Stuttu fyrir áramótin 1930 var haldinn fjölmennur þingmálafundur á Egilsstöðum. Þangað mættu kjósendur og þingmenn kjördæmisins. Eins og oft áður og síðar var rætt um stöðu ríkissjóðs. Margir fundarmenn vildu halda því á lofti hvernig þáverandi stjórn, Framsóknarmannsins Tryggva Þórhallssonar, hefði þrefaldað skuldir ríkissjóðs á ekki mörgum árum, og lögðu því að sögn fram tillögu þar sem ríkisstjórnin var áminnt fyrir óráðsíu í peningamálum. Viðbrögð liðsmanna ríkisstjórnarinnar, sem voru í miklum meirihluta á fundinum, urðu í senn, kostu- og söguleg.
Í stað þess að fella tillöguna breyttu þeir orðalagi hennar í stuðningsyfirlýsingu við fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar og gerðu gott betur þegar þeir bættu í hana fullyrðingu um að skuldir ríkissjóðs hefðu ekkert aukist í tíð ríkisstjórnarinnar.
Erfitt er að gera sér í hugarlund hvort það hafi í alvöru vakað fyrir þeim sem að þessu stóðu, að með því að kjósa um og samþykkja svo augljóslega ranga fullyrðingu, yrði fullyrðingin um skuldastöðuna minna röng, en í öllu falli var hún samþykkt með meirihluta atkvæða og stóð því.
Þetta uppátæki Framsóknarmannanna á fundinum varð til þess að síðan hefur það verið kallað Egilsstaðasamþykkt þegar óskhyggja er borin á borð í formi ályktunar, sem er eftir sem áður í hróplegu ósamræmi við hlutlægan veruleika. Allt til þess að forðast raunveruleikann.
Nokkuð sem hefur freistað margra, fyrr og síðar.
Margt bendir til þess að nú næstum hundrað árum síðar sé enn einu sinni verið að flýja raunveruleikann í íslenskum stjórnmálum, með jafnvel enn bíræfnari hætti en á fundinum á Héraðinu.
Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur endurnýjaði heit sín fyrir ári síðan kom það eflaust fáum á óvart að ágreining stjórnarflokkanna um sjávarútvegsmál yrði með einhverju móti að tækla.
Nokkuð sem varð enn meira aðkallandi eftir að í ljós kom að eftir einn dýrasta ráðherrakapal sögunnar hafði málaflokkurinn endað í höndum þess einstaklings í ráðherraliðinu sem hvað harðast hefur talað fyrir því að gera breytingar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert að sérstöku keppikefli sínu að berjast gegn. Framsóknarflokkurinn lengst af líka, en síður undanfarin misseri.
Í öllu falli var ágreiningurinn álitinn svo erfiður viðfangs að finna þurfti leið til að halda honum frá hinum kjörnu fulltrúum við stjórn landsins, eins lengi og frekast var unnt. Á meðan þyrftu stjórnarflokkarnir ekki að rífast og eða taka afstöðu til þess hvað þeir raunverulegu vildu.
Lausnin hefði svo sem ekki lent á borði ráðherra nýsköpunarmála, heldur frekar þess sem fer með málefni menningar. Það var sumsé ákveðið að skipa nefnd.
„... nefnd til að til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“
Það verður seint sagt að ríkisstjórnin hafi þarna lofað upp í ermina á sér. Helst að forsvarsmenn hennar verði sakaðir um að hafa talað niður það sem til stóð.
Því útfærslan sem kynnt var í byrjun sumars og birtist okkur núna með fundarherferð, vefsíðu og myndböndum, undir yfirskriftinni Auðlindin okkar, er einungis birtingarmynd þess að til starfa hefur tekið nýtt fulltrúaþing, sem tekið hefur yfir starf þess sem fyrir starfaði við Austurvöll.
Fimmtíu manns tilheyra nú beint þessari „nefnd“ ríkisstjórnarinnar. Fimmtíu manns sitja í og starfa við fjóra starfshópa, eina verkefnastjórn og einn samráðshóp, sem tekið hafa til starfa. Þarna eru vissulega fulltrúar helstu hagsmunaaðila til sjós og lands. Aðilar vinnumarkaðar á sjó og landi meðal annars. Skárra væri það nú, þetta eru fimmtíu manns.
Það er merkilegt nokk sami fjöldi og situr á Alþingi, ef frá eru taldir ráðherrar og forseti þingsins.
Það er með öðrum orðum búið að skipa nýtt þing; „nefndarþing“. Allt til þess að losa hið þjóðkjörna við að þurfa að ræða mál sem almenningur hefur ítrekað sýnt að sé líklegast með óumdeildari deilumálum íslensks samfélags. Það hver eigi í raun auðlindir hafsins við Ísland og svo hvernig aðgangi og ávinningi þess verði skipt.
Þessum spurningum er samt ekkert endilega gert ráð fyrir að fáist svarað með „nefndarþingi“ ríkisstjórnarinnar. Í fréttatilkynningu í tengslum við skipan þess sagði í raun matvælaráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, beint út hvert væri í raun vandamálið sem þyrfti að takast á við, en benti síðan á urmul verkefna sem ætti að fara fyrir nýskipað „nefndarþing“.
„Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs eru meðal annars ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.“
Nýja þingið virðist þannig ekkert eiga að taka afstöðu til þessara grundvallaratriða, heldur á það að gera allt frá því að meta þjóðhagslega hagkvæmni fiskveiðistjórnunarkerfisins yfir í það að sökkva sér ofan í hugverkarétt. Og svo á auðvitað að gera enn eina tilraunina til að komast niður á sameiginlegan skilning þess hvað felist í hugtakinu tengdur aðili og taka sér ár í að kortleggja eignatengsl. Tvö síðastnefndu atriðin hafa raunar ýmist verið bundin í lög, sem skylda á herðum útgerða eða sérstakrar eftirlitsstofnunar, í hátt í þrjátíu ár. En líka verið sett á dagskrá nefnda áður.
Allt hefur þetta raunar verið gert áður í öðrum uppfærslum en af öðrum leikhópi. Og verður án efa gert aftur á meðan stjórnmálamenn telja einu sáttina í málinu felast í að sættast á að ýta málinu á undan sér.
Það sem er kannski sorglegast við þetta leikrit, sem nú er að birtast okkur í „nefndarþinginu“, er að fullt af hæfileikaríku og kláru fólki er raðað þarna inn til þess eins að hægt sé að segja að leitað hafi verið samráðs við alla mögulega í þetta skiptið, vitandi að þetta hefur allt verið gert áður undir öðrum merkjum, en með sömu niðurstöðu.
Þetta varð pínlega ljóst þegar birt voru myndbönd með hópstjórum starfshópanna fjögurra, í liðinni viku, þar sem þeim hafði verið stillt upp fyrir framan skjámyndir af smábátahöfnum, og þau látin þylja upp verkefni síns hóps, dálítið eins og gíslar að fara með kröfur mannræningja sinna.
Út úr þessu öllu vonast menn svo til þess að geta unnið frumvarp eða frumvörp, sem síðan verða lögð fyrir þingmennina sem sitja við Austurvöll.
En þá vandast málið – aftur.
En það á hins vegar ekki að gera fyrr en útséð er með að nógu stutt sé til næstu alþingiskosninga að ekki verði annað hægt fyrir ríkisstjórnarflokkana en að segja að þá fari best á því að geyma umræður um svo eldfim og flókin mál, fram yfir þær sömu kosningar.
Þar til næsta ríkisstjórn ákveður að setja á svið samráð.
Athugasemdir (2)