Fyrri aukaspurning:
Þessi mynd nefnist Nornahátíð eða eitthvað í þá áttina og var máluð 1798. En hver var málarinn?
***
Aðalspurningar:
1. Í hvaða landi í Vestur-Evrópu er borgin Brest?
2. Hvaða þjóðsagnaskepnur vakna til lífsins í bókunum og sjónvarpsþáttunum Krúnuleikar eða Game of Trones?
3. Í hvaða borg sem nú er í Belarús skrifuðu Þjóðverjar og nýir ráðamenn kommúnistastjórnar Rússlands undir friðarsamninga í byrjun árs 1918?
4. Serena Williams tilkynnti nýlega að hún væri hætt að ... gera hvað?
5. Hvað nefnist ríki frændi Andrésar Andar sem hann er einlægt í vinnu hjá, en sem rekur Andrés frænda sinn miskunnarlaust ef hann stendur sig ekki?
6. Þegar ríki frændinn hefur rekið Andrés úr vinnunni fer hann oftast í sömu verksmiðjuna og púlar þar síðan um skeið. Hvað er framleitt í verksmiðjunni?
7. Sunnarlega í Ódáðahrauni var lítið basalthraun, nánast óþekkt þangað til 2014. Þá urðu þar eldsumbrot og flæddi þar síðan um skeið heilmikið hraun upp. Nýja hraunið var kallað sama nafni og gamla hraunið, það er að segja ... hvað?
8. Mælieining fyrir tíðni (rið eða hringir á sekúndu) heitir sama nafni og ein stærsta bílaleiga heimsins sem starfrækt er í ótal löndum. Hvaða nafn er þetta?
9. „Maður er nefndur Grímur kamban,“ segir í upphafi einnar Íslendingasögu, „[H]ann byggði fyrstur manna [xxx] En á dögum Haralds hins hárfagra flýðu fyrir hans ofríki fjöldi manna; settust sumir í [xxx] og byggðu þar, en sumir leituðu til annarra eyðilanda.“ Hvaða staður er [xxx]?
10. Frægur íslenskur rithöfundur á fyrri hluta tuttugustu aldar gerði fyrst vart við sig á skáldabekk þegar hann sendi kornungur frá sér smásögur sem hann kvaðst hafa skrifað svokallaðri „ósjálfráðri skrift“ en gegnum hann hefðu skrifað ekki minni menn en Jónas Hallgrímsson, H.C.Andersen og Snorri Sturluson. Höfundur þessi lagði þó fljótlega af slík skrif og fór að skrifa hefðbundnari verk, leikrit og sögur. Hver var hann?
***
Seinni aukaspurning:
Hver er þetta?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Frakklandi.
2. Drekar.
3. Brest. Þá var hún reyndar kölluð Brest-Litovsk en Brest dugar.
4. Spila tennis.
5. Jóakim.
6. Smjörlíki.
7. Holuhraun.
8. Hertz.
9. Færeyjar.
10. Guðmundur Kamban.
***
Svör við aukaspurningum:
Það var Goya sem málaði Nornahátíðina.
Á neðri myndinni er svo Marilyn Monroe.
Athugasemdir