Norðarlega á Honsjú, hinni stærstu Japansey, er bærinn Yahaba. Þetta er lítill og friðsæll bær á frjósamri sléttu milli fjallgarðanna Ōu og Kitakami og í norðri gnæfir eldfjallið Iwate. Þarna hefur verið byggð í þúsundir ára og íbúar ræktað hrísgrjón og annan jarðargróður en á síðustu áratugum hefur líka vaxið upp smáiðnaður ýmiss konar og þjónusta við héraðshöfuðborgina Morioka, sem er ekki nema 15 kílómetra í burtu.
Í Yahaba búa nú um 27 þúsund manns, álíka og í Hafnarfirði.
Tilraun í Yahaba
Árið 2015 hófst í Yahaba merkileg tilraun. Haldinn var sérstakur bæjarstjórnarfundur þar sem 20 vel upplýstir borgarar komu saman og tóku ákvarðanir um framtíð bæjarins.
Þótt bærinn sé lítill og lágur, þá er að ýmsu að hyggja þar eins og annars staðar. Bæjarsjóður er ekki botnlaus og það skiptir máli að nota útsvarið skynsamlega. Á að byggja upp innviði eins og samgöngumannvirki eða fjárfesta í fleiri dagheimilisplássum? Á að leggja áherslu á endurnýjanlega orku eða frekari uppbyggingu landbúnaðar?
Svonalagaðar spurningar fjölluðu 20-menningarnir um. Alls konar mál sem bæjarstjórnir hvarvetna standa frammi fyrir.
Að einu leyti var þessi „bæjarstjórn“ hins vegar óvenjuleg.
Skikkjuklæddir bæjarfulltrúar
Helmingur hennar, tíu manns, voru í sínum venjulegu klæðum og gerðu sitt ýtrasta til að líta á fyrirliggjandi mál frá „venjulegum“ og hefðbundnum sjónarhóli.
Hin tíu voru hins vegar klædd viðhafnarskikkjum og voru öll fremur hátíðleg í fasi. Þeim hafði nefnilega verið sagt að leika hlutverk gesta úr framtíðinni – nánar tiltekið fólks frá árinu 2060. Og þeim var uppálagt að meta öll mál bæjarstjórnar út frá því hvað myndi koma framtíðarfólkinu best.
Sem sagt barnabörnum þeirra sem léku „gestina úr framtíðinni“.
Svo var fylgst vandlega með umræðum.
Þessi tilraun var gerð undir umsjá japanska hagfræðiprófessorsins Tatsuyoshi Saijo, en hann fékk hugmyndina frá hinum svonefndu Írókíum, frumbyggjum í Norður-Ameríku. Þau vilja reyndar frekar láta kalla sig Haudenosaunee (langskálafólkið) eða Ongweh’onweh (alvörufólk). Þegar Evrópumenn fóru að leggja undir sig norðausturhluta hinna núverandi Bandaríkja var þar fyrir afar háþróað samfélag Írókía, ekki tæknilega, heldur hugmyndalega.
Sjöunda kynslóð
Stjórnarfar þeirra var í raun lýðræði og það mun beinlínis hafa verið samfélagspólisía Írókía – og skylda – að þegar taka þurfti mikilvægar ákvarðanir sem snertu framtíðina, þá bar Írókíum að taka ákvarðanir út frá því sem kæmi best fólki af sjöundu kynslóð þaðan í frá.
Saijo prófessor fékk í rauninni „gestina úr framtíðinni“ í smábænum Yahaba til að leika þetta eftir við umræður í „bæjarstjórninni“ – þótt hinir skikkjuklæddu japönsku gestir þyrftu aðeins að líta tvær kynslóðir fram í tímann, ekki sjö eins og Írókíar.
Og hvernig fór?
Jú, þeir borgarar í Yahaba sem áttu bara að vera þau sjálf fóru strax að mæla fyrir ákvörðunum sem þau töldu að gætu bætt lífskjör þeirra sjálfra til skamms tíma.
Skoðanir skerpast
Allt ósköp venjulegar ákvarðanir sem teknar eru á hverjum degi í alls konar bæjar- og ríkisstjórnum um víða veröld.
En hin skikkjuklæddu lögðu frá upphafi áherslu á mjög róttækar breytingar. Þau vildu fjárfesta gríðarlega í heilsugæslu fremur en samgöngumannvirkjum. Þau vildu leggja útsvarið í aðgerðir í loftslagsmálum, ekki skammtímaiðnaðarbras.
Þegar þeim var sem sagt uppálagt að hugsa öll mál aðeins og eingöngu út frá sjónarhóli barnabarna sinna, þá urðu viðhorf þeirra og baráttumál skyndilega öll önnur en verið hafði – því fólkið sem var fengið til að leika „gestina úr framtíðinni“ var bara nauðavenjulegir borgarar í Yahaba, sem hafði fram að þessu ekki haft neinn sérstakan áhuga á framtíðarmúsík.
„Þegar [„bæjarfulltrúunum“] var sem sagt uppálagt að hugsa öll mál aðeins og eingöngu út frá sjónarhóli barnabarna sinna, þá urðu viðhorf þeirra og baráttumál skyndilega öll önnur en verið hafði“
Sannfæringarkrafturinn jókst líka
Og það sem meira var, hin skikkjuklæddu reyndust ósjálfrátt öðlast miklu meiri sannfæringarkraft en hin tíu sem „léku“ bara sig sjálf. Svo fyrr en varði var „bæjarstjórnin“ í Yahaba búin að samþykkja því sem næst einróma grundvallarsamfélagsbreytingar sem nær öll voru nú orðin sannfærð um að myndu koma barnabörnunum til góða árið 2060 – þótt breytingarnar hefðu kannski í för með sér einhver óþægindi árið 2015.
Þessi tilraun hefur síðan verið endurtekin víða og alltaf skilað sama árangri. Ef fólki er beinlínis uppálagt að hugsa málin frá þessu sjónarhorni, ekki bara í orði kveðnu heldur í „alvörunni“ og ekki út frá sínum eigin þröngu hagsmunum hér og nú, þá fer fólk strax að hugsa öðruvísi og taka öðruvísi ákvarðanir.
Ég hélt kannski að ykkur þætti fróðlegt að vita þetta.
Þið gætuð jafnvel prófað, og við öll.
Til dæmis hætt að velja okkur stjórnvöld sem hugsa aldrei lengra fram í tímann en að næstu kosningum.
Athugasemdir (2)