Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Sigrar pastelrasista í Svíþjóð: Fóru frá jaðrinum í ríkisstjórnarsamstarf

Ferða­lag sænska stjórn­mála­flokks­ins Sví­þjóð­ar­demó­krata frá því að vera jað­ar­flokk­ur í sænsk­um stjórn­mál­um yf­ir í að vera sam­starfs­flokk­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ein­stakt seg­ir stjórn­mála­skýr­andi. Flokk­ur­inn hef­ur náð að straum­línu­laga sig og fjar­lægja sig frá nasískri og rasískri for­tíð sinni þannig að fimmti hver Svíi kýs nú flokk­inn.

<span>Sigrar pastelrasista í Svíþjóð:</span> Fóru frá jaðrinum í ríkisstjórnarsamstarf
„Skánargengið“ sem breytti Svíþjóðardemókrötum Fjórmenningarnir sem breyttu Svíþjóðardemókrötum og komu flokknum í hæstu hæðir í Svíþjóð þrátt fyrir nasíska og rasíska fortíð flokksins. Þetta eru þeir Jimmie Åkesson, Björn Söder, Richard Jomshof og Matthias Carlsson. Mynd: Stundin

„Ferðalag flokksins er einstakt í sænskri pólitík. Enginn annar flokkur hefur, á svo skömmum tíma, farið frá því að vera svona lítill og illa séður yfir í að vera þátttakandi í ríkisstjórnarsamstarfi og vera með starfsmenn í stjórnarrráðinu þrátt fyrir að þeir séu ekki með ráðherra í stjórninni,“  segir Pontus Mattsson, blaðamaður og stjórnmálaskýrandi hjá sænska Ríkisútvarpinu, aðspurður um þá staðreynd að stjórnmálaflokkurinn Svíþjóðardemókratar, sem er í grunninn stjórnmálaflokkur með nasískar og rasískar rætur, er orðinn að samstarfsflokki sænsku ríkisstjórnarinnar. „Svíþjóðardemókratarnir eru hluti af ríkisstjórninni án þess að fá eigin ráðherra. Þeir fá hins vegar embættismenn sem vinna innan ríkisstjórnarinnar og verða þátttakendur í öllu sem ríkisstjórnin gerir. Þeir munu hafa mikil völd og áhrif.

Ulf Kristersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti nýja ríkisstjórn sína í gær. Ríkisstjórnin er mynduð úr flokki Kristersson, Moderatarna, Kristilegum demókrötum og Frjálslynda flokknum. Svíþjóðardemókratarnir verja stjórnina hins vegar falli og taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu þrátt fyrir að vera ekki með eigin ráðherra. Svíþjóðardemókratarnir eru í dag næststærsti flokkurinn í Svíþjóð, á eftir Sósíaldemókrötum, með 20,54 prósent fylgi eftir stórsigur í þingkosningunum í september. Flokkurinn er því stærsti flokkurinn sem kemur að ríkisstjórnarsamstarfinu. 

Tengslin við nasisma og kynþáttahyggju

Sænski blaðamaðurinn, Anna-Lena Lodenius, sem er sérfræðingur í sögu þjóðernis- og hægri öfgaflokka og hefur skrifað margar bækur um efnið, segir að þessi vegferð flokksins sé afar merkileg þar sem hann sé í grunninn flokkur sem byggðist upp á nasisma og fasisma. „Þetta er afar langt ferðalag. Svíþjóðardemókratar eru stofnaðir af Svíum sem eru með tengsl við nasisma og fasisma í Svíþjóð á þriðja og fjórða áratugnum. Að vissu leyti er flokkurinn alveg eins og hann hefur alltaf verið því skoðanir þeirra eru í grunninn þær sömu. Þeir vilja í grófum dráttum ekki neina innflytjendur, þeir vilja mínus-innflytjendur. En það sem hefur breyst er ásýnd flokksins og hvernig þeir hegða sér. Þeir koma fram, meira og meira, eins og hefðbundinn stjórnmálaflokkur sem aðrir eigi að treysta á. En samt koma upp hneykslismál hvað eftir annað um að einhver í flokknum hafi verið í slagtogi með nasistum eða sagt eitthvað sem byggir á kynþáttahatri,“ segir Anna Lena. 

Eitt af slíkum hneykslismálum sem kom upp fyrir nokkrum árum tengdist þingmanni flokksins, Oscar Sjöstedt, og Íslandi. Sjöstedt hafði verið að vinna í sláturhúsi á Íslandi og það var tekið upp myndband af honum þar sem hann sagði góðglaður frá því að nokkrir vinnufélagar hans hefðu sparkað í dauðar kindur og kallað þær Gyðinga. Sambærileg mál tengd flokknum koma upp reglulega í Svíþjóð og eru það slík mál sem Anna Lena vísar til. 

Á bleikum CadillacStjórnmálaskýrendur í Svíþjóð hafa í gegnum árin lýst því hvernig Svíþjóðardemókratarnir hafa slípað af sér öfgafyllstu hliðarnar og rasistaretóríkina til að höfða til breiðari hóps. Flokkurinn breytti merki sínu til dæmis í blóm og reyndi að mýkja ásýnd sína. Formaður flokksins, Jimmie Åkesson, kom fram á bleikum Cadillac fyrir kosningarnar fyrr á árinu og var þetta kosningabíll flokksins.

Frá hundsun að samstarfi

Mattsson segir að það sem er sögulegt við þetta ríkisstjórnarsamstarf sé í fyrsta lagi að Svíþjóðardemókratarnir taki þátt í því og í öðru lagi að aldrei áður hafi stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu verið samstarfsflokkur ríkisstjórnar og varið hana falli.  „Þetta ferðalag flokksins hefur átt sér stað í nokkrum skrefum. Stærsta skrefið var þegar flokkurinn komst inn á sænska þingið í fyrsta sinn árið 2010 en þá vildi enginn hafa neitt með þá að gera.

„Þeir munu hafa mikil völd og áhrif“
Pontus Mattson
útvarpsmaður

Aðspurður segir Mattsson að það hafi verið viðkvæm og eldfim spurning í sænskum stjórnmálum í mörg ár hvort aðrir stjórnmálaflokkar vilji vinna með Svíþjóðardemókrötum eða ekki. Hann segir að allir stjórnarflokkarnir hafi háð kosningabaráttu sína fyrr á árinu með því loforði að mynda ekki ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum. „Þetta hefur verið sérstaklega mikilvægt fyrir Frjálslynda flokkinn og þeir hefðu aldrei tekið þátt í ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum. Þannig að ríkisstjórnin er mynduð með þessum hætti í staðinn,“ segir Mattsson. 

Fá þá innflytjendapólitík sem þeir hafa barist fyrir

Einstakt ferðalag í sænskri stjórnmálasöguPontus Mattsson segir að ferðalag Svíþjóðardemókrata frá jaðri sænskra stjórnmála að ríkisstjórnarsamstarfi sé einstakt.

Pontus Mattsson segir að Svíþjóðardemókratarnir hafi fengið mikið af sinni pólitík í gegn í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar, Tidösamningnum. Áhrif Svíþjóðardemókratanna sjást fyrst og fremst í harðari innflytjendapólitík í Svíþjóð. Innflytjendapólitíkin er stærsta málið sem flokkurinn hefur beitt sér fyrir á liðnum árum en flokkurinn hefur viljað draga verulega úr fjölda þeirra innflytjenda sem fá að koma til Svíþjóðar. Til einföldunar má segja að þetta sé langstærsta baráttumál flokksins. „Í grófum dráttum má segja að innflytjenda- og afbrotapólitík nýju ríkisstjórnarinnar komi frá Svíþvíþjóðardemókrötum,“ segir Mattsson. 

Formaðurinn, Jimme Åkesson, talaði til dæmis mest um þessa spurningu þegar tilkynnt var um myndun stjórnarinnar og sagði hann að nýja ríkisstjórnin myndi leiða til breyttra forsendna fyrir innflytjendapólitík landsins. Svíþjóð mun til dæmis bara taka við eins fáum innflytjendum og stefna Evrópusambandsins leyfir landinu að taka við og munu kvótaflóttamennirnir sem landið tekur við á ári minnka úr 6.400 og niður í lágmarkið sem sambandið heimildar, 900. 

Þessi stefna er í raun stórsigur fyrir Svíþjóðardemókrata og sýnir að þeir hafa náð árangri í því að berjast fyrir því áherslumáli sem þeir telja mikilvægast. Jimmie Åkesson hefur sjálfur sagt um samstarf flokksins við ríkisstjórnina:  „Við erum með í ríkisstjórninni eins og hver annar ríkisstjórnarflokkur. [...] Ef maður les samstarfssamninginn frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu þá sér maður hvað áhrif okkar eru mikil.

Í Svíþjóð fer nú fram tilfinningaþrungin umræða um hvað felst í þessum stórsigri Svíþjóðardemókrata og þátttöku þeirra í ríkisstjórnarsamstarfinu. Sumir vilja meina að lýðræðinu í Svíþjóð sé nú ógnað vegna þess á meðan aðrir vilja meina að niðurstaðan sýni einmitt að lýðræðið virki. Rúmlega 1 af hverjum 5  Svíum kaus Svíþjóðardemókratana í kosningunum í september. 

Viðsnúningurinn algjör á tæpum 10 árum

Þessi nýja innflytjendapólitík Svía er algjör viðsnúningur frá því sem áður var en á árunum fyrir kosningarnar 2014 var Svíþjóð það land í Evrópu sem tók á móti flestum flóttamönnum, meðal annars frá Sýrlandi og Afganistan, miðað við höfðatölu. Þessi stefna Svíþjóðar hefur verið kennd við ræðu sem sænski forsætisráðherrann, Fredrik Reinfeldt, hélt um sumarið 2014 sem kennd er við brýningu hans: „Opnið hjörtu ykkar. 

Reinfeldt, sem var formaður hægrikrataflokksins Moderatarna, skoraði á Svía að viðhalda sams konar innflytjendapólitík og gefa heldur í og vísaði meðal annars  til stríðsins í Júgóslavíu. Segja má að Svíar hafi kosið gegn þessari stefnu í kosningunum það árið þegar Moderatarna misstu völdin og Svíþjóðardemókratar bættu við sig verulegu fylgi. 

Niðurstaðan er eiginlega sú í dag að Svíar hafa hafnað þeirri frjálslyndu innflytjendapólitík sem Fredrik Reinfelt hélt á lofti sem forsætisráðherra á árunum fyrir 2014, og boðaði áframhald á, til þess að í staðinn velja harðari innflytjendapólitík Svíþjóðardemókrata, sem hinir hægriflokkarnir Moderatarna og Kristilegir demókratar sannarlega styðja. 

Flokkurinn straumlínulagaði sig

Andlits- en ekki eðlisbreytingAnna-Lena Lodenius, sem er sérfræðingur í sögu þjóðernisflokka, segir að Svíþjóðardemókratar hafi breytt ásýnd sinni en ekki eðli.

Eitt það merkilegasta við sögu Svíþjóðardemókrata er hvernig flokkurinn hefur reynt að straumlínulaga sig, slípa af sér nasista- og rasistastimplana, til að höfða til breiðari fjölda Svía, sem almennt séð eru mótfallnir rasisma og hægri öfgahyggju. Svíþjóðardemókratar eru stofnaðir á grunni nasískra samtaka sem kölluðust BSS eða Bevara Sverige svenskt, Höldum Svíþjóð sænskri. 

Í stefnuyfirlýsingu þessara samtaka frá árinu 1979 sagði meðal annars: „Á hverju ári fækkar Svíunum. Eftir fjögur ár verður Svíþjóð Svíanna ekki lengur til. Innflytjendurnir og afkvæmi þeirra munu hafa tekið Svíþjóð algjörlega yfir. Kannski verður Tyrki einræðisherra og negri utanríkisráðherra. Fólkið verður þá súkkulaðibrúnt blandað fólk sem talar ekki sænsku heldur hins ýmsu ólíku tungumál. 

Í bók um sögu Svíþjóðardemókrata eftir sænska blaðamanninn David Baas kemur til dæmis fram hvernig flokkurinn reyndi að breyta ásýnd sinni. Þessi breyting hófst um aldamótin þegar Jimme Åkesson og þrír helstu samstarfsmenn hans, Björn Söder, Matthias Karlsson og Richard Jomshof tóku völdin í flokknum og straumlínulöguðu hann til að hreinsa af  honum nasista- og rasistastimpilinn. Fjórmenningarnir eru kallaðir „Skánargengið“  þar sem þeir kynntust við háskólanám í Lundi á Skáni: „Þetta eru þeir fjórir sem hafa pússað, hreinsað og endurmótað flokkinn og gert hann að stjórnmálaflokki á sænska þinginu. Þetta eru þeir sem hafa barist fyrir því að Svíþjóðardemókratar eigi að vera álitnir venjulegur stjórnmálaflokkur fyrir venjulegt fólk,“ segir í bókinni. 

Anna-Lena Lodenius segir að Jimmie Åkesson hafi til dæmis sagt að rasismi sé bannaður í flokknum. „Jimmie Åkesson sagði fyrir nokkrum árum að það væri: Engin þolinmæði fyrir rasisma í flokknum. Þrátt fyrir þetta þá eru birtar fréttir í nánast hverri viku sem tengjast rasisma eða óásættanlegri hegðun í flokknum,“ segir hún og vill meina að skoðanir og helstu stefnumál flokksins hafi ekkert breyst þrátt fyrir þessar útlitslegu breytingar á yfirborðinu. 

Þessi umbreyting á ásýnd flokksins hefur gert það að verkum að flokkurinn hefur verið kenndur við „nýfasisma“ eða sagt að meðlimir hans séu „rasistar í jakkafötum  eða „nasistar með bindi. Önnur leið til að lýsa meðlimum flokksins er orð eins og „pastelrasistar“ þar sem táknum og hörðum litum nasismans hefur verið skipt út fyrir önnur tákn og mýkri liti.  Innihaldið, stefnan, er samt það sama. 

Frá fána til blómsMyndin sýnir hvernig tákn Svíþjóðardemókratar voru með fram til ársins 2006, brennandi sænskan fánameð slagorðinu Fyrir sænska Svíþjóð, sem var stolið frá breska rasistaflokknum National Front. Árið 2006 var merki flokksins breytt í blóm.

Frá brennandi fána í blátt blóm

Í bók David Baas er fjallað um það að eitt af því sem fjórmenningarnir beittu sér fyrir eftir að þeir tóku völdin var að breyta merki flokksins úr brennandi sænskum fána í blátt blóm sem kallast skógarblámi á íslensku. Þetta gerðist árið 2006, fjórum árum áður en flokkurinn komst fyrst inn á sænska þingið. Brennandi fáninn sem Svíþjóðardemókratar voru með sem tákn var stolið frá breska rasistaflokknum National Front. Í bók David Baas segir að nýja flokksforystan hafi viljað gera það sama og „flestir aðrir flokkar“ og velja blóm sem tákn. Þetta var liður í því að gera Svíþjóðardemókratana venjulega, að venjulegum stjórnmálaflokki, fyrir venjulegt fólk. 

Síðan þá eru liðin 16 ár og nú eru Svíþjóðardemókratar orðnir stærsti stjórnmálaflokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfi og hafa það í hendi sér hvort þessi nýja hægri stjórn lifir af eða ekki.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Uppgangur þjóðernishyggju

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár