Í júlí var greint frá því að systkinin sex sem áttu útgerðarfyrirtækið Vísi í Grindavík hefðu ákveðð að selja það til Síldarvinnslunnar. Söluverðið var sagt 31 milljarður króna, að meðtöldu yfirtöku skulda upp á ellefu milljarða króna. Sex milljarðar króna áttu að greiðast í reiðufé svo hægt yrði að gera upp skattgreiðslur vegna kaupanna.
Systkinin sex; Pétur, Páll, Svanhvít, Margrét, Kristín og Sólný Pálsbörn, fengu auk þess rétt um átta prósent hlut í Síldarvinnslunni við söluna. Mest fékk Pétur, sem er forstjóri Vísis, eða um 1,6 prósent hlut. Hin systkinin fengu 1,3 prósent hvert. Í tilfelli Páls skiptist sá hlutur milli hans og eiginkonu hans, Guðmundu Kristjánsdóttur.
Þegar salan var tilkynnt, með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og Samkeppniseftirlitsins, sagði að virði þess hlutar sem systkinin myndu fá í sinn hlut yrði 14 milljarðar króna.
Síðan þá hefur virði Síldarvinnslunnar hækkað umtalsvert, og markaðsvirðið er nú um 226 milljarðar króna. Vísis-systkinin fengu hluti sína í Síldarvinnslunni 1. desember síðastliðinn. Sameiginlegt virði þeirra er nú rétt yfir 18 milljarðar króna. Hluturinn sem þau eiga, og geta nú selt fyrir reiðufé á virkum hlutabréfamarkaði kjósi þau svo, hefur hækkað um fjóra milljarða króna á hálfu ári.
Kvótinn langverðmætasta eignin
Vísir hagnaðist um 797 milljónir króna á árinu 2021 og virði fastafjármuna (fasteignir, skip, vélar og tæki) var 5,3 milljarða króna í lok þess árs, samkvæmt ársreikningi. Ljóst er að það var eitthvað annað sem Síldarvinnslan var að borga á fjórða tug milljarða króna fyrir en rekstur, skip og tæki.
Helstu bókfærðu eignir Vísis utan fastafjármuna voru aflaheimildir sem metnar voru á 90,9 milljónir evra, alls um 13,4 milljarða króna á árslokagengi ársins 2021. Aflaheimildir eru nær undantekningarlaust vanmetnar í reikningum sjávarútvegsfyrirtækja, en fyrir viðskiptin var heildarupplausnarvirði úthlutaðs kvóta á Íslandi áætlað um 1.200 milljarðar króna, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Hugin árið 2021. Kaupin á Vísi voru langt undir því verði.
Alls heldur Vísir á 3,54 prósent af öllum úthlutuðum kvóta samkvæmt nýbirtum tölum Fiskistofu um samþjöppun í sjávarútvegi.
Blokk með næstum fjórðung alls kvóta
Eftir að kaupin á Síldarvinnslunni gengu í gegn var til stærsta útgerð á Íslandi, ef miðað er við úthlutaðan kvóta í aflamarkskerfinu. Síldarvinnslan átti fyrir tvö dótturfélög í útgerð, Berg-Hugin og Berg ehf. Samanlögð aflahlutdeild þessara fjögurra útgerða er 12,11 prósent og rétt yfir lögbundnu tólf prósent hámarki sem tengdir aðilar mega eiga.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólk sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur. Samtals eiga þessir aðilar 49,7 prósent í Síldarvinnslunni eftir hlutafjáraukninguna sem framkvæmd var í fyrirtækinu til að greiða Vísis-systkinunum.
Forstjóri Samherja, sem á dótturfyrirtækin Samherja Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa, er Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Þegar talin er saman aflahlutdeild Samherja Ísland, Útgerðarfélags Akureyringa, Síldarvinnslunnar, Vísis, Gjögurs og Bergs-Hugins og Bergs (sem eru báðar dótturfélög Síldarvinnslunnar) þá heldur sú blokk á 23,39 prósent úthlutaðra aflaheimilda.
Athugasemdir