Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Terra losaði plast ólöglega á náttúruminjasvæði í mörg ár

End­ur­vinnslu­fyr­ir­tæk­ið Terra hef­ur urð­að plast á nátt­úru­m­inja­svæði í tæp­an ára­tug, þvert á lög. Sveit­ar­fé­lag­ið Blá­skóga­byggð hef­ur rek­ið urð­un­ar­stað­inn án leyf­is í fjölda ára. Úr­gang­ur­inn var skil­inn þar eft­ir þrátt fyr­ir að ekk­ert starfs­leyfi sé til stað­ar fyr­ir urð­un­ar­stað­inn.

Terra losaði plast ólöglega á náttúruminjasvæði í mörg ár Mikið magn af plasti mátti finna á staðnum.

Mikið magn af plastúrgangi hefur verið skilið eftir á ólöglegum urðunarstað á Suðurlandi. Þetta sannreyndi Stundin á dögunum. Úrgangurinn kemur frá grænmetisræktendum í Bláskógabyggð. Erfitt er að fullyrða um magn þess plasts sem urðað hefur verið á svæðinu en verulegt magn af plasthólkum sem ætlaðir eru til ræktunar á plöntum, grænmeti og gróðri voru sjáanleg þegar blaðamaður og ljósmyndari Stundarinnar heimsóttu svæðið. 

Plast hefur augljóslega verið urðað þar í langan tíma og gróður hylur stóran hluta þess. Þegar gengið er á gróðrinum má vel heyra plast brotna undir gróðurþekjunni.

Urðun á þessu plasti er á ábyrgð endurvinnslufyrirtæksins Terra sem viðurkenndi í samtali við Stundina að hafa losað plast á staðnum um margra ára skeið. Það er hins vegar Sveitarfélagið Bláskógabyggð sem rekur urðunarstaðinn og hefur gert mun lengur. Allan þann tíma hefur starfsemin farið fram án starfsleyfis, þvert á lög. 

Urðunarstaðurinn er í landi jarðarinnar Spóastaða, fáeina kílómetra frá Skálholti. Þórarinn Þorfinnsson, ábúandi á Spóastöðum, segir í samtali við Stundina að sveitarfélagið Bláskógabyggð leigi af honum jörðina þar sem plastúrganginn má finna. Þórarinn segir sveitarfélagið hafa notað svæðið í mörg ár fyrir, það sem kallað er, óvirkur úrgangur. Það er úrgangur eins og grjót, möl, mold og fleira, en ekki úrgangur sem inniheldur plast eða aðra manngerða hluti, eins og finna má í miklu magni á staðnum. 

„Ég ætla ekkert að fara upplýsa neitt um það. Ég sé enga ástæðu til þess”
Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar

Ekkert leyfi til staðar í 12 ár

Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar, viðurkennir að ekkert leyfi hafi verið til staðar og hafi aldrei verið í þau ár sem sveitarfélagið hafi starfrækt urðunarstaðinn. Sveitarfélagið sótti ekki fyrr en nýlega um starfsleyfi, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlit Suðurlands sem hefur umsjón með útgáfu slíkra starfsleyfa.

Þegar Kristófer var spurður hvenær sveitarfélagið hefði sótt um starfsleyfið neitaði hann að svara því. „Ég ætla ekkert að fara upplýsa neitt um það. Ég sé enga ástæðu til þess,” sagði Kristófer.  Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu sótti sveitarfélagið um starfsleyfi sama dag og blaðamaður ræddi við Kristófer. 

Ruslahaugurinn sem um ræðir liggur rétt fyrir neðan bæinn Spóastaði, við þjóðveg 31, skammt frá Brúará. Samkvæmt lista Umhverfisstofnunar er Brúará öll á náttúruminjaskrá. Það felur í sér að auk árinnar sjálfrar er svæði í allt að 200 metra fjarlægð frá árbökkunum líka talið til náttúruminja. Þannig hefur það verið frá því löngu áður en farið var að urða á svæðinu.

Losuðu á náttúruminjasvæðiSvæðið sem haugurinn liggur er á skrá Umhverfisstofnunar sem náttúruminjar. Terra losaði þar ólöglega plastúrgang.

Hvorki sveitarfélagið Bláskógabyggð né endurvinnslufyrirtækið Terra vilja þó kannast við að hafa vitað af þeirri staðreynd að svæðið væri á náttúruminjaskrá. Þegar Kristófer og Arngrímur Sverrisson, starfsmaður í viðskiptaþróun hjá Terra, voru spurðir hvort þeir vissu að haugurinn væri inn á náttúruminjasvæði sögðust þeir báðir ekki hafa vitað það.

Arngrímur segir að samkvæmt skilmálum í útboði Bláskógabyggðar á úrgangsmálum í sveitarfélaginu frá árinu 2010 hafi átt að losa allan óvirkan úrgang á þessum stað. Samkvæmt gögnum heilbrigðiseftirlitsins hefur þó aldrei verið leyfi fyrir slíku. 

Ástæðan þess að mikilvægt er að starfsleyfi liggi fyrir er til að heilbrigðiseftirlitið geti haft eftirlit með haugnum, svo sem mengunareftirlit og að ekki sé verið að losa ólögmætan úrgang á svæðið, líkt og gert hefur verið undanfarin ár.

Legið í mörg ár á staðnumGróður hefur vaxið yfir stóran hluta plastsins á svæðinu

Ekki bara plast

Á haugnum er ekki eingöngu að finna plast, heldur einnig aðra tegund úrgangs sem ekki má losa á svæðinu. Spilliefni, málma og annars konar úrgang sem er með öllu óheimilt að losa, mátti greinilega sjá á haugnum, þegar Stundin heimsótti urðunarstaðinn, föstudaginn 16 september. Á Degi íslenskrar náttúru.

Það að losa úrgang með þeim hætti sem gert er í landi Spóastaða virðist auk þess vera í hróplegu ósamræmi við innri reglur fyrirtækisins Terra, sem þó hefur ekið þangað úrgangnum og urðað í fjölda ára. 

Heilu farmanir losaðir ólöglega af plastmenguðum úrgangiÍ mörg ár losaði endurvinnslufyrirtækið Terra ólöglega úrgang á náttúruminjasvæði

Á vef Terra má sjá umhverfisstefnu fyrirtækisins, þar sem farið er í ítarlegu máli yfir mikilvægi þess að halda umhverfi hreinu. Fyrirtækið hefur svo sett sér sérstaka stefnu um hvernig fyrirtækið ætlar að haga starfsemi sinni til að stuðla að því markmiði.

Hér fyrir neðan má sjá umhverfisstefnu Terra. 

  1. Vera í fararbroddi í meðhöndlun úrgangs á landsvísu og einsetja sér að kynna viðskiptavinum og starfsmönnum fyrirtækisins gildi endurvinnslu og endurnýtingar.
  2. Leitast við að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið, með reglulegum mælingum á þýðingarmiklum umhverfisþáttum.
  3. Leggja sitt af mörkum til loftslagsmála með betri nýtingu auðlinda, bættri meðhöndlun úrgangs og með ráðgjöf til viðskiptavina.
  4. Setja sér mælanleg umhverfismarkmið í þeim tilgangi að tryggja stöðugar úrbætur.
  5. Fylgja lagalegum kröfum á sviði umhverfismála og vinna að stöðugum úrbótum í samræmi við umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001:2015.

Arngrímur Sverrisson hjá Terra segist sjálfur hafa farið á urðunarstaðinn árið 2018. Þá hafi hann reynt að laga ástandið og ræða við þá sem komu að málinu. Sú heimsókn virðist hins vegar ekki hafa skilað árangri en fyrirtækið hélt áfram að losa plastmengaðann úrgang á svæðinu til loka árs 2020.

Það var sama ár og fyrirtækið var valið umhverfisfyrirtæki ársins af Samtökum atvinnulífsins og því afhent verðlaun úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, við sérstaka athöfn.

Ekki í fyrsta skipti

Þetta er ekki eina dæmið um að Terra hafi losað plastmengaðan jarðveg út í náttúruna. Í október árið 2020 sagði Stundin frá því að Terra hafi losað mikið magn af plastmengaðri moltu og dreift um stórt svæði í Krýsuvík. Var um að ræða verkefni í samstarfi við Landgræðsluna. Í fyrstu vildu forsvarsmenn fyrirtækisins meina að lítið magn af moltunnni sem þeir dreifðu hefði verið plastmenguð en það hafi síðar verið hreinsað. 

Fáeinum dögum síðar kom hins vegar í ljós að sú fullyrðing fyrirtækisins stóðst ekki, þar sem plastmengaðri moltu hafði verið dreift yfir stórt svæði í Krýsuvík og mikið magn af plasti var enn til staðar í moltunni. 

Þrátt fyrir að moltan hafi verið mikið plastmenguð var engin krafa gerð á Terra að losa moltuna af staðnum, heldur munu þeir vera með eftirlit á staðnum og reyna frekari hreinsunarstörf. Erfitt verður að sjá hvernig megi losa allt það plast sem var á staðnum vegna smæðar plastsins sem er í moltunni og liggur hún því enn þá í Krýsuvík. 

Plastagnir í fiskum, fuglum og drykkjarvatni

En hvaða máli skiptir það hvar plast er losað? Plastagnir eru nú að finnast í fiskum og fuglum við strendur landsins. Í tilviki plasthaugsins í Bláskógabyggð er það sérstakt áhyggjuefni að plast berist með veðri og vindum í ánna og þaðan áfram út í náttúruna. Plast brotnar svo niður með tímanum, sé það látið liggja kjurrt, og getur smitast í grunnvatn á svæðinu. Slík mengun getur svo smitast inn í fæðukeðjuna. Á Íslandi er þetta raunverulegt vandamál.

Í rannsókn Anne de Vries, nema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, kom í ljós að 20,5% af öllum veiddum þorski á Íslandi og 17,4% af öllum ufsa innihélt plastagnir.  Samkvæmt rannsókn, sem Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, framkvæmdi reyndist 70% fýla vera með plast í maganum. Þá hafa rannsóknir á magainnihaldi hvala sem hafa rekið á land sýnt fram á talsvert magn af plasti auk þess sem rannsóknir á kræklingum við strendur Íslands sýna að meira en helmingur þeirra innihalda plastagnir.  

Samkvæmt rannsókn Veitna kemur fram að um 0,2 til 0,4 plastagnir finnast í hverjum lítra af vatni sem íbúar höfuðborgarsvæðisins drekka. Sjónvarpsþátturinn Kveikur lét greina kranavatn frá nokkrum heimilum í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Kom þar í ljós að um 27 plastagnir var að finna í hverjum lítra af vatni sem er drukkið á þeim heimilum. Það má segja að plast sé að finnast alls staðar á Íslandi, bæði í náttúrunni, lífríkinu, jafnvel inni í okkur sjálfum.

Fengu ábendingu fyrir nokkrum árum

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir að sveitarfélagið hafi fengið ábendingu um plastmengunina fyrir nokkrum árum. Þá hafi verið haft samband við þá aðila sem komu að málinu og þeir beðnir um að bregðast við. Svo virðist sem að ekki hafi verið hlustað á ábendingar sveitarfélagsins á þeim tíma.

Nú hefur þó verið tekin ákvörðun um að sveitarfélagið ráðist í hreinsun á svæðinu. Var það gert eftir að blaðamaður fór að hafa samband við þá sem tengjast málinu. Ásta segir að sveitarfélagið muni fylgjast með hreinsuninni auk þess að hafa samband við heilbrigðiseftirlit Suðurlands og óska eftir samstarfi vegna málsins. 

Sveitarfélagið ætlar sjálft að standa straum af kostnaði við hreinsunina en Ásta segir koma til greina að sækja þann kostnað svo til fyrirtækisins Terra.

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Snorri Kristinsson skrifaði
    Terra - "Skiljum Ekkert Eftir"

    Nema þetta. Og þetta. Og þetta og hitt.
    1
  • Helga Óskarsdóttir skrifaði
    Þetta skítafyrirtæki fékk verðlaun frá SA í fyrra, og forsetinn afhenti verðlaunin!
    2
  • Sigurður Sigurðsson skrifaði
    Grjótharðir umhverfissóðar! Og örugglega moldríkir af þessu svindli.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Plastið fundið

Heilbrigðiseftirlitið vissi víst af ólöglegri plasturðun við Skálholt
RannsóknPlastið fundið

Heil­brigðis­eft­ir­lit­ið vissi víst af ólög­legri plast­urð­un við Skál­holt

Heil­brigðis­eft­ir­lit Suð­ur­lands vissi í meira en þrjú ár af lög­brot­um end­ur­vinnnslu­fyr­ir­tæk­is­ins Terra án þess að að­haf­ast neitt í mál­inu. Fram­kvæmda­stjóri eft­ir­lits­ins fékk sjálf senda ábend­ingu um mál­ið en sagð­ist þrem­ur ár­um seinna aldrei hafa heyrt af því áð­ur. Hún seg­ir ekki ástæðu til að beita við­ur­lög­um gegn fyr­ir­tæk­inu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár