Útgjöld ríkissjóðs á næsta ári, 2023, verða samkvæmt fjárlagafrumvarpi 1.296 milljarðar. Það er hækkun um 78,5 milljarða frá yfirstandandi ári, sem nemur 6,4 prósentum milli ára. Árið 2024 verða útgjöldin samkvæmt spá 1.317 milljarðar og 1.339 árið 2025, á verðlagi ársins 2023. Í báðum tilvikum er um 1,6 prósenta aukningu að ræða milli ára.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á blaðamannafundi fyrr í morgun.
Um helmingur allra útgjalda ríkissjóðs á næsta ári fer til annars vegar heilbrigðismála og hins vegar til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, í jöfnum hlutföllum. Mennta- og menningarmál standa undir 10 prósentum af útgjöldunum, sem er sama hlutfall og vaxtagjöld ríkissjóðs. Samgöngu- og fjarskiptamál taka upp 4 prósent, skatta-, eigna og fjármálaumsýsla 3 prósent og það á einnig við almanna- og réttaröryggi. Þá fara 2 prósent ríkisútgjalda á næsta ári til umhverfismála og sama hlutfalli verður veitt til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Önnur málefnasvið skipta milli sín þeim 15 prósentum sem eftir standa af útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Ef litið er til málaflokks heilbrigðismála hækkar framlag ríkissjóðs að krónutölu milli ára. Rétt er að vekja athygli á að í frumvarpinu eru fjárhæðir þó á verðlagi hvors árs. Þannig aukast fjárframlög til sjúkrahúsþjónustu um 2,7 milljarða króna og framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa um 7,3 milljarða. Hins vegar lækkar fjárframlag til lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála á milli áranna 2022 og 2023 um 1,1 milljarð króna.
16,8
Útgjöld til félags- húsnæðis- og tryggingamála breytast verulega milli ára. Töluverð lækkun verður í flokknum vinnumarkaður og atvinnuleysi, sem einkum má rekja til þess að dregið hefur verulega úr atvinnuleysi og má gera ráð fyrir að það verði í lágmarki á næsta ári. Framlög til málaflokksins verða 16,8 milljörðum lægri á næsta ári en í ár og gert er ráð fyrir að 38,3 milljarðar fari í málaflokkinn á næsta ári. Aftur á móti hækka framlög til málefna aldraðra og örorkulífeyrisþega talsvert milli ára, um 12,5 milljarða í fyrra tilvikinu og um 8,9 milljarða í hinu síðara. Þá hækka fjárframlög til fjölskyldumála um tæpa 4,4 milljarða milli ára.
Framlög til mennta- og menningarmála hækka lítillega milli ára og er mesta hækkunin á framlög til háskólastigsins. Þar verður 2,3 milljörðum hærri upphæð veitt til málaflokksins en var á síðasta ári. Framlög til framhaldsskólastigsins mun hækka um 1,3 milljarða og framlög til annarra skólastiga aukast um tæpan hálfan milljarð. Framlög til menningar-, lista-, íþrótta- og æskulýðsmála aukast um 250 milljónir að krónutölu. Útgjöld til fjölmiðlunar aukast þá um tæpar 300 milljónir króna.
Liðurinn skatta-, eigna og fjármálaumssýsl hækkar um 3,5 milljarða króna, vaxtagjöld ríkissjóðs aukast um 13,1 milljarð króna og útgjöld ríkisins til umhverfismála hækka þá nokkuð milli ára, um 2,8 milljarða króna.
Útgjöld til nýsköpunar, rannsókna og þekkingar standa því sem næst í stað milli ára að krónutölu, hækka um tæpar 200 milljónir króna. Hið sama má segja um almanna- og réttaröryggi, framlög til þess málaflokks lækka um tæpar 200 milljónir króna. Útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála lækka um 1,3 milljarða að krónutölu.
Athugasemdir