Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Um 25 milljarðar til ofanflóðavarna frá árinu 1995

Stefnt er að því að klára fyr­ir­liggj­andi fram­kvæmd­ir til varn­ar of­an­flóð­um ár­ið 2030. Fjár­fram­lög til mála­flokks­ins voru auk­in veru­lega í kjöl­far snjóð­flóð­anna á Flat­eyri og í Súg­anda­firði ár­ið 2020. Þrem­ur millj­örð­um var veitt til Of­an­flóða­sjóðs á síð­asta ári.

Um 25 milljarðar til ofanflóðavarna frá árinu 1995
Mikið tjón Mikið tjón varð á mannvirkjum og fasteignum í snjóflóðum sem féllu á Flateyri í byrjun árs 2020. Meðal annars varð altjón á fjölda báta í flota Flateyringa. Mynd: Önundur Hafsteinn Pálsson

Frá árinu 1995 hefur tæpum 25 milljörðum króna verið veitt til starfsemi Ofanflóðanefndar. Á síðustu fjórum árum hefur framlag ríkisins til varnar ofanflóðum numið tæpum sjö milljörðum króna, þar af rúmum þremur milljörðum á síðasta ári. Stærstur hluti fjárins hefur farið til uppbyggingar varnarvirkja og annarra forvarnaraðgerða gegn ofanflóðum, auk uppkaupa á fasteignum sem teljast á hættusvæðum. Fjárheimildir Ofanflóðasjóðs voru auknar í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri í janúar 2020.

Í nýrri skýrslu um starfsemi Ofanflóðanefndar fyrir árin 2018 til 2021 kemur fram að stærstu útgjaldaliðir á tímabilinu hafi verið vegna framkvæmda í Fjarðarbyggð, rúmir tveir milljarðar króna. Í Vesturbyggð var veitt rúmum 1,1 milljarði króna til framkvæmda á sama tímabili og rúmum 800 milljónum króna til Ísafjarðarbæjar, en þar undir eru meðal annars bæði Flateyri og Súgandafjörður þar sem tjón varð á mannvirkjum í janúar 2020 í snjóflóðunum þá.

Í kjölfar þeirra flóða var skipaður starfshópur til að meta þörf á fjárveitingum til Ofanflóðasjóðs og meta hversu mikið að fyrirliggjandi verkefnum sjóðsins væri raunhæft að framkvæma á tímabili fjármálaáætlunar áranna 2021 til 2025. Á fjárlögum ársins 2021 var samþykkt að verja árlega tæplega 2,7 milljörðum króna til varna gegn ofanflóðum og var það árleg aukning um 1,6 milljarð króna. Með þeim auknu fjárveitingum er gert ráð fyrir að öllum fyrirhuguðum framkvæmdum til varnar ofanflóðum verði lokið árið 2030.

Ofanflóðanefnd var sett á laggirnar árið 1996 eftir snjóflóðin mannskæðu á Flateyri og Súðavík árinu áður. Er hlutverk hennar að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórna um varnarmannvirki á hættusvæðum og ráðstafa fé úr Ofanflóðasjóði til þeirra.

Strax árið 1995 var hafist handa við undirbúning varnarvirkja fyrir byggðina á Flateyri og hófust framkvæmdir þar árið 1996. Var þeim að mestu lokið 1998 og nam kostnaður vegna þeirra um 440 milljónum króna. Árið 1996 var hafist handa við að færa byggð á Súðavík af hættusvæði og yfir á hættuminna svæði. Heilt þorp með 55 íbúðum var þá fært og var framkvæmdum að mestu lokið árið 1997. Heildaruppkaupaverð íbúðanna nam 556 milljónum króna og skýra þessar miklu framkvæmdir það hversu háum upphæðum var veitt til Ofanflóðasjóðs og starfsemi Ofanflóðnefndar fyrstu árin eftir að hún tók til starfa, alls um 1,6 milljarði króna á árunum 1995 til 1998.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár