Kjaradeilur í einkageira snúast í grunninn um skiptingu þeirra verðmæta sem fyrirtæki búa til á milli starfsmanna annars vegar og eigenda hins vegar. Kröfur starfsmanna eða verkalýðsfélaga þeirra ráðast þó ekkert endilega af því hve miklum verðmætum reksturinn skilar og eru til skiptanna heldur af margs konar samanburði. Ein stétt ber sig og sín kjör saman við kjör annarra stétta. Fólk í tiltekinni stétt ber sig saman við aðra í þeirri stétt. Þá er hægt að bera saman kjör eftir landsvæðum, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Þá er horft til kjara á öðrum tíma, var kaupmáttur meiri í fyrra eða hittifyrra eða hefur annar hópur náð meiri hækkun síðan þá? Þannig mætti lengi telja. Það er alltaf hægt að finna einhvern samanburð til að byggja á kröfur. Það er vandfundinn sá hópur sem getur ekki með einhverjum hætti rökstutt að hans hlutur sé minni en eðlilegt geti talist, sama hve stór hluturinn er. Það er alltaf hægt að krefjast leiðréttingar á einhverju.
Það getur þýtt endalaus höfrungahlaup. Ef hópur A ber sig saman við hóp B og nær fram leiðréttingu þá er næsta víst að fyrr en síðar beri hópur B sig saman við hóp A og fái sína leiðréttingu. Það kallar svo auðvitað á aðra leiðréttingu fyrir hóp A og þannig koll af kolli út í hið óendanlega.
Fyrirtæki þurfa líka sínar leiðréttingar. Þegar laun hækka þurfa þau að leiðrétta verð til að taka tillit til hærri kostnaðar. Þegar einn birgi hækkar verð þurfa þau fyrirtæki sem kaupa af honum að leiðrétta sín verð. Þegar fyrirtæki hækka verð lækkar kaupmáttur og hann þarf þá að leiðrétta. Það hækkar kostnað fyrirtækja og þannig heldur hringekjan áfram.
Á síðustu öld, þegar verðbólga var lengst af meiri en á þessari á Íslandi, varð mönnum tíðrætt um víxlhækkun verðlags og launa. Það var ágætis lýsing á endalausum leiðréttingum á annars vegar verðskrám fyrirtækja og hins vegar launatöflum verkalýðsfélaga og auðvitað í leiðinni gengi krónunnar. Það skilaði því að verðlag 10 þúsund faldaðist frá árinu 1939, þegar endanlega var skilið á milli íslenskrar krónu og danskrar, og til ársins 2000. Ein dönsk króna varð jafnframt að þúsund (gömlum) íslenskum.
Tíuþúsundföldunin samsvarar ríflega 16% verðbólgu á ári að jafnaði. Það sem af er 21. öldinni hefur gengið aðeins betur að temja víxlhækkanirnar. Verðlag hefur þó tæplega þrefaldast, sem samsvarar tæplega 5% verðbólgu á ári.
Það er ekki hlaupið að því að stöðva slíka hringekju enda er alltaf einhver hópur sem telur sig hafa borið skarðan hlut frá borði og getur jafnvel fært fyrir því ágætis rök. Á Íslandi, líkt og í flestum nágrannalöndunum, er seðlabanka falið það hlutverk. Það er aldrei sársaukalaust enda er þeim tækjum sem slíkir bankar beita beinlínis ætlað að draga úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu með því að minnka neyslu og fjárfestingu. Þannig á bæði draga úr svigrúmi fyrirtækja til verðhækkana og draga úr þörf fyrir starfsfólk, sem spornar gegn launaskriði.
Hringekjan stöðvast aldrei alveg enda er ekki að því stefnt. Það er bara reynt að hægja á henni, nánar til tekið þannig að verð hækki að jafnaði um 2,5% á ári. Það samrýmist því að laun hækki aðeins meira að jafnaði, sem nemur aukningu framleiðni. Það liggur í eðli hringekjunnar að það tekst ekki að hægja á henni nema það sé almennt trú manna að það muni takast. Hinar endalausu leiðréttingar fyrirtækja og launþega byggja nefnilega ekki bara á sögunni heldur líka væntingum. Fyrirtæki hækka verð ef þau eiga von á að önnur fyrirtæki hækki verð og laun og annar kostnaður hækki. Launþegar reyna að sama skapi að semja um kaupmátt og hve mikill hann verður fer eftir því hvernig verðlag þróast.
Verðbólga hefur vissulega verið mun meiri en vænst var og að var stefnt undanfarin misseri en engu að síður mun minni en þegar verst lét á 20. öld. Það gæti því orðið eitthvað auðveldara að koma böndum á hana nú en þá. Íslendingar misstu algjörlega stjórn á peningamálum og verðlagi á 8. áratug síðustu aldar og fyrstu árum þess 9. Þá var verðbólga ár eftir ár um 50% og náði hámarki í rétt rúmum 100% um skeið árin 1983-4. Það var ekki fyrr en á 10. áratugnum sem það tókst að koma böndum á hringekjuna eftir erfitt samdráttartímabil 1988-1992. Ef við höldum vel á spilunum gæti þetta tekið styttri tíma og krafist minni fórna nú.
Ánægja með lífskjör virðist fara einungis að litlu leyti eftir því hve góð þau eru heldur miklu frekar því til hvers er horft til samanburðar. Þannig hafa lífskjör almennt aldrei verið betri á Íslandi en undanfarin ár og betri á Íslandi en nær alls staðar annars staðar í heiminum. Það endurspeglast m.a. í meiri neyslu á mann á Íslandi en í langflestum löndum heims. Í Evrópu er hún bara meiri í Noregi og Lúxemborg. Barn sem fæðist á Íslandi um þessar mundir getur að jafnaði vænst þess að neyta ríflega 40% meira af vörum og þjónustu um ævina en kynslóð foreldranna og 150% meira en kynslóð afa og ömmu. Samanburðurinn verður nánast óskiljanlegur ef horft er lengra aftur í tímann, til dæmis til langafa og -ömmu. Ef þau voru fædd um 1900 þá var samanlögð neysla þeirra um ævina innan við 5% af væntri ævineyslu þeirra sem fæðast nú. Árið 1900 voru lífslíkur við fæðingu innan við 50 ár, landsmenn voru fæstir fluttir úr torfkofunum, hvorki vatnsveita né rafveita og skólpið rann óhindrað um eða meðfram moldargötum kaupstaða.
Árið 1900 voru tekjur á mann á Íslandi rétt um helmingur þess sem Danir nutu. Framfarirnar síðan þá eru nánast óskiljanlegar. Við náðum Dönum, okkar fyrrum herraþjóð, og fórum úr torfkofunum í steinsteyptar hallir með öllum nútímaþægindum. Auðvitað hafa landsmenn glaðst yfir mörgum áföngum á þessari leið. Rennandi vatn, rafveita, bílar, háskóli, flugvélar, sýklalyf, útvarp, hitaveita, sjónvarp, hringvegur, netið. Flest batnaði, hús, föt, vegir, heilbrigðisþjónusta, matur (ávextir allt árið!). Upptalningin gæti verið nær endalaus.
Ánægjan með framfarirnar er þó minni en kannski mætti ætla vegna þess að væntingarnar og kröfurnar vaxa jafnharðan. Sá sem átti svarthvítt sjónvarp varð óánægður þegar aðrir fengu litasjónvarp. Síðar langaði hann í flatskjá. Þeir sem hafa það gott bera sig saman við þá samlanda sína sem þeir telja að hafi það enn betra eða a.m.k. betra en þeir verðskulda. Nútíma Íslendingur ber sína stöðu ekki saman við lífskjör afa og ömmu enda væri þá undan engu að kvarta.
Íslendingar hafa enga sérstöðu að þessu leyti á meðal þjóða. Ánægja er afstæð. Það er alltaf hægt að gera betur. Þótt mannkynssagan hafi lengst af einkennst af stöðnun lífskjara, þau voru þau sömu öld eftir öld og alltaf skelfileg á mælikvarða nútímans, þá hafa tvær síðustu aldir eða svo búið til væntingar um sífellt betri lífskjör. Væntingarnar hafa líka verið raunhæfar til þessa og lífskjörin batnað frá einni kynslóð til þeirrar næstu.
Vonbrigðin verða mikil ef það heldur ekki áfram. Það er hægt að sjá ýmis merki þess, meðal annars í Bandaríkjunum þar sem hagvöxtur hefur vissulega verið talsverður undanfarna áratugi en hefur ekki skilað sér í bættum lífskjörum nema að litlu leyti hjá öðrum en þeim tekjuhæstu, sem hafa orðið enn tekjuhærri en áður. Kaupmáttur dæmigerðrar bandarískrar fjölskyldu, í miðju tekjudreifingarinnar, hafði í fyrra einungis aukist um 7% frá aldamótum. Það er miklu hægari vöxtur en lengst af á 20. öld. Vonbrigðin skýra að einhverju marki djúpa óánægju stórra hópa og upplausn í stjórnmálakerfinu. Svipaða sögu má sjá í Bretlandi með sambærilegum afleiðingum. Óánægjan með lífskjaraþróun sem stendur ekki undir væntingum gæti líka grafið undan stjórnvöldum í einræðisríkjum, þ.á m. því stærsta, Kína. Afleiðingarnar af því er erfitt að sjá fyrir enda ekkert kerfi til staðar nema ofbeldi og kúgun til að takast á við gremju þegnanna.
Almennt má raunar gera ráð fyrir því að hagvöxtur í ríkustu löndum heims, þar á meðal Íslandi, verði talsvert hægari á 21. öld en þeirri 20. Það þýðir þó ekki að lífskjör versni, þau verða væntanlega betri en nokkru sinni fyrr, og þar með þau bestu í sögu mannkyns. Ánægjan með þau gæti hins vegar minnkað og deilur um skiptingu þjóðarkökunnar harðnað þegar hægir á lífskjarabatanum.
Sífellt meiri framleiðsla og neysla á vörum og þjónustu hefur mikil umhverfisáhrif og helsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir er vitaskuld að draga úr álagi á umhverfið, sérstaklega stöðva hnattræna hlýnun. Það er erfitt að samræma það óskum og væntingum um sífelldar lífskjarabætur en þó ekki ómögulegt. Lykillinn er að gera meira úr minnu. Nota minna af ýmsum auðlindum, sérstaklega jarðefnaeldsneyti, til að gera meira. Draga úr sóun, nýta betur, endurvinna. Minnka neyslu á því sem hefur skaðlegust umhverfisáhrif. Það getur tekist. Raunar er vart hægt að hugsa þá hugsun til enda að það takist ekki. Það verður að takast. Í samanburði er glíman við víxlhækkunarhringekjuna hversdagsleg áskorun.
Einkennileg umræða sem sýnir því miður gersamlegt skilningsleysi á vandamálinu. Hérna er talað um vandamál sem snýst um skiftingu kökunnar og það gersamlega hunsað að það eru þrír aðilar sem skifta milli sín kökunni... launþegar, vinnuveitendur og ríkið. Auðvitað fáum við bara bulllausnir þegar það er hunsað að það eru 3 aðilar sem skifta milli sín kökunni en ekki 2. Varðandi vexti og peningastjórn í umferð þá er það dæmigert fyrir viðvaningsháttinn að halda að vextir einir stjórni magninu í umferð... hvatarnir ráða því algerlega ekki vextirnir... því ef menn græða þrátt fyrir háa vextir þá taka þeir lánin og láta aðra borga og þeir sem verða af nauðsyn að taka lán... taka þau.. hverjir sem vextirnir eru.
Munurinn á alchimistum til forna og fræðingum í dag er að þeir höfðu ekki þekkinguna til að breyta blý í gull á arðbærann hátt í den tid... en í nútímanum hagfræðingar fara létt með það í excelnum enda áskrifendur að milljón + launatékknum... þó svo í raunveruleikanum þeir fokki endalaust upp.
Hvað er vandamálið ? sagði ljóskan í brandaranum... og var eini aðilinn með rökhugsunina í lagi... en allir hlægja... þangað til þeir fatta að brandarinn var hannaður af sálfræðingum til að kanna hversu léttvæg staðreyndir og raunveruleiki eru þegar kemur að kennifræðilegum rökum.