Áfrýjunarnefnd samkeppnismála þarf að taka fyrir kæru Samskipa vegna sáttar sem samkeppnisaðilinn Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið. Sáttin var vegna ólöglegs samráðs Eimskips og Samskipa, sem fyrrnefnda fyrirtækið gekkst við og greiddi 1,5 milljarð króna í sekt fyrir á síðasta ári. Hluti af sáttinni fólst í því að Eimskip myndi slíta öllu samkeppnishamlandi samstarfi við Samskip og önnur fyrirtæki í flutningabransanum, ef Samskip ætti einnig í samstarfi við þau.
Þessu vill Samskip fá breytt og ber fyrir sig að kvaðir í sátt Eimskipa við yfirvöld feli í sér ólögmæta takmörkun á samnings- og atvinnufrelsi fyrirtækisins og veikti stöðu þess gagnvart Eimskipi. Samskip hefur ólíkt Eimskipi ekki viðurkennt brot á lögum í málinu og sætir fyrirtækið enn rannsókn fyrir sinn hlut í því ólöglega samráði sem samkeppnisaðilinn hefur þó viðurkennt.
Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hefði verið sú að Samskip hafi ekki átt rétt á að því að koma að gerð sáttarinnar við Eimskip. Þess vegna gæti Samskip ekki borið ákvæði sáttarinnar undir áfrýjunarnefndina. Skipafélagið kærði þá niðurstöðu. Héraðsdómur féllst á það með Samskipi, að lögvarðir hagsmunir væru undir í málinu og gerði áfrýjunarnefndinni að taka málið fyrir.
Athugasemdir