„Það nennir enginn að fara út og sjá neitt lengur,“ segir vinur minn og dragdrottningin Faye Knús við mig. Á hverjum einasta föstudegi kemur hún fram á hinsegin barnum Kiki og dansar, lip-syncar og segir brandara í heila tvo klukkutíma.
Einu sinni voru gestirnir Íslendingar til hálfs og hinn helmingurinn túristar, en það hefur gjörbreyst. „Nú eru það bara túristarnir sem nenna að koma sér út fyrir tólf,“ segir Faye. Við vitum að það sama er að gerast hjá flestum viðburðahöldurum landsins – síðasta jólatónleikatíð var slæm, kortasala í stóru leikhúsunum er næstum ekki til lengur og Faye Knús getur ekki sagt neina brandara sem bara Íslendingar myndu skilja þessa dagana: „Það nennir enginn út. Og ég skil það. Ég meina, það er átak í hvert sinn sem ÉG þarf að koma mér á gigg!“ Það sem við áttuðum okkur á í Covid er að það er ógeðslega næs að vera heima hjá okkur. Ég finn sjálf að ég þarf að beita mig átaki til að koma mér út fyrir hússins dyr. Ég gæti kennt fertugsaldri eða barneignum um, en í raun er ég einfaldlega bara löt.
Verðum við kannski að fá fólk í janúarátak í leikhús? Ég hef fengið póst frá Hreyfingu á hverjum einasta degi í janúar, póstarnir bera fyrirsagnir eins og Lokaútkall! og Nýtt heilsuár – það er reyndar ekki mikið fútt í þessum áskorunum eftir að líkamsræktarstöðvarnar hættu að segja hluti á borð við Hlauptu af þér spikið og Ekki vera sófakartafla. Þessi orðræða er auðvitað ekki lengur ásættanleg (áður en þið segið eitthvað: ég var feitt barn árið 2002 svo ég veit fullvel af hverju við þurfum að hætta þessu) en ég fór að hugsa: Rétt eins og talað er um að með því að skoða samtímaleikhús á meginlandi Evrópu sé hægt að sjá hvað verður í gangi í íslensku leikhúsi eftir 20 ár, gætu þau ekki bara líka nýtt sér 20 ára gamla orðræðu til að koma fólki aftur í áhorfendasætin? Hugsum í lausnum!
Ég legg til eftirfarandi slagorð fyrir markaðsherferð leikhúsa, tónleikastaða og kabarett-kjallara:
„Drullaðu þér út á Macbeth, hlussa – það gæti gert þér gott!“
„Upp úr sófanum og niður á Improv Ísland!“
„Hlauptu af þér spikið – alla leið í Þjóðleikhúsið!“
Auk slagorðanna væri svo hægt að búa til 30 daga áskorun þar sem fólk skuldbindur sig til að mæta á hverjum degi í leikhús, árangurinn myndi sýna sig þegar það reynist í kjölfarið geta tjáð sig um núansa slaufunarmenningar í matarboðum og slegið um sig með hugtökum eins og afbygging, fagurfræði og framandgerving. Markaðsdeildir leikhúsanna, heyrið í mér!
Ókei, þessi hugmynd er fáránleg, ég átta mig á því. En málið er að ég fór loksins og horfði á Faye Knús performera á Kiki í tvo klukkutíma síðasta föstudag. Við höfum verið vinir í meira en ár en ég hef aldrei farið. Því ég nenni ekki út. En loksins drullaði ég mér á Kiki, og horfði á dragdrottningu skemmta fólki ein síns liðs í tvo klukkutíma. Ég hló alla leið niðrí maga, ég táraðist í dramatískum hápunkti ballöðu og mundi af hverju við fórum öll svona mikið út áður en við lærðum að meta að vera heima hjá okkur. Ef þú vilt enduruppgötva ást þína á performansi er það auðvelt: Sýningin hennar er ókeypis og fer fram á hverjum föstudegi klukkan níu – á Kiki.
Það er nefnilega ekkert sem jafnast á við að vera með öðru fólki að upplifa leikhús, eða svo ég vitni í Faye Knús: „I truly believe that theater and dance are the most important things in the world and I can’t be fuckin arsed!“
Athugasemdir