Hafi Páli Steingrímssyni skipstóra á Akureyri verið eitthvert mein gert, þá er sjálfsagt að rannsaka það mál í þaula — og refsa svo meinvættinni, ef rétt reynist.
Það er hins vegar löngu orðið ljóst að það er ekki það sem Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Akureyri og hennar fólk er að rannsaka.
Heldur hitt hvort og þá hvernig einhver gögn úr síma Páls skiluðu sér ef til vill hugsanlega kannski til tiltekinna blaðamanna.
Það er morgunljóst hverjum manni að upplýsingar um hina sjálfskipuðu skæruliðadeild Samherja áttu sannarlega erindi til almennings — það er jú (vonandi) ekki á hverjum degi sem starfsmenn eins stöndugasta fyrirtækisins landsins bindast um það samtökum, með vitund og vilja æðstu yfirmanna fyrirtækisins, að ofsækja og rógbera blaðamenn sem birt hafa gagnrýnar upplýsingar um fyrirtækið.
Þar af leiðandi var birting upplýsinganna fullkomlega réttlætanleg (hvort sem þær komu úr síma Páls skipstjóra eða ekki) og þar af leiðinni er það aðför að frjálsri fjölmiðlun í landinu að lögreglustjóri hefji sakamálarannsókn sem hefur alveg augljóslega þann eina tilgang að kasta rýrð á störf blaðamanna og fæla starfssystur þeirra og -bræður frá því að segja opinskátt frá öðrum málum Samherja en þeirri glansmynd sem fyrirtækið sjálft eyðir stórfé í að mála.
Þar af leiðandi er rannsókn Páleyjar reyndar ekki aðeins aðför að frjálsri fjölmiðlun, heldur líka að tjáningarfrelsi og opnu og heiðarlegu samfélagi í þessu landi.
Og rannsókn Páleyjar er reyndar enn alvarlegri, því hún er líka aðför að sjálfum lögum landsins, en samkvæmt lögum njóta blaðamenn aukinnar réttarverndar við upplýsingaöflun og -dreifingu.
Þetta á Páley að vita, þar sem hún er lögfræðingur að mennt — þótt á allra vitorði sé (og hún viti það örugglega best sjálf) að flokksskírteini hennar í Sjálfstæðisflokknum hafi ráðið mun meiru um frama hennar í lífinu en fátæklegt prófskírteinið úr lagadeildinni.
(Þetta á Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins reyndar líka að vita þar sem hann er bæði lögfræðingur og átti þátt í að setja umrædd lög, en í forystu Sjálfstæðisflokksins ræður þjónkun við auðmenn jú alltaf meiru en réttlætið og virðing fyrir ærlegum og opnum samfélagsháttum. Í því ljósi má skilja dæmalausar yfirlýsingar Bjarna til stuðnings Páleyju og háðsglósur fótgönguliðsins fyrirlitlega um heiðarlega blaðamenn.)
En spurningin er bara þessi:
Er Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra sem hikar ekki við að ganga erinda stórfyrirtækis við að ofsækja blaðamenn, er henni treystandi fyrir þeim „forvirku rannsóknarheimildum“ sem lögregla og dómsmálaráðuneyti heimta nú í skugga þeirra stórfurðulegu „hryðjuverkaógnar“ sem hér hefur allt í einu verið kynnt til sögunnar — af lögreglunni?
Svarið er ósköp einfaldlega:
Nei, Páleyju er ALLS EKKI treystandi fyrir þeim persónunjósnum sem frumvarp Jóns Gunnarssonar heimilar.
Og ef einum lögreglustjóra er ekki treystandi í svo mikilsverðu máli, þá verður ósköp einfaldlega að henda öllum þeim málatilbúnaði út í hafauga.
Athugasemdir (12)