samkvæmt mati framkvæmdanefndarinnar, líklega lengja framkvæmdatímann og leiða til óvissu um útfærslu framkvæmdar og rekstrar í framtíðinni, auk þess sem ríki og borg myndu hafa minni áhrif á endanlega niðurstöðu.
Framkvæmdanefndin segir mikilvægt að ríki og borg taki afstöðu sem fyrst til þessara hugmynda um kostnaðarskiptingu vegna framkvæmdarinnar, eða bendi á aðrar útfærslur ef svo ber undir.
Athugasemdir (1)