Lögreglu hefur aldrei borist jafn margar tilkynningar um heimilisofbeldi og á fyrstu sex mánuðum þessa árs, sé horft til sama tímabils síðustu sjö ára. Alls bárust lögreglu 1.232 tilkynningar um heimilsofbeldi eða ágreining tengdra aðila á tímabilinu, að meðaltali sjö tilkynningar á dag eða 205 tilkynningar á mánuði.
Aukning í tilkynningum um heimilisofbeldi eða ágreining tengdra aðila nemur 13 prósentum sé miðað við sama tímabil síðustu þrjú ár á undan. Sé eingöngu litið til heimilisofbeldismála, og er þar átt við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, bárust lögreglu 592 slíkar tilkynningar á tímabilinu. Það er þremur prósentum meira en árið 2021 og tveimur prósentum meira en árið 2020. Tilkynningar um ágreining milli tengdra aðila voru 640 talsins og hafa þær aldrei verið fleiri.
Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra kemur fram að heimilisofbeldismál séu nú orðin meira en helmingur líkamsmeiðinga og manndrápsmála sem koma á borð lögreglunnar.
Tveir þriðju tilkynninganna voru til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þannig komu 67 prósent tilkynninga um heimilisofbeldi inn á borð lögreglunnar þar en 33 prósent á borð lögregluembætta á landsbyggðinni. Sambærilegar tölur um ágreining milli tengdra aðila voru 64 prósent hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og 36 prósent slíkra tilkynninga bárust til lögregluembætta á landsbyggðinni.
79%
Í flestum tilfellum var tilkynnt um heimilisofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka, alls í 367 tilfellum. Hið sama á við um ágreining milli tengdra aðila, í langflestum tilvikum var um maka eða fyrrverandi maka að ræða, alls í 454 tilvikum. Málum þar sem um ræðir ofbeldi af hálfu fyrrverandi maka fækkar hins vegar um 8,3 prósent, sé litið til sama tímabils síðustu þriggja ára.
Tilkynnt var um 187 tilvik heimilisofbeldis þar sem um fjölskyldutengsl var að ræða. Í 131 tilviki var um að ræða ofbeldi af hálfu barns í garð foreldris en í 92 tilvikum um að ræða ofbeldi af hendi foreldris í garð barns.
Þolendur heimilisofbeldisins voru í allt 511 talsins en þeir sem beittu ofbeldinu voru 486 talsins. Í flestum tilfellum voru það konur sem urðu fyrir ofbeldinu, alls í 68 prósent tilfella. Þeir sem ofbeldinu beittu voru í yfirgnæfandi meirihluta karlmenn en þeir beittu ofbeldi í tæplega 79 prósent tilvika. Ef horft er til tilvika þar sem ofbeldið er milli maka eða fyrrverandi maka er tölfræðin enn meira afgerandi, þeir sem ofbeldinu beita eru í 80 prósentum tilvika karlar en þeir sem fyrir því verða í 77 prósent tilvika konur.
Athugasemdir