Á síðustu 30 árum hafa vinstrimenn á Íslandi eignast tvo hæfileikaríka stjórnmálamenn sem virtust líklegir til þess að finna hinn heilaga kaleik sem vinstrimenn hafa leitað að dyrum og dyngjum í þessu landi í heila öld.
Kaleikurinn er vitaskuld sameining vinstri manna.
Draumurinn um stóra jafnaðarmanna- og félagshyggjuflokkinn — nú, eða bandalagið — sem tæki forystuna í samfélaginu af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Líkt og á Norðurlöndunum, fylgdi alltaf sögunni.
Þar sem stóru jafnaðarmannaflokkarnir hafa mótað svo samfélagið og tryggt svo hugsunarhátt velferðar og samhjálpar að jafnvel þegar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn Norðurlandanna ná völdum, þá hvarflar ekki að þeim að hrófla við þeim sósíalísku undirstöðum sem jafnaðarmenn byggðu.
En þótt ótti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna hér við sósíalisma og félagshyggju hafi vissulega valdið því að við fylgdum í stórum dráttum, og altént orði kveðnu, leið Norðurlandanna til velferðarsamfélags, þá urðu stöðugar deilur og flokkadrættir á vinstri vængnum því miður til þess að undirstöðurnar urðu mun veikari hér en þar.
Og afleiðingarnar eru æpandi og sorglegar:
Hér er komið samfélag þar sem það þykir sjálfsagt mál að sniðganga þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfa stjórnarskrána, þar sem ekki þarf að hlíta á nokkurn hátt vilja þjóðarinnar varðandi sínar stærstu og mestu auðlindir, þar sem belgingar vaða uppi og það er í hæsta lagi best að kjósa bara Framsókn — og svo framvegis.
Margir hafa átt drauminn um að finna hinn helga kaleik, öfluga sameiningu eða samvinnu vinstri manna, svo hægt væri að snúa af þessari braut, en alltaf leiddust þeir á endanum út í bölvaða flokkadrættina.
En tveir stjórnmálamenn virtust sem sé líklegir til að þefa uppi kaleikinn langþráða og vandfundna.
Fyrst Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, síðan Katrín Jakobsdóttir.
Báðar höfðu mikið áhrifavald og nutu verðskuldaðra vinsælda sem náðu langt út fyrir þröngan ramma þeirra eigin flokka.
Báðar höfðu hæfileika og í senn samvinnulipurð og hugsjónaþunga, virtist manni, sem hefðu getað búið til bandalag gegn sérhagsmunagsæslufélagi Sjálfstæðisflokksins — janvel þótt það hefði líkastil þurft að kosta samvinnu við Framsóknarflokkinn!
En þegar tækifærið var stærst og kaleikurinn næst, þá gerðu þær báðar sömu mistökin.
Sömu sorglegu og hjartaskerandi mistökin.
Einmitt þegar sá sigur virtist í sjónmáli að hægt væri að setja Sjálfstæðisflokkinn til hliðar til langframa, hinn pólitíska arm auðjöfra og nú sægreifa, einmitt þá gengu þær báðar til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.
Kölluðu hann til áframhaldandi valda.
Það var hörmulegt að horfa upp á þetta.
Þótt maður gengi undir manns hönd að vara þær við.
Báðum gekk gott eitt til. Vildu vinna að umbótum en hafa Sjálfstæðisflokkinn með — í nafni stöðugleika!
En þetta voru augljós mistök sem reyndir og glúrnir stjórnmálamenn áttu ekki að láta henda sig.
Já, þyngra en tárum tók — í bæði skiptin.
2007 og svo aftur 2017.
Aftur þá — þótt fordæmið væri bara áratugar gamalt.
Vítið til varnaðar.
Samt aftur.
En nú er vonandi fullreynt. Við verðum að trúa því og berjast fyrir því.
Af mistökum þeirra beggja þurfum við umfram allt að læra.
Það er ekki hlutverk jafnaðarmanna og félagshyggjufólks í þessu landi að „sættast“ við útsendara auðjöfranna til að ná fram „stöðugleika“.
Við höfum ekkert að gera við „þjóðarsátt“ við yfirstéttina, við kúgarana leyfi ég mér að segja.
Og allra, allra, allra síst eiga jafnaðarmenn og félagshyggjufólk að hafa frumkvæði að slíkri „sátt“.
Það er ekki hlutverk jafnaðarmanna og félagshyggjufólks að sýna að þau geti sómt sér vel inní sama herbergi og yfirstéttin.
Þau eiga að vera fyrir utan — með fólkinu.
Og þau eiga að berjast.
Í þeirri setningu er mestur þunginn á orðinu „berjast“.
Það er hlutverkið og skyldan.
Berjast fyrir betra samfélagi fyrir okkur öll.
Við fáum vonandi eitt tækifæri enn.
Athugasemdir (2)