Ég byrjaði að reykja sextán ára gamall, það var æði. Við tókum strætó úr MH niður í bæ og fórum á Hressó. Stundum hafði ég efni á því að kaupa kaffibolla, það fór eftir smálánaheimildinni, en yfirleitt sátum við fimm-sex saman í kringum einn kaffibolla, á yfirbyggðu útisvæði undir hitalömpum og reyktum sígarettur þangað til að okkur var vísað út. Þá gátum við hvergi reykt.
Við sem samfélag eigum við margvísleg vandamál að stríða, það væri erfitt að færa rök fyrir því að eitt þeirra sé hversu erfitt það er fyrir ungmenni að viðhalda almennilegri sígarettufíkn. Enda er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi, ég reykti í tíu ár og vil gjarnan taka upp á því aftur einn daginn.
Þessu tengt – það er vandamál að á Íslandi, eða í Reykjavík allavega, vanti aðgengileg almannarými. Staði þar sem hægt er að vera án þess að borga fyrir, án þess að einhver hagnist. Þetta er auðvitað ágætt á sumrin, en hér er alltaf vetur, alltaf hvasst, hér er alltaf blautt og alltaf kalt.
Félagsvísindafólk talar um þriðja rýmið, sumt þeirra allavega. Fyrsta rýmið er heimilið, annað er vinnan og þriðja staður þar sem við komum saman, skiptumst á hugmyndum og njótum lífsins. Á Íslandi eru bara tvö, allavega í Reykjavík. Kannski er umferðin þriðja rýmið. Við ættum kannski að draga niður rúðurnar og öskra hugmyndir okkar á næsta bíl. Í staðinn fyrir að ræða bókmenntir getum við rifist á Twitter á rauðu ljósi, í staðinn fyrir að fara á tónleika getum við hlustað á hatursáróður á Útvarpi Sögu. Ég sé það í anda, bumper to bumper umferðarteppa á Miklubraut, Saga á fullu blasti og þúsund rámar hugmyndir út um bílrúður.
Þessu tengt – það var einkabíllinn sem leysti reykingavandann minn í menntaskóla. Ég keypti eldgamla Micru fyrir fermingarpeninginn minn, þar gátum við vinirnir reykt í friði.
Athugasemdir