Þetta eru önnur jólin mín á Íslandi. Síðustu jól voru það sem þið Íslendingar kallið rauð jól, ólíkt því sem virðist ætla að verða núna. Eftir jólin í fyrra snjóaði samt gríðarmikið í febrúar. Allt varð svo hvítt. Það var mér nýlunda.
Ég kom til Íslands þann 3. nóvember í fyrra, í nístandi kulda. Ég var að koma frá Grikklandi þar sem ég hafði dvalið í flóttamannabúðum í fjögur ár. Þar getur vissulega snjóað en ekkert í líkingu við það sem gerist hér á landi. Í Sýrlandi, heimalandi mínu, snjóar heldur ekki að jafnaði. Það er ekki nema ein borg í landinu þar sem segja má að það geti komið alvöru snjór, Swaida í suðvesturhluta landsins. Fólk fagnar því sérstaklega þegar snjóar þar.
„Ég skildi líf mitt eftir þegar ég flúði Sýrland, drauma mína og þrár“
Það er vond reynsla, erfið upplifun, að þurfa að leita sér hælis, að vera á flótta. Ef ég gæti breytt einhverju þá myndi ég vilja breyta því sem gerðist árið 2011, þegar borgarastyrjöldin braust út í Sýrlandi. Styrjöldin sem olli því að ég varð að flýja heimaland mitt. Ég skildi líf mitt eftir þegar ég flúði Sýrland, drauma mína og þrár.
Það var fyrst eftir að ég kom hingað, til Íslands, að mér fannst sem ég tilheyrði aftur, að ég ætti einhvers staðar heima. Annars staðar leið mér ekki þannig, ég fann ekki fyrir öryggi.
Það skiptir ekki máli hvar þú ert hverju sinni, það sem skiptir máli er hvernig þú finnur þig í samfélaginu. Hvort þú sért boðinn velkominn eða ekki. Það skiptir engu máli þó að það sé munur á menningu, þó að fólk tali ekki sama tungumálið, bara ef við virðum hvert annað. Og hér á landi finnst mér ég velkominn, hér á landi er komið fram við mig sem jafningja, af virðingu. Ég verð að segja að ég elska þetta land og ég elska fólkið.
Athugasemdir (1)