Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar átti yfirstjórn bandaríska flugfélagsins Pan Am, sem þá var stærsta flugfélag heims, fund með stjórnendum Boeing verksmiðjanna. Á fundinum, sem haldinn var að frumkvæði Pan Am, var rætt um þann möguleika að smíða farþegavél sem gæti tekið „ja kannski 340 farþega eða svo“ eins og einn stjórnarmanna Pan Am komst að orði. Verkfræðingur Boeing sagði að sér hefði svelgst á kaffinu við þessi orð. Rétt er að geta þess að Boeing 707 vélarnar sem voru fyrst teknar í notkun árið 1958 höfðu 140 sæti. Pan Am var með allmargar slíkar vélar í notkun, þær reyndust vel en Pan Am vildi nú fá stærri vélar. Með þeim yrði hægt að bjóða lægri fargjöld. Stjórnendur Boeing voru hugsi yfir þessum hugmyndum en brátt fór af stað undirbúningsvinna.
Joe Sutter – faðir Boeing
Þegar stjórn Boeing hafði ákveðið að ráðast í smíði „risaþotunnar“, eins og verkefnið var kallað, var að mörgu að hyggja. Ákveðið var að Joe Sutter verkfræðingur myndi stjórna hönnuninni og verða jafnframt yfirmaður þegar að smíði vélarinnar kæmi. Joe Sutter var á þessum tíma önnum kafinn í öðrum verkefnum hjá Boeing og hönnun og smíði Boeing 737 komin vel á veg (fyrsta tilraunaflugið var farið árið 1964). Boeing 737 vélin var smíðuð í verksmiðjum Boeing í Renton. Joe Sutter fannst „risaþotan“ spennandi verkefni og hann kom til Everett árið 1965. Þar hafði Boeing verið með verksmiðjur frá árinu 1943 en ný stórbygging var reist á svæðinu þegar ákveðið var að ráðast í smíði „risaþotunnar“. Sú bygging er enn meðal stærstu verksmiðjuhúsa sem reist hafa verið í heiminum, flatarmálið er svipað og 40 fótboltavellir.
Fyrsta breiðþotan, kapphlaup við tímann
Að hanna og smíða þotu kostar mikið fé og tekur tíma. Þegar hugmyndirnar um „risaþotuna“ voru ræddar veltu forsvarsmenn Boeing því fyrir sér hvort einhverjir myndu vilja kaupa þetta „ferlíki“, eins og einn stjórnenda Boeing komst að orði. Vitað var um áhuga Pan Am og í apríl árið 1966 var skrifað undir samning um kaup á 25 „risaþotum“. Sú fyrsta skyldi afhent í árslok 1969. Fyrst Pan Am sýndi svona mikinn áhuga hlutu margir aðrir að fylgja í kjölfarið var álit yfirstjórnar Boeing. En tíminn var naumur.
Fjórir hreyflar, tveir farþegagangar, tvær hæðir, 366 farþegar
Eftir miklar vangaveltur og útreikninga ákváðu verkfræðingar Boeing, undir stjórn Joe Sutter, að nýja vélin skyldi vera rúmlega 76 metra löng og farþegarýmið rúmlega 6 metra breitt. Í farþegarýminu voru tveir gangar, fjögur sæti milli ganganna og tvö sæti við glugga, sem sé átta sæti í hverri röð, tveir farþegagangar voru nýlunda. En það sem mesta athygli vakti, þegar vélin kom fyrir almenningssjónir, var að farþegarýmið var að hluta á tveimur hæðum. Fremri hluti búksins hærri en sá aftari og vélin því auðþekkt. Ákveðið var að á vélinni skyldu vera fjórir hreyflar og samið var við framleiðandann Pratt & Whitney um hönnun og smíði þeirra.
Í vélinni voru sæti fyrir 366 farþega og hún gat flogið 13.500 kílómetra án þess að taka eldsneyti.
50 þúsund starfsmenn á lokasprettinum
Eins og fyrr var nefnt voru starfsmenn Boeing í kapphlaupi við tímann. Búið var að semja við Pan Am um hvenær fyrsta vélin skyldi afhent og svo hinar 24. En samtímis var að mörgu að hyggja, við hönnun og smíði flugvélar eru ótal atriði sem taka þarf ákvarðanir um og þar má ekki vafi leika á um eitt eða neitt. Í einni 747 vél eru rúmlega 6 milljón hlutir, sem allir þurfa að vera á sínum stað.
Það hljómar kannski ótrúlega en á lokasprettinum kepptust hvorki meira né minna en 50 þúsund manns við að ljúka smíðinni til þess að hægt yrði að standa við samninginn.
Stjórnendur Boeing urðu hvað eftir annað að gera sér ferð í bankann til að tryggja fjármagn til verksins. William Allen, forstjóri Boeing, sagði síðar í viðtali að fyrirtækið hefði eiginlega reist sér hurðarás um öxl við smíði 747 en allt hefði þó gengið upp að lokum.
30. september 1968
Fyrsta 747 þotan var dregin út úr verksmiðjuhúsinu í Everett 30. september 1968, að viðstöddum stórum hópi fréttamanna og fulltrúum 26 flugfélaga sem höfðu lagt inn pantanir fyrir risaþotuna. Ýmislegt var þó enn ógert og fyrsta flugferðin, fyrir utan tilraunaflug, var farin 9. febrúar 1969, þá tóku við alls kyns prófanir á vegum flugmálayfirvalda. Pan Am fékk fyrstu vélina afhenta undir árslok 1969 og fyrsta vélin á vegum félagsins fór í loftið 22. janúar 1970. Hún fékk þegar viðurnefnið Jumbo, vegna stærðarinnar, og það nafn festist við 747 vélarnar.
Ný vél á 43 daga fresti
Þótt starfsmönnum Boeing hefði tekist að afhenda fyrstu 747 vélina á tilsettum tíma þýddi það ekki að þeir gætu nú setið með hendur í skauti. Framleiðslan komst nú á fullan skrið og á 43 daga fresti var ný 747 Jumbo þota dregin út úr risabyggingunni í Everett. 747 vélarnar voru ekki eingöngu farþegavélar, þær voru frá upphafi mikið notaðar til vöruflutninga og á síðari árum hefur mörgum vélum sem í upphafi voru farþegavélar verið breytt í flutningavélar. Þær vélar sem frá upphafi voru ætlaðar til vöruflutninga höfðu stóran hlera á „nefinu“.
Í hópi þeirra fjölmörgu félaga sem hafa átt og notað 747 vélarnar í gegnum tíðina má, auk Pan Am, nefna Lufthansa, Cargolux, Atlas Air, British Airways, UPS og Qantas.
Gegnum tíðina hafa ýmsar breytingar verið gerðar á 747 en þær verða ekki tíundaðar hér.
Breyttir tímar og ákveðið að hætta framleiðslu 747
Á þeim 54 árum sem liðin eru frá því að fyrsta 747 hóf sig á loft hafa orðið miklar breytingar, það gildir ekki síður um flugvélar og ferðamáta en margt annað. Eftirspurn eftir risaþotum er ekki sú sama og áður fyrr og aðrir framleiðendur komnir til sögunnar. Þótt ýmsar breytingar hafi verið gerðar á 747 vélunum, ekki síst til að draga úr eldsneytiskostnaði, eru þær samt sem áður dýrari í rekstri en margar aðrar.
Í lok júlí 2016 tilkynnti Boeing, í skýrslu til yfirvalda, að eftirspurn eftir 747 færi minnkandi, biðröðin eftir nýjum vélum styttist óðum, eins og það var orðað. Allar 747 vélar sem smíðaðar hafa verið frá árinu 2017 hafa verið innréttaðar til vöruflutninga.
Í byrjun júlí 2020 greindi Boeing frá því að framleiðslu 747 yrði hætt árið 2022.
Vél númer 1.574 og kaflaskil
Hinn 6. desember síðastliðinn (2022) var síðasta Boeing 747 vélin dregin út úr verksmiðjuhúsinu í Everett. Hún var númer 1.574 í framleiðsluröðinni. Eigandi hennar er Atlas Air félagið, sem hafði fyrr á árinu fengið afhentar þrjár sams konar vélar.
Þótt framleiðslu Boeing 747 hafi verið hætt er þætti „risaþotunnar“ í flugsögunni ekki lokið. Af þeim 1.574 vélum sem smíðaðar voru eru 448 enn í notkun. Þess má geta að flugfélagið Air Atlanta Icelandic gerir út 14 Boeing 747 vélar sem allar eru notaðar til vöruflutninga.
Hér má líka nefna að árið 1972 íhuguðu Loftleiðir að kaupa tvær 747 vélar og fengu tilboð frá Boeing verksmiðjunum um smíði þeirra. Stjórn Loftleiða lagðist hins vegar gegn kaupunum sem ekkert varð af.
Viðbót
Þótt flugvélar séu smíðaðar til að fljúga um loftin blá eru til mörg dæmi um önnur not. Dæmi eru um flugvélar sem breytt hefur verið í sumarbústaði. Flugvélaflök geta líka verið aðdráttarafl ferðafólks, margir leggja leið sína að flaki á Sólheimasandi og sömuleiðis skoða margir flak vélar sem liggur svo að segja í túnfætinum á Sauðanesi á Langanesi.
Við Arlandaflugvöll skammt frá Stokkhólmi er 25 herbergja gistiheimili, Jumbo Hostel. Þetta gistiheimili er innréttað í Boeing 747 og dregur nafn sitt af viðurnefninu Jumbo sem festist snemma við 747 þotuna.
Við Dunsfold-flugvöllinn í Surrey á Englandi er 747 vél sem áður var í eigu British Airways. Sú vél hefur verið notuð í kvikmyndum og hefur iðulega brugðið fyrir í sjónvarpsþáttunum Top Gear (sem fjalla mest um bíla) en þeir eru teknir upp í Dunsfold. Boeing 747, sem var í eigu Pakistan International Airways, hefur verið breytt í veitingastað við Jinnah-flugvöllinn í Karachi.
Árið 2019 var flaki Boeing 747 komið fyrir á hafsbotni, á 24 metra dýpi, skammt undan ströndum Barein. Tilgangurinn var að gera svæðið áhugaverðara fyrir kafara.
Fleiri dæmi um breytt hlutverk drottningar háloftanna mætti nefna en hér verður látið staðar numið.
Athugasemdir