Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Víti til varnaðar: Norsku vindorkuverin sem trufla hreindýrin

Zep­hyr Ice­land vill reisa 500 MW vindorku­ver á Fljóts­dals­heiði með 70-100 vind­myll­um. Fyr­ir ut­an raflín­ur er heið­in að mestu órösk­uð og mik­il­vægt bú­svæði hrein­dýra. Hvergi er minnst á hrein­dýr í matsáætl­un um verk­efn­ið.

Víti til varnaðar: Norsku vindorkuverin sem trufla hreindýrin
Við vindorkuver Hreindýr kljást í nágrenni vindorkuversins Storheia. Mynd: Fosen Vind

Augljós dæmi eru til um það erlendis að of hröð þróun og ákvörðunartaka í uppbyggingu vindorku geti leitt til ófyrirséðra afleiðinga,“ segir í umsögn Orkustofnunar til starfshóps um vindorku á umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Hópurinn óskaði eftir umsögnum hagaðila í haust en verkefni hans er m.a. að gera tillögur til ráðherra um hvort vindorkukostir eigi áfram að heyra undir lög um rammaáætlun eða hvort setja eigi sérlög um þá „með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku,“ líkt og stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Nýlegur dómur Hæstaréttar Noregs, þar sem virkjunarleyfi tveggja vindorkuvera í Fosen í norðurhluta landsins voru felld úr gildi, er að mati Orkustofnunar nærtækt dæmi um ófyrirséðar afleiðingar hraðrar uppbyggingar slíkra virkjana. Verin Roan og Storheia voru byggð á beitarlandi hreindýra á svæði Sama. Þau telja samtals 150 vindmyllur sem eru samanlagt 544 MW að afli. Þar sem ekkert virkjunarleyfi er í gildi skal fjarlægja öll mannvirki. Af því hefur ekki enn orðið því deilt er um túlkun niðurstöðunnar. Og enn snúast því spaðar vindmyllanna í Fosen.

Hæstiréttur taldi að bygging vindvirkjana á þessum slóðum væri brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og brot á lögvörðum rétti Sama til að rækta sína menningu sem hreindýrarækt er hluti af.

Áhrifin skaðlegri en talið var

Í ljós kom, eftir að rekstur vindorkuveranna hófst árin 2019 og 2020, að áhrifin á hreindýrin voru mun skaðlegri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Í umhverfismati verkefnanna var til að mynda ekki dregin fram umfangsmikil skuggamyndun sem hefur bæði sjónræn áhrif og möguleg áhrif á gróðurfar, í ljósi norðlægrar legu vindorkuverkefnanna og þar með hversu lágt sól er á lofti á þessum slóðum stóran hluta ársins.

Á þetta bendir Orkustofnun sérstaklega í umsögn sinni og minnir á að slíkar aðstæður skapist einnig hér á landi sem gæti haft ófyrirséð áhrif á ræktar- og beitarland.

Á hlaupumHjörð hreindýra á hlaupum á Fljótsdalsheiði.

Og beitilönd og farleiðir hreindýra á hálendi Austurlands, dýra sem þegar hafa fært sig um set vegna Kárahnjúkavirkjunar, gætu líka raskast ef á þeim yrðu byggð vindorkuver. Að einu slíku er stefnt á Fljótsdalsheiði, svonefndri Klausturselsvirkjun.

Virkjunin, sem Zephyr Iceland áformar, myndi saman standa af allt að 100 vindmyllum sem hver um sig yrði um 250 metrar á hæð. Í matsáætlun Zephyr um verkefnið, sem nýlega var lögð fram til kynningar hjá Skipulagsstofnun, er ekki minnst einu orði á hreindýr. Matsáætlun er eitt skrefið í endanlegu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Í miðju búsvæði hreindýra

Náttúrufræðistofnun gerir í umsögn sinni við áætlunina alvarlega athugasemd við að ekki komi fram að meta eigi áhrif framkvæmdarinnar á spendýr, sérstaklega hreindýr. Framkvæmdasvæðið sé staðsett um miðbik heildarútbreiðslusvæðis hreindýra á Austurlandi og hreindýr haldi sig mikið á svæðinu, m.a. á viðkvæmum tímum eins og burðartíma. „Nauðsynlegt er að leggja mat á hvaða áhrif framkvæmdin og rekstur vindorkugarðs mun hafa á dvöl og ferðir hreindýra á svæðinu og hvernig sú búsvæðaskerðing sem framkvæmdin mun valda hefur áhrif á hreindýrastofninn í heild sinni.“

Zephyr ljóst hver áhrif á hreindýr gætu orðið

Georg Bergþór Friðriksson, líffræðingur og hreindýraveiðimaður, er meðal þeirra fjölmörgu einstaklinga sem skiluðu umsögn um matsáætlun Klausturselsvirkjunar. Hann segir þekkt annars staðar frá að hjartardýr sýni streituviðbrögð á svæðum með vindorkuverum og reyna því að yfirgefa þau. Hreindýr eru hjartardýr, bendir hann á, og þau eru áberandi á Fljótsdalsheiði þar sem til stendur að reisa vindvirkjunina. Til standi að stuðla að fjölgun dýra á svæðinu eftir mikið veiðiálag undanfarinna ára. „Verði af svona framkvæmdum er vandséð að sú uppbygging geti átt sér stað, bæði vegna þeirrar gríðarlegu umferðar um svæðið sem framkvæmdin myndi hafa í för með sér auk áhrifanna af sjálfum vindmyllugarðinum þegar hann væri kominn í rekstur.“

Hann minnir á að Zephyr sé norskt fyrirtæki og forsvarsmenn þess viti auðvitað af stöðu mála í þessum efnum í Noregi.

Vísvitandi sleppt að fjalla um hreindýr?

„Það má heita sérstakt rannsóknarefni hvernig höfundum hefur yfirsést að nefna hreindýr á nafn í þessari matsáætlun,“ segir svo í umsögn Landverndar. „Annað hvort eru skýrsluhöfundar og fyrirtækið Zephyr svo illa að sér um dýralíf á hálendi Austurlands, að þeir vita ekki að það er eina búsvæði hreindýra á Íslandi, eða þá að vísvitandi hafa þeir sleppt því að skrifa sérstaklega um hreindýr á þessu svæði.“

Landvernd segir „lágmarkskröfu“ að hreindýrin verði tekin sérstaklega fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Í umsögninni er fjallað um norska hæstaréttardóminn og um neikvæð áhrif vindorkuveranna tveggja á búsvæði hreindýra. „Þar enduðu þó mál með sigri Sama í langvinnum málaferlum við vindorkufyrirtækið sem hefur verið gert að rífa vindorkuverið niður.“

„Vindmyllurnar verða að fara“

450 dögum eftir að Hæstiréttur Noregs hvað upp sinn dóm hefur ríkisstjórnin enn ekki tekið afstöðu til þýðingar hans. Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur síðustu vikur heimsótt svæðið til að kynna sér málin. „Þetta er án efa mjög krefjandi mál fyrir ríkisstjórnina að fylgja eftir,“ hefur NRK eftir Söndru Borch, matvælaráðherra. Ríkisstjórnin ákvað í haust að hefja rannsókn á aðdraganda þess að verin voru reist og á hvaða rannsóknum – eða einmitt skorti á rannsóknum – þær ákvarðanir voru teknar.

„Vindmyllurnar verða að fara,“ segir Leif Arne Jåma, forsvarsmaður hreindýraræktenda í Fosen.

Orkustofnun telur að ef uppbygging vindorku hér á landi fari fram á yfirvegaðan máta, í skrefum í stað margra verkefna sem raungerast samtímis, gæti slíkt orðið lykill að aukinni samfélagssátt. Of mikill hraði á uppbyggingu geti hins vegar valdið mótstöðu og því að dýrmæt tækifæri til að læra af reynslunni tapist.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár