Bændasamtök Íslands vilja að heimilt verði að nýta séreignarsparnað til kaupa á bújörðum, rétt eins og til kaupa á fyrstu íbúð. Í rökstuðningi samtakanna þar að lútandi segir að „staða þess unga fólks sem vill hefja búskap er í mörgu sambærileg við stöðu ungs fólks vegna kaupa á fyrstu íbúð“.
Samtökin setja þessa röksemdafærslu fram í umsögn sinni um drög að reglugerð um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þeirri reglugerð er ætlað að koma í stað gildandi reglugerðar um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna slíkra kaupa. Sú reglugerð er sett með stoðum í lögum um stuðning við fyrstu íbúðar kaupendur sem tóku gildi árið 2017.
Í reglugerðardrögunum er skilgreint að með íbúð sé átt við fasteign sem skráð er íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sömuleiðis er þar tilgreint að heimild til nýtingar nái til kaupa á íbúðarhúsnæði eða nýbyggingar þess, en nái „ekki til kaupa á lóð“ auk annars sem tilgreint er.
Í umsögn Bændasamtakanna er því sem fyrr segir haldið fram að staða ungs fólks sem vilji hefja búskap sé um margt sambærileg stöðu fólk sem er að koma þaki yfir höfuð sér. Er það rökstutt með þeim hætti að í báðum tilvikum sá um að ræða aðgerðir fólks „til að eignast húsaskjól fyrir sig og fjölskyldu sína.“
Bændasamtökin rekja að staða þeirra sem hefja vilji búskap hafi verið erfið þar sem kröfur hafi verið um hátt eiginfjárhlutfall við kaup á bújörðum. Því sé þörf á að stjórnvöld gæti þess að ívilnandi aðgerðir nýtist öllum sambærilegum hópum „á grundvelli sjónarmiða um jafnræði“. Auk þess ættu aðgerðir af þessu tagi að samræmast byggða- og atvinnustefnu um allt land og þá væri, ef tekið yrði tillit til athugasemda Bændasamtakanna, byggt undir að búskap yrði viðhaldið með jákvæðum áhrifum á fæðuöryggi þjóðarinnar, eins og segir í umsögninni.
Athugasemdir