Með vaxandi eldvirkni á Reykjanesi hefur áhugi á eldgosum aukist hér á landi. Og nú þegar annað gos er hafið þar suður frá á einu ári rifjaðist upp fyrir mér grein sem ég skrifaði í það skemmtilega tímarit SKAKKA TURNINN fyrir 13 árum en hún fjallaði um hvernig eldgos, haf og ísar myndu leika Ísland næstu 10 milljón árin.
Það var snillingurinn Páll Einarsson jarðvísindamaður sem var mér til ráðuneytis um hvernig landið myndi umbreytast á þessum milljónum ára. Hann gerði það með glöðu geði og hafði gaman af vangaveltunum um þetta með okkur á SKAKKA TURNINUM, en tók þó skýrt fram að hér væri alls ekki um nein „fræði“ að ræða, heldur bara skemmtun og skáldskap.
Óvissuþættirnir væru svo margir að ekki væri vinnandi vegur að spá með nokkurri vissu fyrir um þróunina svo langt fram í tímann. En sú ágiskun sem hann setti fram — og annar ekki síðri snillingur, Ólafur G. Guðlaugsson teiknaði síðan kortið eftir — væri þó eflaust ekki vitlausari en hver önnur!
Það Ísland sem við þekkjum byrjaði að verða til fyrir 15-18 milljónum ára.
Það er afar skammur tími á mælikvarða jarðarinnar sem er rúmlega fjögurra milljarða ára gömul. Nánast bara augnablik. En þótt Ísland sé ungt á jarðsögulegan mælikvarða er þetta langur tími á mælikvarða mannanna, enda voru forfeður mannkynsins bara smáapar að klifra í trjánum í Afríku um það leyti sem elstu hlutar Íslands skutu kollinum upp úr jörðinni.
En eftir tíu milljónir ára í viðbót verður mannkynið í núverandi mynd alveg áreiðanlega útdautt eða búið að þróast einhvern veginn inn í vélar sínar og það er engin leið að reyna að giska á hvernig viti borið líf á jörðinni verður þá útlits — eða hvort það verður yfirleitt eitthvað.
En hvernig sem því verður háttað mun jörðin ekki láta af umbreytingum sínum og í SKAKKA TURNINN skrifaði ég eftirfarandi útlistanir á hverjum landshluta fyrir sig.
Þær má sjá hér fyrir neðan kortið sem Ólafur teiknaði.
1
Vestfirðir
Vestfirðirnir eru, ásamt Austfjörðum, elsti hluti Íslands. Þegar Grænlandsflekinn tók að klofna frá Norðurlöndum og/eða Norður-Evrópu var lengi meiri eða minni landbrú yfir hið nýja Atlantshaf milli Evrópu og Grænlands.
Það er útbreiddur misskilningur að Ísland hafi „risið úr sæ“ á opnu hafi. Svo var ekki. En þegar tók að gjósa á heitum reiti á mótum flekanna og nýtt land að hlaðast þar upp sökk landbrúin í sjó. Mikil fjöll hlóðust upp en þegar Grænlands- og Evrópuflekar héldu áfram að færast hvor frá öðrum klofnuðu þau í tvennt og færðust í sundur.
Eldvirkni hélt hins vegar áfram og ný landsvæði mynduðust á milli „gömlu“ fjallanna sem færðust í austur og vestur. Ísaldir og önnur hrekkjabrögð náttúrunnar hafa svo sorfið þessi „gömlu fjöll“ til, bæði á Austfjörðum og þó enn fremur á Vestfjörðum.
Á næstu tíu milljónum ára mun ágangur sjávar og nýjar ísaldir halda áfram að brjóta niður Vestfirðina og þar sem engar líkur eru á að þar hefjist eldvirkni að nýju munu Vestfirðirnir óhjákvæmilega láta mjög á sjá. Fjöllin munu eyðast smátt og smátt og stór hluti þeirra hverfur í sæ.
Hversu hratt Vestfirðir eyðast mun fara eftir því hversu langar og strangar ísaldir munu ganga yfir næstu 10 milljónir ára, en við gerum ráð fyrir að þeir verði á þessum tímapunkti orðnir að eyjaklasa. Á sumum eyjanna munu leifar hinna fögru vestfirsku fjalla enn þrauka en ekki nema svipur hjá sjón miðað við hrikaleika nútímans.
2
Norðvesturland
Á þessu landsvæði er ekki von á að eldvirkni hefjist að nýju. Þar er því hætt við að Húnavatnssýslur og Skagafjörður verði heldur sviplitlir staðir eftir tíu milljónir ára og sjór verulega farinn að ganga á land. Kannski Tindastóll gnæfi upp úr lágreistri sléttu en hann verður þó ef til vill lítið annað en hver önnur Öskjuhlíð. Og í versta falli verður hann ekki annað en eyja á grunnsævi.
3
Snæfellsnes
Snæfellsjökull er hálfgerður einfari nú á dögum; virkt eldfjall á svæði þar sem eldvirkni er annars fyrir bí. Undir honum er svolítill heitur reitur, lítt tengdur öðrum eldgosasvæðum. Hinar væntanlegu ísaldir næstu tíu milljónir ára munu sverfa niður fjöllin á Snæfellsnesi en munu þó ekki hafa náð að ýta nesinu öllu niður í sjó.
Snæfellsjökull sjálfur mun halda velli sem eyja. Röð af smáeyjum og hólmum mun væntanlega ná frá honum til meginlandsins.
Heiti reiturinn sem nú er undir jöklinum mun hins vegar færast í austur og eftir tíu milljónir ára verður hann líklega staddur einhvers staðar þar sem nú er Brattabrekka. Þar er því sennilegt að verði eitt myndarlegasta fjall landsins og þótt það velti nokkuð á hvernig ísaldirnar muni leika það, gæti hið væntanlega fjall vel náð rúmlega tveggja kílómetra hæð.
4
Vesturland
Þar verður ekki eldvirkni ef undan er skilinn heiti reiturinn frá Snæfellsjökli. Því mun Vesturland með tímanum hjaðna undan veðrun, sjó og ísaldarjöklum og eftir tíu milljónir ára verður Hafnarfjall töluvert mikið lágreistara en núna. Og Esjan kannski ekki annað en hópur af háum hólum. Stærstur hluti Borgarfjarðar verður nær áreiðanlega undir sjó.
5
Reykjanes
Á Reykjanesinu er eldvirkni en þótt þar muni gjósa enn um sinn og nokkur stórgos gætu jafnvel orðið þar á næstunni (það er að segja á næstu örfáum þúsundum ára), þá mun eldvirknin minnka með tímanum og loks hverfa. Ysti hluti Reykjaness verður eftir tíu milljónir ára aflöng eyja, ef til vill með smáeyjum í kring, svolítið eins og mjög stórar Vestmannaeyjar. Það má nefnilega ganga út frá því sem næstum vísu að jöklar og sjór muni þá hafa slitið Reykjanessvæðið frá meginlandi Íslands. Reykjavík verður á sjávarbotni.
6
Suðurland
Stór hluti Suðurlands hefur líklega oftar en einu sinni verið undir sjó. Við reiknum með því að eftir tíu milljónir ára verði Suðurlandsundirlendið orðið breiður flói milli leifanna af fjöllunum á Suðvesturlandi og hálendisins í austri. Sjávarstaða við þennan „Suðurlandsflóa“ verður þó eflaust breytileg eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni á jörðinni almennt.
7
Suðurfirðir
Eldvirkni á Íslandi er að mestu bundin við sprungur sem liggja á ská frá suðvestri til norðausturs. Með óreglulegu millibili stekkur eldvirknin úr einni sprungu yfir í aðra nokkru austar. Þarna er að vísu flókið mál sett fram á mjög einfaldaðan hátt, en nokkurn veginn er þetta svona.
Og nú um þessar mundir er eldvirkni einmitt að færast í nýja sprungu sem segja má að Vestmannaeyjar, Katla og fleiri kátir félagar séu hluti af. Þar sem engin ástæða er til að ætla að eldvirkni minnki neitt á Íslandi næstu tíu milljónir ára, þá gæti þarna orðið helsti suðupotturinn og gríðarlegt hraun brotist fram í mörgum risastórum gosum.
Það er ágiskun SKAKKA TURNSINS að þarna muni hlaðast upp mikill landbunki sem ísaldir munu síðan sverfa í firði og dali, svo þarna verði kominn mjög myndarlegur vogskorinn skagi, sem e.t.v. muni svipa mest til Vestfjarðakjálkans eins og hann lítur út nú.
Páll Einarsson, sérfræðingur SKAKKA TURNSINS í jarðvísindum framtíðar, vill að vísu taka fram að auðvitað sé engin leið að segja til um það með nokkurri vissu hvort eldvirkni verði endilega svo mikil akkúrat þarna, en þessa ágiskun megi þó vel verja.
8
Miðhálendið
Það mun að sjálfsögðu velta algjörlega á því á hvaða stigi ísalda Ísland verður statt eftir tíu milljónir ára hvort jöklar verða á landinu eður ei. Við gefum okkur að á þessum tímapunkti verði hlýskeið og engir jöklar sjáanlegir.
Ísaldir munu hins vegar hafa sorfið niður hæstu fjöllin á miðhálendinu vestanverðu, þar sem eldvirkni er horfin, en austan til verða annars vegar miklir aflíðandi hraunflákar (sem renna á hlýskeiðum) og hins vegar miklar dyngjur og fjöll (sem leiða af eldgosum undir jökli á væntanlegum ísöldum).
Ef eldstöðvar í Grímsvötnum og Bárðarbungu ná að sameinast gæti þar hlaðist upp myndarlegt fjall með tímanum, en þess ber að geta að á Íslandi munu aldrei rísa verulega há fjöll – þá er átt við fjöll á hæð við Alpafjöll eða jafnvel Himalaja.
Ástæðan er sú hvað undirlag Íslands er gljúpt.
Þegar nýtt eldfjall hefur náð ákveðinni stærð og þyngd fer jörðin undir því einfaldlega að síga og það sekkur.
9
Suðausturland
Þótt mest eldvirkni næstu tíu milljónir ára verði á sprungunni sem við gefum okkur að myndi „Suðurfirðina“, þá verður önnur sprunga þegar komin í notkun enn þá austar. Hún er reyndar þegar tekin til starfa þar sem heitir Öræfajökull. Hann og fleiri eldstöðvar þar um slóðir verða eflaust búin að mynda snotra fjallakeðju í norðaustur frá jöklinum og kannski líka dálítinn skaga sem nær út í sjó til suðvesturs.
10
Austurland
Gliðnun jarðskorpufleka um mitt Ísland hefur í för með sér að Austfirðirnir eru nú þegar á siglingu í austurátt og sú þróun mun halda áfram. Eftir tíu milljónir ára verða Austfirðirnir komnir a.m.k. nokkra tugi kílómetra lengra í austur. Ágangur sjávar og ísaldarjöklar verða þá búnir að sverfa firði og fjöll verulega niður.
Ef einhver verður þá á jörðinni sem hirðir um hvað landslagið heitir mun viðkomandi sjá á kortinu Seyðisvog og Reyðarvík í stað þeirra stoltu fjarða sem nú prýða kortin.
Út af Austfjörðunum kynni að vera farið að votta fyrir enn einni eldvirknisprungu svo þar væru farnar að skjóta upp kollinum fáeinar goseyjar, eins og Surtsey, en upp af Austfjörðunum verða miklir hraunflákar í bland við einstök eldfjöll sem sum gætu verið sjón að sjá.
Nýjar Heklur gætu vaxið upp norður af hinum núverandi Vatnajökli þótt sú Hekla sem nú er að störfum vestar á landinu verði þá löngu þögnuð og orðin að lítt áberandi fjallahrygg.
11
Norðausturland
Eldvirkni mun vafalítið vera töluverð á og út af Norðausturlandi næstu tíu milljónir ára. Það er erfitt að segja til um hvernig hún muni þróast, en ekki virðist fráleitt að í norðvestur frá Tjörnesi gæti vaxið upp myndarlegur skagi, enda vísbendingar um að þarna sé sérstök eldsprunga sem brátt gæti tekið til starfa og gosið þvert á suðvestur-norðaustursprungurnar sem algengastar eru.
En íland er eki bara allt landsvaði sem tilheirir jörðini og enn athyglisverðara að spá í þróun hnattarina eftir 1o mijón ár og hvarnig verði þá umhorfs á blá hnettinum okkar mamma .
En íland er eki bara allt landsvaði sem tilheirir jörðini og enn athyglisverðara að spá í þróun hnattarina eftir 1o mijón ár og hvarnig verði þá umhorfs á blá hnettinum okkar mamma .