Fyrstu viðbrögðin við þessu efni eru þau að það krefjist mögulega hvorki viðsmikilla né fræðilegra vangaveltna að svara spurningunni hvort það sé virðingarleysi að skrumskæla persónu með ýktum staðalímyndum og uppnefna um leið.
Örlítið áhugaverðari spurning er um ábyrgð í slíkum aðstæðum. Er mögulegt að líta svo á að ungt fólk hafi mögulega ekki þá dómgreind að gera sér grein fyrir hvað þau eru að gera og hvort ábyrgðin færist siðferðilega þá yfir á umsjónarfólk og ábyrgðaraðila?
Þá er líka hægt að velta því fyrir sér hvort það sé alltaf rangt og í öllum aðstæðum að gerast sekur um virðingarleysi af þessu tagi. Mér kemur til dæmis til hugar skopmyndateiknarar og uppistandarar sem verða að hafa rými til að láta reyna á viðmið samfélagsins og spyrja gagnrýninna spurninga hverjir eiga virðingu skilið fyrir skoðanir sínar.
Langsamlega áhugaverðasta spurningin, að mínu viti, snýr hins vegar að hvort dómgreindarleysi í samskiptum sé að fara út af sporinu í samtímanum og hvað sé frábrugðið því sem við þekkjum frá fyrri tíð. Þrátt fyrir að margt hafi áður verið að í samskiptum fólks, virðist augljóst að nýir samskiptamátar hafi haft gríðarleg áhrif á það hvernig við ávörpum eða tölum við annað fólk. Bæði hafa möguleikar á nafnleynd aukist og svo hefur fólk síður samskipti auglitis til auglitis. Hvoru tveggja hefur ýtt undir ýktari og meira særandi samskipti – og því miður enda þau oft í því sem ekki er hægt að kalla annað en hatursorðræðu.
„Um leið örvæntir maður um framtíðina og spyr sig hvort ekki sé mögulegt að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þessu hömluleysi“
Allt þetta skilar sér svo til yngri kynslóða, sem finna þá hjá sér enga þörf til að þroska dómgreind sína hvað varðar tjáningu og framkomu. Sjálfur verð ég að viðurkenna að ég finn stundum til með ungu fólki þegar maður sér dæmi um fáránlegt rugl frá því. Stundum veit það ekki betur og er einungis að herma eftir því sem fyrir því er haft. En um leið örvæntir maður um framtíðina og spyr sig hvort ekki sé mögulegt að grípa til einhvers konar aðgerða til að stemma stigu við þessu hömluleysi.
Varðandi þetta tiltekna mál um Eddu Falak þá kemur þar fram svo margt af því sem verið er að ræða í samtímanum og maður hefur áður lýst áhyggjum yfir. Afsökunarbeiðnir eru góðra gjalda verðar ef þær eru settar fram á réttan máta og í einlægni – og ekki einungis um síðir þegar þrætur og útúrsnúningur virðast ekki ætla að virka. En mér finnst svolítið vanta upp á að við reynum almennt að koma okkur hjá því að þurfa að biðjast afsökunar. Það að sýna ábyrgð snýst ekki einungis um að axla hana þegar hlutir enda í skrúfunni, heldur einnig að sýna ábyrgð í því að hugsa mál til enda og sjá fyrir sér hvort það sem sett er fram standist nánari skoðun. Og kalt ljós baksýnisspegilsins.
Ég heyrði í frábæru erindi franskrar konu sem er búsett á Íslandi hugtakið „skipulagt ábyrgðarleysi“ um íslenska stjórnsýslu. Það mætti kannski varpa því hugtaki á fleiri svið – ekki síst þá orðræðu sem þrífst í samtímanum í almannarýminu.
Getur verið að ,,menningin í Vestmannaeyjum" sé bara á þessum stað ?
Börnin gera bara það sem fyrir þeim er haft.