Síðustu átta ár, hvert og eitt, það heitasta síðan mælingar hófust. Ísland á floti. Evrópa brennur. Eitt prósent mannkyns á fjörutíu og fimm prósent alls auðs. Þrír milljarðar einstaklinga eiga sama og ekki neitt. Munurinn á þeim sem eiga og eiga ekki nálgast frönsku byltinguna. Fallöxi. Meðalmanneskjan í dag tekur inn sjötíu og fjögur gígabæt af upplýsingum á dag. Of mikið. Sama magn og vel lesin manneskja hefði tekið inn alla sína ævi fyrir fimmhundruð árum. Allir þessir hlutir tengjast. Allir. Eitt bæt.
Allt að tvö hundruð tegundir plantna, skordýra, fugla, fiska eða spendýra, deyja út á hverjum sólarhring. Tuttugu og fjórar klukkustundir. Sjást aldrei aftur. Mesti útdauði í sextíu og fimm milljón ár. Þessi, aðeins sjötti, fjöl/aldauði sem jörðin hefur séð er af mörgu vísindafólki kallaður anthopocene extinction. Orðið anthropos er grískt og þýðir maður. Manngerður aldauði. Tvö bæt. Er ég búinn að gleyma því fyrsta?
Hungursteinar evrópskra árfarvega gægjast upp úr, í fyrsta sinn síðan elstu menn muna. Þeir koma aðeins í ljós þegar þurrkar eru svo gríðarlegir að uppskerubrestur er óhjákvæmilegur. Í ánni Elbu er grafið á einn frá fyrri öldum: „Ef þú sérð mig, gráttu.“
Börnin mín eru að byrja aftur í skóla um þessar mundir. Daglegt smáspjall er vant við sig; skortur á leikskólaplássum, átök verkalýðsins, eldgos. En ég miða allt við yfirstandandi heimsendann. Fasistar ljúga og svíkja sig til valda. Stríð. Örplast finnst í nánast öllum lífverum. Í fólki. Í rigningunni. En húsnæðislánið mitt er til fjörutíu ára. Bundnir vextir. Hjúkket. Og heimurinn er að farast og enginn að segja neitt. Ekkert að gerast. Þessi pistill bara enn eitt suðið. Inn og út. Nokkur bæt í gígasúpuna. Svo dagleg rútína. Áhyggjur og vani.
Að hryggjast og gleðjast,
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast
það er lífsins saga.
Athugasemdir