Hver hefði trúað að stríð í 4.000 kílómetra fjarlægð myndi hafa svona mikil áhrif hér úti í miðju Atlantshafi? Það er engu að síður staðreynd að innrásin í Úkraínu hefur haft miklu meira að segja um daglegt líf hér en nokkurn grunaði þegar fyrstu sprengjurnar féllu á Kyiv í febrúar á árinu sem er að líða. Kyiv, borg sem fæstir hefðu getað bent á á korti fyrir ári síðan, en hverrar úthverfi og íbúa við þekkjum nú með nafni, því yfir 2.000 Úkraínubúar hafa komist í skjól hér á árinu.
Matvælakrísa, orkukrísa, pólitísk krísa; þetta stríð hefur snúið heimsmyndinni á hvolf með því að magna upp þær kreppur og átök sem voru fyrir hendi. Nú í lok árs vakna margir íbúar í Evrópu skjálfandi í óhituðum húsum; eftirspurnin eftir nýrri orku er gríðarleg. Æ fleiri ná ekki endum saman, innihald matarkörfunnar breytist til hins verra (óhollur matur er jú ódýrari) því verðbólgan er rokin upp úr öllu valdi og fólk í byggingahugleiðingum er í vanda því verðið á steypustyrktarjárni hefur margfaldast og svo er það framleitt í Belarús ofan í kaupið. Við höfum verið minnt á að íþróttir, vísindi og listir eru rammpólitísk, þegar Rússar mega ekki lengur taka þátt. Eigum við svo eitthvað að ræða pólitík og viðskipti? Eða það hvernig fólki sem man kalda stríðið líður stundum eins og það sé að einhverju leyti skollið á að nýju með sínu ógnarjafnvægi og kjarnorkuvá?
„Stríðið minnir okkur á að hagsmunir okkar eru fléttaðir saman við hagsmuni fólks mörg þúsund kílómetra í burtu“
Stríð ársins 2022 litar líf okkar, þótt margir treysti sér ekki lengur til að fylgjast með daglegum fréttum af dauðsföllum í hryllingi sem við náum ekki utan um. Stríðið minnir okkur á að hagsmunir okkar eru fléttaðir saman við hagsmuni fólks mörg þúsund kílómetra í burtu og það minnir okkur á stóru málin sem við höfum hummað fram af okkur; matvælaöryggi og orkuskipti, um móttöku flóttamanna, um þjóðaröryggi. Mál sem við megum ekki lengur láta bíða.
Hin breytta heimsmynd sem þetta ár hefur boðið upp á gerir kröfu til okkar um að vera ábyrg og bíða ekki eftir því að þetta reddist eins og venjulega, heldur taka samtalið; móta stefnu og framkvæma. Læra af þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Gera 2022 að árinu sem allt breyttist en ekki bara til hins verra.
Hljómar einfalt. Er það ekki? En getum við samt reynt, plís?
Athugasemdir