Ég man að lengi eftir að viðtalið mitt við Guðberg Bergsson birtist í tímaritinu Storð árið 1983 var ég hálf óánægður með það — það er að segja minn hlut. Mér fannst ég hefði átt að fara miklu dýpra í bókmenntafræðina. En nú þegar ég les það að nýju — í tilefni af níræðisafmæli Guðbergs í dag — þá sýnist mér viðtalið alveg birtingarhæft. Svo ég leyfi mér að setja það hér, og Páll ljósmyndari gaf mér leyfi til að birta nokkrar mynda hans með.
Hér kemur þá viðtalið og fyrst er formáli eftir sjálfan mig:
Einu sinni var ég ungur drengur og fór sem oftar á kaffihúsið Mokka.
„Þarna,“ sagði lagsmaður minn og benti, „er sá maður sem hugsar ljótast á öllu Íslandi.“
Það var hávaxinn maður og glottuleitur, með derhúfu, að fá sér espressó hjá honum Guðmundi.
„Hver er þetta?“ spurði ég öldungis grandalaus.
Hvíslað yfir borðið og röddin næstum óttaslegin:
„Guðbergur Bergsson!“
Kannski Íslendingar hafi nú gleymt subbuskapnum, kláminu og viðbjóðnum sem þeir lásu í eina tíð úr bókum Guðbergs Bergssonar. Varla alveg, þó hann sé nú farinn að fá menningarverðlaun dagblaða. Um fyrstu bækur hans — einkum Tómas Jónsson metsölubók, Ástir samlyndra hjóna og Önnu — stóðu þvílíkar deilur að þjóðin hafði ekki upplifað annað eins í bókmenntum síðan Laxness var sakaður um að vilja kollvarpa bændamenningunni og Fóstbræðrasögu.
Í öllum þeim hamagangi varð það að mestu útundan, nema hjá fáum einum, að Guðbergur var að gera einhverja mestu formbyltingu sem íslensk skáldsaga hafði orðið að þola, og eftir á að hyggja er ekki vafi á að sú bylting var nauðsynleg og gagnleg. Þar að auki skapaði Guðbergur sinn eigin prívatheim með töluvert markvissari hætti en títt er um íslenska rithöfunda.
Úthrópaður
Guðbergur Bergsson fæddist í Grindavík árið 1932, hann stundaði um hríð nám í Kennaraskólanum en fór síðan til útlanda og var lengst af á Spáni. Fyrstu bækur hans komu út upp úr 1960 — ljóðabókin Endurtekin orð, skáldsagan Músin sem læðist og smásagnasafnið Leikföng leiðans — og fáir vissu við hverju var að búast.
1966 kom Tómas Jónsson metsölubók eins og skrattinn úr sauðarleggnum; áhrifum þeirrar bókar má vel líkja við þann usla sem Ulysses eftir James Joyce olli í evrópskum bókmenntum tæpri hálfri öld áður.
Það dugar lítið fyrir þá sem lesa og skrifa bókmenntir hér á landi að láta sem Tómas sé ekki til, og gildir þá einu hvort menn lesa bókina sér til ánægju eður ei. Rétt eins og Ulysses var Tómas Jónsson metsölubók úthrópuð af mörgum sem formleysa, ringulreið, ruslahaugur, en þó mun sönnu nær að formfastari og reglulegri bók hafi vart verið skrifuð á íslensku, nema ef vera skyldu síðari bækur Guðbergs sjálfs, þar sem Tangaheimurinn hans birtist í öllu sínu veldi.
Fyrst komu Ástir samlyndra hjóna og Anna; nokkru síðar Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og loks Það rís úr djúpinu.
Hér verður ekki gerð tilraun til að ráða í Tangaheim Guðbergs; þetta er flókinn heimur og hýsir margbrotnar persónur; um leið dregur Guðbergur upp, á sinn hátt, raunsæjar lýsingar á íslensku alþýðufólki eða öllu heldur sálarlífi þess. Að þessu víkur hann hér á eftir.
Um það bil sem áttundi áratugurinn var að renna sitt skeið á enda kom Guðbergur lesendum sínum enn á óvart með því að varpa Tangaveröld sinni fyrir róða og hefja að skrifa Reykjavíkursögur. Þær eru nú orðnar þrjár; Saga af manni sem fékk flugu í höfuðið, Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans og Hjartað býr enn í helli sínum.
Í þessum bókum notar Guðbergur ofurraunsæi sitt, sem svo hefur verið kallað, til skopfærslu, nákvæmrar rannsóknar á reykvísku þjóðfélagi og stundum hreint og beint til árása á það sem honum fellur ekki. Þessar bækur eru umdeildar eins og allt annað sem Guðbergur hefur tekið sér fyrir hendur. Meira að segja þýðingar hans úr spænsku hafa orðið tilefni blaðaskrifa.
Sjálfur er Guðbergur afar hæglátur maður og rólegur og á heimili hans á Vífilsgötu er langt frá því að vera íburður.
Hvers konar þjóðfélag var það sem ól upp Guðberg Bergsson?
Fyrst og fremst var það fátækt þjóðfélag. Skálholtsstóll hafði átt þennan stað frá alda öðli og þaðan var rekin útgerð. Langt fram á þessa öld var Grindavík afskaplega snauður bær. Foreldrar mínir urðu til dæmis aldrei ríkir.
Það þótti afar ófínt að vera úr Grindavík, man ég. Í hvert sinn sem ég var spurður hvaðan ég væri og ég sagði að móðir mín væri úr Grindavík en faðir minn af Snæfellsnesi þá fékk ég að heyra söguna um teppin. Hún var þannig að einu sinni voru tvö teppi á ferð og þau skriðu þvert yfir landið. Fólkið skildi ekki hvernig á þessu stóð og fór að athuga málið og þá kom í ljós að það voru lýs sem drógu teppin áfram. Annað teppið kom af Snæfellsnesi en hitt frá Grindavík.
Auk þess var sagt vera mjög ljótt í Grindavík. Fólk sagði alltaf við mig: Skelfing er ljótt í Grindavík, skelfing er það ljótt fólkið þar og heimskulegt eitthvað. En svo fór þetta að breytast eftir að höfnin var gerð. Þá var allt í einu farið að tala um að það væri fallegt í Grindavík. Í fyrsta sinn sem ég heyrði það var ég næturvörður á Hótel Borg og Gunnar Gíslason, alþingismaður, sagði mér að það væri fallegt í Grindavík.
En oftast fékk maður bara söguna um þessar lýs.
Hversu lengi varstu í Grindavík?
Ja, ég var þar þangað til ég var sendur í sveit til að vinna fyrir mér, svona eins og önnur börn. Frá því að ég var tíu ára hef ég aldrei verið heilt ár í Grindavík.
Manstu hvenœr þú fórst fyrst að velta því fyrir þér að verða rithöfundur?
Ég held að það hafi verið afar snemma. Ég man að hún kom einu sinni til okkar, konan sem hugsaði um hann Einar Benediktsson. Þá sagði ég við sjálfan mig: Ég ætti að verða rithöfundur. Þetta var í fyrsta sinn, svo ég muni, að ég orðaði þessa hugsun, mótaði hana.
Það er svolítið undarlegt að ég skyldi hafa hugsað um þetta þá vegna þess að það var aldrei talað um Einar sem skáld heima hjá mér. Hann var lokaður inni í herbergi í Herdísarvík og það var látið sem hann væri við skáldskap en allir vissu að hann var bara gamall, sjúkur maður. En í þetta sinn varð heimsókn Hlínar Johnson til þess að ég fór að hugsa um að verða rithöfundur.
Hvað lastu í æsku?
Það voru engar bækur til í Grindavík, engar. Þar af leiðandi las ég voðalega lítið og ég held að það hafi orðið mér til góðs. Ímyndunaraflið kemur í staðinn fyrir bækur og það er miklu eðlilegra, held ég, að börn og unglingar lifi í sínum eigin hugmyndaheimi en að þau rýni í einhverjar bækur.
Mér finnst flestar barnabækur nú til dags vera mjög skaðlegar. Þær setja hömlur á ímyndunaraflið og barnið fær ekki að vera frjálst. Ímyndunaraflið á að fá að leika lausum hala og barnið á að segja sér sögur sjálft.
En einstaka sinnum fann maður samt bækur í Grindavík, þá venjulega í einhverju drasli. Ég man að einu sinni fann ég part af Gosa í ruslatunnu og það var gífurlega mikill fundur. Þetta var fyrsta þýðingin, gerð 1925, og ég hef síðan komist að því að hún er mjög góð. Gosi er frábært listaverk, en seinni þýðingarnar eru mjög slæmar — ég tala nú ekki um Gosa í Þjóðleikhúsinu.
(Framhald fyrir neðan myndina.)
Þegar þú ákvaðst að verða rithöfundur; hvaða sögur vildir þú segja? Hverju vildir þú lýsa?
Ég held að ég hafi ekki ákveðið að verða rithöfundur heldur hafi ég beinlínis neyðst til þess. Bæði var það mitt eðli og svo hitt að ég gat ekki lært það sem ég vildi læra. Það var útilokað. Ég reyndi líka lengi að komast hjá því að verða rithöfundur. Ég vildi ekki vera það vegna þess að maður lifir í hagnýtum heimi og ég reyndi að taka einhverjar hagnýtar ákvarðanir. En að lokum varð ég að láta undan, fyrst lítillega og loks alveg.
Auðvitað varð ég síðan að búa mig mjög vandlega undir það að verða rithöfundur. Ég varð að lesa mikið eftir aðra og þá gerði ég mér grein fyrir því að ég vildi ekki bara segja sögur. Ég gat ekki hugsað mér að auðga bækur mínar einvörðungu með einhverri sniðugri frásögn eða vel gerðu formi, heldur vildi ég hafa í þeim einhverja meginhugsun — eitthvert viðhorf til lífsins, byggt á persónulegu innsæi.
Ég vildi líka að persónurnar í bókum mínum væru ekki aðeins persónur í bókum, sem sé týpur, heldur skyldu þær vera einstaklingar. Það er ekki hægt að segja um mínar persónur: Þetta fólk er úr Grindavík, þetta fólk er af Snæfellsnesi.
Slíkt hefur mér aldrei þótt vera bókmenntir, fagurbókmenntir, heldur eingöngu frásögur.
Ég lít ekki svo á að íslenskir rithöfundar skrifi fagurbókmenntir, þeir eru bara að skrifa sögur. Höfuðókostur bóka þeirra er sá að þú þekkir einhvern úr henni. Þetta er hann Jón af Snæfellsnesi. Af þessum sökum lít ég ekki á Íslendinga sem bókmenntaþjóð heldur sem bókaþjóð. Í mínum bókum hef ég reynt að gera hverja persónu að einstaklingi.
Einkum og sér í lagi hef ég reynt að lýsa alþýðufólki. Alþýðumaðurinn er vitsmunavera, ekki síður en borgarinn, og hann er gæddur flóknu og margbrotnu tilfinningalífi. Í öðrum bókum er það sífellt borgarinn sem er að brjóta heilann um veruleika sólarinnar eða trúarinnar eða þjóðfélagsins en í mínum bókum gerir alþýðumaðurinn það líka.
Það er vitund hans sem mér finnst skipta höfuðmáli að lýsa og ég hef tekið eftir því að hið sama er uppi á teningnum í nýlegum bandarískum kvikmyndum, til dæmis Hjartarbananum. Námuþorpið í þeirri mynd gæti verið komið úr verkum mínum þó auðvitað hafi Bandaríkjamenn aldrei lesið bækur eftir mig. Í myndinni, eins og í mínum bókum, er alþýðumaðurinn ekki lengur einhver sem þú hefur samúð með eða hæðist að, heldur er athyglinni beint að vitunarlífi hans.
Voru einhverjir sérstakir rithöfundar sem höfðu áhrif á þig í upphafi ferilsins?
Nei. Það er enginn rithöfundur sem hefur haft sérstök áhrif á mig. En þó hef ég alla tíð verið mjög hrifinn af tveimur höfundum sem eru þeir Dostoévskíj og Stendhal. Kannski er það vegna þess að þeir voru báðir nokkurs konar utangarðsmenn og lifðu ekki í einum heimi heldur í mörgum.
Stendhal skrifaði undir ýmsum nöfnum en slíkt er mjög æskilegt vegna þess að það er afar sjaldan sami maðurinn sem skrifar tvær bækur í röð. Hann þröngvar nafni sínu upp á verkin. Auðvitað ætti rithöfundur helst að birta verk sín nafnlaus, því þannig sýnir hann skáldskapnum lítillæti og einlægni.
Þú talar um meginhugsun. Hvað áttu við með því?
Ja, það er yfirleitt svo að í hverri sögu verður maður að hafa einhverja meginhugsun eða eitthvert meginform. Þetta tvennt hlýtur að fylgjast að og meginhugsunin getur jafnvel verið fólgin í forminu sjálfu. Ég hef til dæmis gert tilraun til að skrifa það sem ég kalla „hugsað mál“. Fólk hugsar afar sjaldan í skrifuðu máli, heldur er hugsunin tætingsleg og oft órökræn. Mér þótti eftirsóknarvert að ná þessu.
Já, það er talað um Joyce og „stream of conciousness" hans en það er mjög skipulagt mál. Með mínu „hugsuðu máli“ þykir mér ég hafa náð fram ákveðnu hljómfalli sem ekki er til í bókmenntunum, að minnsta kosti ekki í íslenskum bókmenntum. Með þessum hætti getur meginhugsunin runnið saman við formið.
Tómasi Jónssyni metsölubók er stundum líkt við Joyce.
Í Tómasi Jónssyni er það heilt tímabil sem liggur í kör. Ég hafði hugsað mér að gera upp við þessa aldamótakynslóð og sú ætlun mín réði forminu. Persónur mínar fá að vera sjálfstæðar.
Tómas vakti geysilegar deilur. Hvernig komu þér viðtökurnar fyrir sjónir?
Á þessum árum var ég langdvölum í útlöndum, aðallega á Spáni, svo ég varð lítið var við þessar deilur. En í sambandi við Tómas Jónsson — ég hafði ætlað mér að fylgja fordæmi Dostoévskíjs og skrifa eina bók fyrir hádegi og aðra eftir hádegi. Þetta fannst mér mjög freistandi.
En sá var munurinn á mér og Dostoévskíj að hann hafði einkaritara en ég varð bæði að semja og skrifa svo þetta varð náttúrlega miklu erfiðara hjá mér. Sú bók sem ég vann að samtímis Tómasi Jónssyni var Hermann og Dídí sem er allt öðruvísi bók og kom út löngu seinna.
Bækurnar snertast nú samt að ýmsu leyti. Mér hefur raunar alltaf þótt það merkilegast við þínar bœkur; hvernig þú skapar þína eigin veröld á mun skýrari hátt en flestir aðrir íslenskir rithöfundar.
Já, en flestir rithöfundar gera þetta að meira eða minna leyti. Balzac er náttúrlega prýðilegt dæmi og Gabriel García Márquez en við Íslendingar þekkjum best Íslendingasögurnar þar sem sama fólkið kemur fyrir í sögu eftir sögu.
Hvers konar heimur er þessi Tangaheimur þinn? Af hverju varð hann til?
Ég held að hann sé nú aðallega svona heimur sem maður býr sér til þegar maður hefur verið lengi í útlöndum. Maður getur aldrei samlagast fullkomlega og þá býr maður sér til sinn sérheim. Þegar ég er hér finnst mér ég ekki eiga neitt sameiginlegt með þessum heimi.
Anna og/eða Katrín, Hermann, Svanur, Dídí; þetta fólk sem byggir Tangaheiminn. Hvaða fólk er þetta?
Það er í rauninni afar erfitt að segja. Þegar manni hefur tekist að skapa fólk í skáldverki þá er hægt að túlka það á marga vegu. Í bókum mínum er hægt að sjá persónurnar frá mörgum hliðum. Það sem kannski er einkennandi fyrir það er að það lifir við afskaplega mikla streitu á yfirborðinu, og einhvern veginn sættir það sig ekki við raunveruleikann sem það býr við. Um leið er það ákaflega skapandi. Það er sagt við mig: Þér þykir ekki vænt um persónurnar, þú gerir þær ekki góðar. Það er alveg rétt, en mér getur þótt listrænt vænt um þær. Það er aðalatriðið.
Telurðu að lýsingar þínar á fólki séu raunsœjar?
Mér er sagt að þær séu það, já, en ég læt mér það í rauninni litlu varða. Fyrir mér er þetta umfram allt skáldskapur — minn skáldskapur og minn raunveruleiki. Mér finnst vera ríkjandi mjög einkennilegt viðhorf til skáldskapar og veruleika.
Hér áður fyrr las fólk Íslendingasögurnar og dæmdi svo hegðun annarra út frá þeim: Ja, ekki hefði hann Njáll sagt þetta. En nú les fólk bækur og segir: Ekki hitti ég hana Jónu í þessari bók, ekki hefði hún Jóna sagt þetta. Skáldskapurinn er sem sé dæmdur út frá raunveruleikanum sem sannar að við erum ekki bókmenntaþjóð.
Þegar maður les bók á maður að líta á hana sem sérstakan veruleika. Stenst þetta innan veruleika bókarinnar?
Auðvitað er alltaf eitthvað í bókum sem á sér hliðstæður í veruleikanum vegna þess að bækur eru hluti veruleikans og í bókum verður alltaf að vera dálítið af Góðan daginn, sagði hún, og Góðan daginn, sagði hann.
Mitt viðhorf til skáldskapar, mín heimspeki, kemur best fram í ljóðabók sem heitir Endurtekin orð og flest allt í bókum eru svona endurtekin orð. Maður skapar í raun og veru ekkert nýtt — lagar í mesta lagi svolítið til. Fólk hefur verið að þróast í mörg þúsund ár og það getur enginn þóst finna það allt í einu upp. Tenging listaverksins við mannlífið er hugsunin.
Frá og með Sögu af manni sem fékk flugu í höfuðið hverfur Tangaheimurinn úr verkum þínum. Í þessum seinni bókum er annar tónn en í hinum fyrri; einhver hæðnistónn ef mér skjöplast ekki.
Það stafar af því að íslenskt þjóðfélag er svo þröngt að það er stöðugt þjarmað að rithöfundinum. Það sem ég hef skrifað eftir Tangaflokkinn skiptir mig afar litlu máli. Tangaflokkurinn samanstóð af bókum sem ég hafði skapað eða skipulagt að mestu leyti sjálfur og ég hélt áfram að þróa hann vegna þess að ég held að rithöfundur eigi ekki að taka þátt í auglýsingaleiknum — vera nýr með hverri bók. Það er tætingslegt að skrifa um eitt á þessu ári og annað á því næsta og mér finnst það vera meiri íþrótt en skáldskapur.
Raunverulegir listamenn fremja jafnan sjálfsmorð með list sinni — nota list sína sem sjálfsmorðstæki. Þess vegna hefði verið eðlilegast að ég hefði fengið að skrifa um þetta Tangafólk þangað til — ja, þangað til ég hefði hætt að skrifa um það. En svo fór nú ekki. Ragnar í Smára, hann sagði við mig: Þú skrifar alltaf um sama fólkið, þú getur ekki skrifað um neitt annað, þú ert algerlega staðnaður.
Það á ekki að skipta höfund neinu máli hvað aðrir segja en ég fór nú samt eftir því sem hann sagði. Síðan er sagt að maður sé í einhverri endurnýjun en það er vitleysa. Ég hef einungis látið undan vissum kröfum. Það er eins og menningarpostular hér telji þessa þjóð ekki hafa efni á að eiga rithöfund sem fylgir aðeins sinni eigin sannfæringu.
En úr því að ég fór út í það að skrifa öðruvísi bækur en mig langar til að skrifa — þá skal ég verða nýr með hverri bók! Flestum þykir það eftirbreytnisvert en það finnst mér ekki. Það er bara íþrótt. Maður reynir auðvitað að gæða þessi skrif skáldskap og eigin persónuleika en fyrst og fremst finnst mér þau vera íþrótt.
Heldurðu að þú takir til við Tangafólkið aftur?
Ég veit það ekki. Ég hef stundum verið beðinn um að gefa út heildarútgáfu á verkum mínum en hef ekki fengist til þess vegna þess að ég hef tilhneigingu til að líta á verk mín sem heljarmikla prentvillu. En svo hef ég það líka í huga að eiga síðasta orðið. Galileo var neyddur til að éta ofan í sig kenningar sínar en svo muldraði hann úti við kirkjudyr: En jörðin snýst nú samt. Þetta er það sem ég vil gera. Ég held alltaf þeim möguleika að snúa aftur til þess sem mér þykir mest um vert í mínum verkum.
Ætli sé ekki rétt að segja að bœkur þínar séu þrungnar siðferðiskennd?
Jú. Rithöfundur er auðvitað á ákveðnu siðferðisstigi og því er allt sem hann skrifar byggt á siðferði, hvert einasta orð. Einhver segir kannski við mig: Hvers vegna lætur þú Jónu segja ljótt orð? Vegna minnar siðferðiskenndar. Það er siðfræði listaverksins en ekki endilega raunveruleikans — það er sem sé ekki hin venjulega siðferðiskennd.
Þú gætir spurt mig: Hvers vegna skrifar þú ekki sögur um líf þitt á Spáni? Þú þekkir Spán og þessar bækur myndu seljast. En siðferðiskennd mín bannar mér það. Siðferðiskennd mín segir mér að ég eigi að skrifa um Tómas Jónsson og að ég eigi að gera það einmitt svona.
Siðferðiskennd mín segir mér að Jóna eigi að nota ljótt orð. Flestir rithöfundar hafa afar sterka siðferðiskennd en þeir bera einvörðungu ábyrgð gagnvart sjálfum sér og list sinni. Þeir taka siðferðilega afstöðu með verkum sínum.
(Framhald fyrir neðan myndina.)
Í blaðagrein fyrr á þessu ári sagði bókagagnrýnandi einn að þú vœrir vissulega góður rithöfundur ennþá en orðinn voðalega íhaldsamur með aldrinum. Hvað finnst þér um þessa fullyrðingu?
Ég býst við að hann hafi átt við mig sem rithöfund. Í stjórnmálum er ég ekki, og hef aldrei verið, bundinn neinni pólisíu. Fólk hefur alltaf ímyndað sér að ég sé mjög fylgjandi kommúnismanum og Sovétríkjunum en slíkt viðhorf hef ég gagnrýnt í öllum mínum bókum.
Sérstaklega í Tómasi Jónssyni enda urðu sósíalistar á Íslandi mér fjarska reiðir fyrir þá bók.
Ég fékk miklu meiri skammir á mig frá sósíalistum en hægri mönnum. Munurinn var bara sá að gagnrýni hægri manna kom í Morgunblaðinu þar sem allir gátu lesið hana, en í einkasamræðum við vinstri menn sætti ég miklu grimmari árásum.
Þá hugsaði ég: Hvað er sannleikur? Ef ég hefði aldrei sagt frá því að sósíalistar gagnrýndu mig þá hefði enginn trúað því vegna þess að það birtist ekki í dagblöðunum. Framtíðin les bara Morgunblaðið. En sósíalisminn var rísandi hugsjón, bræðralag allra manna og átti að geta sigrað heiminn — hann hafði mikinn trúarblæ yfir sér eins og allar pólitískar skoðanir.
Pólitík og trú eru af sama meiði og sósíalistar áttuðu sig á því að ég er maður samvisku fremur en trúar — í stjórnmálum eins og öllu öðru. En það er ekki þar með sagt að ég sé einhver óvinur Sovétríkjanna eða kommúnismans. Ég held að það hafi verið unnin mikil stórvirki í Sovétríkjunum og margt mjög athyglisvert hefur verið þar að gerast.
Því miður hafa sósíalistar nú snúið baki við Sovétríkjunum og líta ekki þangað. Trúarofstækið í hina áttina er orðið svo mikið að allar fréttir þaðan eru bæði fáar og málum blandnar. En sjálfur hef ég sem sagt ekki ríka trúarhneigð. Ég er maður samviskunnar.
Ég þykist líka vita að fyrrnefndur bókagagnrýnandi hafi átt við ritstörf þín er hann talaði um íhaldsemi.
Já, ætli það sé ekki sagt vegna þess að ég er ekki lengur í því að brjóta form og því um líkt. Sérstaklega núna, þegar er að rísa einhvers konar síð-súrrealismi hér á landi. Það eru margar stefnur í gangi og ef maður er ekki með í hópnum, þá er talið að maður sé íhaldsamur. En auðvitað skrifar maður sig yfirleitt til íhaldsemi og sá sem hefur skrifað lengi festist alltaf í einhverju formi. Það er óhjákvæmilegt held ég.
Nú um stundir ertu líka mikið gagnrýndur fyrir þá afstöðu til kvenna sem menn þykjast lesa úr bókum þínum. Finnst þér sú gagnrýni vera réttmæt?
Mér finnst öll gagnrýni vera á einhvern hátt réttmæt. En þegar ég skrifa Tómas Jónsson þá er ég ekki aðeins að skrifa um þennan aldamótaheim sem er að líða undir lok — ég er líka að skrifa um karlmannaveröldina. Þar kemur fram að karlmaðurinn sem valdamaður er orðinn þekkt stærð. Og þegar maður er einu sinni þekkt stærð þá kemur ekki meira frá manni.
Ég segi: Karlmaðurinn er úr leik vegna þess að öll framtíð byggist á hinu óþekkta. Konan er óþekkt stærð og þá verður hún að einhverju leyti að taka við. Þetta var löngu á undan hinni nýju kvennabaráttu og í mínum bókum er umræða um kynjahlutverk miklu róttækari en hjá konum.
En svo kemur það í ljós um leið og konur fara að taka við að þær hafa ekki upp á svo mikið að bjóða. Ekki það að ég sé að tala um konur sem heild. Það finnst mér afskaplega heimskulegt. Bæði konur og karlar eru umfram allt einstaklingar og það eru engir tveir einstaklingar alveg eins. En konurnar segja að allar konur séu eins. Kvennahugsjón er einhver sérstök hugsjón.
Ein og sama hugsjón fyrir allar konur — það er niðurlæging fyrir konurnar. Mér finnst það svipað því og að segja: Allir þjónar hugsa eins. Ég man að þegar ég vann á Hótel Borg var einu sinni verið að gagnrýna nokkra þjóna. Og þá sagði yfirþjónninn: Það er bara verið að níða niður þjónastéttina. Þetta fannst mér ekki vera rétt hugsun.
En sama segja konurnar nú. Það er verið að ráðast á konur. Ég er alls ekki að ráðast á konur. Ég er í mesta lagi að ráðast á einhverja einstaklinga. En það er alltaf svona. Nýjar stefnur eru í eðli sínu ófrjálslyndar en samt sem áður finnst mér það mjög slæmt og bera vott um gagnrýnisleysi að skýla sér á bak við heildina.
Konur eru ekki stétt þó þær virðist halda það. Þær eru með blað sem heitir Vera og þegar maður ber það saman við sjómannablaðið Víking — þá sér maður engan mun.
(Framhald fyrir neðan myndirnar.)
Hvernig skrifar þú bækur, Guðbergur? Hvar byrjarðu?
Ég byrja nú venjulega á því að skipulegggja hugsanir í höfðinu á mér. Oftastnær er það þannig að þar eru einhverjar hugsanir að sveiflast til og frá og svo fara þær smátt og smátt að taka á sig mynd. Síðan er það bara þjálfunaratriði að setjast niður og byrja að skrifa. Maður lætur þá hinar duldu hvatir vinna fyrir sig. En ég skrifa aldrei neitt niður áður en ég hefst handa. Sumir rithöfundar ganga svo langt að halda spjaldskrá yfir fólkið og það sem á að gerast en ég geri það ekki. Ég skipulegg bara í höfðinu. Yfirleitt fer það svo að ég þarf að bæta við en ekki strika út.
Þú hefur verið afkastamikill undanfarin ár. Ertu stöðugt að vinna?
Já, ég er alltaf að vinna. Þetta er mitt starf og ég þarf að rækja það.
Ertu ánægður með feril þinn hingað til?
Ég veit ekki hvort það er hægt að segja að ég sé ánægður. En ég held að ég hafi verið trúr sjálfum mér. Ég er gæddur ríkri sjálfsvirðingu og fer ekki út á stræti og kveina. Ég bið aldrei um vægð. Þó ég fái skell þá finnst mér það eðlilegt. Mér finnst ég vera virðingarverður sem persóna og rithöfundur. Það skiptir miklu meira máli en að ég sé alltaf kátur og glaður.
En er einhver ein af bókum þínum sem þú ert ánægðari með en aðrar?
Já. Það er Anna. Mér finnst hún bera af flestum mínum bókum, bæði að formgerð og innihaldi. Hún er afskaplega margræð og ég sætti mig alveg við það. Ég eltist ekki við einfaldleikann. Margræði Önnu er æskilegt og óhjákvæmilegt.
Við skulum enda þetta á Önnu. Það er líklega óhætt að segja að þungamiðja þeirrar bókar sé tvíeðli Önnu/Katrínar; það kemur við sögu víðar í Tangaflokknum. Hvernig skýrirðu þetta tvíeðli?
Ja, annars vegar er það mjög einfalt en hins vegar nokkuð flókið. Anna og Katrín eru náttúrulega mismunandi hlutar sömu persónu — ég nota þetta aðallega til að einn þáttur persónuleikans geti fjallað um hinn. Þetta er sem sé hugmyndin um Doppelgängerinn sem hlýtur alltaf að höfða mjög til listamannsins vegna þess að í honum býr bæði listamaður og svo venjulegur maður. En hvernig ég nota þetta í smáatriðum — það er ansi margbrotið og ég vil ekki fara nákvæmlega út í það. Þetta er auðvitað byggt á helgisögum, dýrlingasögum. Katrín stendur með pálmann í höndunum.
Endir.
Athugasemdir (1)