Staðan sem er nú uppi í kjarasamningum launþega og vinnuveitenda er önnur og viðkvæmari en oft áður.
Átök um tekjuskiptingu
Til þessa liggja tvær tengdar ástæður. Önnur ástæðan er sú að nýkjörnir forustumenn sumra helztu launþegasamtaka landsmanna, einkum VR og Eflingar, leggja aðrar áherzlur en forverar þeirra og gera yfirleitt meiri kröfur um kjarabætur. Þau eru að því er virðist harðari í horn að taka en forverarnir og voru að vænta má kjörin af félögum sínum til forustu í því ljósi. Hin ástæðan er aukin óánægja meðal launþega með misskiptingu auðs og tekna. Slíkrar óánægju gætir ekki bara hér heima heldur einnig í mörgum nálægum löndum. Þessa varð vart til dæmis í Bretlandi þegar kjósendur sem töldu sig hafa orðið undir í efnahagslegu tilliti fengu því framgengt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016 að Bretar sögðu skilið við ESB. Svipað gerðist í Bandaríkjunum þar sem vonsviknir kjósendur töldu rétt að gera Donald Trump að forseta landsins 2017-2020. Misskipting auðs og tekna vekur úlfúð. Forustumenn launþega segja nú sumir efnislega eins og stundum er sagt í Afríku: Nú er komið að okkur að setjast að krásunum. Kjarabaráttan stendur að miklu leyti milli þeirra sem hafa fullar hendur fjár og hinna sem telja sig að ósekju fara of margs á mis.
Allt með ráðum gert
Tölurnar tala skýru máli. Ójöfnuður er meiri en áður var og ágerist með tímanum. Útvegsmönnum líðst enn sem fyrr í boði Alþingis að leysa til sín obbann af auðlindarentunni ár fram af ári þótt sjávarauðlindin eigi að heita sameign þjóðarinnar samkvæmt gildandi lögum. Kjósendur tóku af öll tvímæli um málið með 83% stuðningi við ákvæði um auðlindir í þjóðareigu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 2012. Fyrir atbeina Alþingis er nú orðin til ný auðstétt sem gerist æ frekari til fjár og valda líkt og til dæmis í Rússlandi og víðar með afleiðingum sem ættu að vera augljóst víti til varnaðar. Laun forstjóra íslenzkra fyrirtækja eru nú mun hærra hlutfall af launum óbreyttra starfsmanna en áður tíðkaðist. Forstjórarnir eru ekki bundnir af almennum samningum um kaup og kjör heldur sitja þeir í stjórnum hver hjá öðrum og skammta sjálfum sér og hver öðrum laun og kaupauka eftir hentugleikum. Þessi skipan hefur meira að segja borizt inn á vettvang stjórnmálanna þar sem bæjarstjórar um landið þiggja sumir laun svipuð þeim sem greidd eru borgarstjórum í milljónaborgum úti í heimi. Alþingismenn og embættismenn hafa með líku lagi skammtað sjálfum sér eftirlaunakjör langt umfram lífeyrisréttindi venjulegra launþega, svo mjög að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins neitaði stjórnlagaráði um aðgang að upplýsingum um hæstu greiðslur úr sjóðnum þegar eftir því var leitað formlega við samningu nýrrar stjórnarskrár 2011. Allt er þetta með ráðum gert. Kjararáð var notað til að færa embættismönnum, ráðherrum og þingmönnum ríflegar „leiðréttingar“. Úrskurðir ráðsins þóttu ógna svo friði á vinnumarkaði að VR, stærsta stéttarfélagið, ásamt Jóni Þór Ólafssyni alþingismanni, kærði Kjararáð til dómstóla 2017. Héraðsdómur vísaði málinu frá með þeim rökum að hvorki VR né þjóðkjörinn þingmaður hefði lögvarða hagsmuni í málinu. Sem sagt: héraðsdómur taldi stærsta stéttarfélagið ekki hafa lögvarinn hag af vinnufriði. Kjararáð var skömmu síðar lagt niður líkt og íranska siðgæðislögreglan. Bankasýslan er á sömu leið.
Sama borð?
Launþegar og vinnuveitendur sitja ekki við sama borð. Öðrum megin borðsins sitja fulltrúar vinnandi fólks sem hefur orðið fyrir umtalsverðri skerðingu kaupmáttar í verðbólgu síðustu missera og á sumt erfitt með að ná endum saman. Þessu fólki svíður mörgu misskiptingin í samfélaginu. Hinum megin við borðið sitja fulltrúar fyrirtækjanna og forstjóranna sem hafa margir sagt sig úr lögum við launþega með sjálftöku launa og hlunninda fram úr hófi. Þarna sitja meðal annarra forkólfar Viðskiptaráðs sem lagði það til hálfu ári fyrir hrun „að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“. Sjálftakan hefur farið fram ýmist fyrir opnum tjöldum eða með leynd eins og í ljós kom þegar Íslendingar reyndust miðað við mannfjölda eiga langflest nöfn í Panamaskjölunum þegar þau voru dregin fram í dagsljósið 2016 og afhjúpuðu undanskot 600 Íslendinga, bæði viðskiptaforkólfa og stjórnmálamanna. Yfirvöldin hafa að því er séð verður ekki brugðizt af festu við þessum undanskotum. Fjöldi Íslendinga í Panamaskjölunum bendir til að trúlega sé umtalsverður hluti af auði landsfólksins og fyrirtækja enn geymdur í erlendum skattaskjólum. Skoðum tölurnar. Fyrir 15 árum, 2007, var falið fé í skattaskjólum talið nema um 10% af samanlagðri heimsframleiðslu svo sem alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsa nú orðið undanbragðalaust, þar af er helmingurinn í Sviss, háborg skattaskjólanna síðastliðin hundrað ár. Hlutfall falins fjár af landsframleiðslu var langt yfir heimsmeðaltalinu í einstökum löndum, til dæmis fimmtungur á Ítalíu, röskur þriðjungur í Grikklandi, helmingur í Rússlandi og Sádi-Arabíu, tveir þriðju í Vensúelu og þrír fjórðu í Sameinuðu furstadæmunum. Um Ísland eru engar slíkar tölur til þar eð stjórnvöld sýna því engan áhuga að grafast fyrir um undanskotin. Sérstaða Íslands í Panamaskjölunum bendir þó til að íslenzka talan kunni að vera býsna há. Varla getur verið hægt að taka fullt mark á efnahagsreikningum fyrirtækja og opinberum tölum um skiptingu auðs og tekna ef miklum fjárhæðum er haldið utan við bókhaldið.
Öll spil upp á borð
Þarna er samtökum launþega vandi á höndum. Hvernig eiga þau að geta með góðu móti samið við vinnuveitendur um kaup og kjör ef raunverulegri afkomu fyrirtækjanna er haldið leyndri? – svo sem ætla má í ljósi þess áhugaleysis og þeirrar linkindar sem stjórnvöld hafa sýnt eigendum Panamareikninganna. Kennedy Bandaríkjaforseti orðaði þessa hugsun vel. Hann sagði: „Það er ekki hægt að semja við menn sem segja: „Mitt er mitt, við semjum um hitt.““ Þannig hljóta samningstilboð vinnuveitenda að hljóma í eyrum margra launþega svo lengi sem hulunni er ekki svipt af földum eignum í skattaskjólum. Launþegar ættu ef til vill að hugleiða hvort ekki gæti gefizt vel til langs tíma litið að forustumenn þeirra beini þeirri áskorun til stjórnvalda og vinnuveitenda að þau taki höndum saman um að draga falið fé í skattaskjólum fram í dagsljósið. Þá myndi birta til. Þá yrði auðveldara að semja um kaup og kjör á komandi tíð með öll spil uppi á borði.
Athugasemdir