Frá árinu 1969 hefur bókabíllinn ekið um götur Reykjavíkur. Bíllinn var hluti af bernsku minni í Grafarvogi, minningarnar sterkar, ilmurinn, eitthvert dulmagn yfir bókunum. Mörgum árum seinna, eftir að ég eignaðist sjálfur börn, varð bókabíllinn aftur hluti af hversdeginum, stoppar í hverfinu á mánudagskvöldum, akkúrat eftir kvöldmat, eiginlega of gott til að vera satt.
„Það má breyta bílastæði í bókasafn“
Rigningarkvöld: Dyr bókabílsins standa opnar, lygilega mjúk birta, eins og úr fortíðinni, fellur á blautt malbikið, ljósið glitrar á götunni, minnir á eitthvað úr ævintýri. Í börnunum sé ég endurkast af dulmagninu. Þau rekast á vini úr leikskólanum, bera saman bækur sínar í öllum skilningi, og við foreldrarnir líka. Þetta er einn af þessum áreynslulausu hápunktum vikunnar. Töfrastaður. Því þegar allt kemur til alls er bókabíllinn tákn sem segir: Það er til eitthvað annað og meira. Það eru til sjónhverfingar, það má breyta bílastæði í bókasafn, ekkert er eins og það sýnist, þetta er ekki bókabíll, þetta er ævintýri, þetta er ögrun við hugsunarhátt gróða og skilvirkni og hagræðingar. En því miður, of gott til að vera satt. Vegna niðurskurðarkröfu Reykjavíkurborgar hefur Borgarbókasafnið ákveðið að hætta rekstri bókabílsins frá áramótum. Það þarf að endurnýja bílinn og til þess fást ekki peningar. Eitthvað við þetta kemur ekki heim og saman. Því ef við erum eitthvað annað en bókaþjóð, þá erum við bílaþjóð. Við erum samfélag sem hefur efni á að reka og manna ráðherrabíla fyrir 240 milljónir á ári – við hljótum að hafa efni á ævintýrum. Við erum samfélag þar sem lögreglan rekur bifreið sem er „færanleg landamærastöð“ og félagsmálaráðherra vill sérútbúna bifreið sem gerir brottflutning á fötluðum flóttamönnum einfaldari og einhvern veginn smekklegri – þannig samfélag lifir ekki af án ævintýra.
Mánudagskvöld. Dyr bókabílsins standa opnar. Birtan flæðir út á götuna.
Svo eru ljósin slökkt.
Athugasemdir