Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

„Við verðum sterkari og reiðari en við brotnum ekki“

Við breytt­um bað­her­berg­inu í sprengju­skýli, seg­ir Ósk­ar Hall­gríms­son ljós­mynd­ari en hann og Ma Riika mynd­list­ar­kona búa í Úkraínu. Eft­ir að inn­rás Rússa hófst sköp­uðu þau list á vinnu­stofu sinni í Kyiv og neit­uðu að leggja á flótta. Stríð­ið hef­ur samt breytt þeim.

„Við verðum sterkari og reiðari en við brotnum ekki“

Óskar Hallgrímsson er ljósmyndari sem hefur unnið víða um heim undanfarin ár. Ma Riika, sem er frá Úkraínu, er myndlistarmaður en hefur einnig unnið við að húðflúra undanfarin ár.

„Ég var boðinn til Kyiv í ágúst eða september 2019 til að kynna ljósmyndabók sem ég gerði um kynlífsiðnaðinn í Taílandi á Kyiv Photo Book International Festival. Á öðrum degi mínum í borginni settist ég við borð með bókina mína og var að tala við eitthvert fólk og þangað kom Ma Riika og nú erum við gift og búum í Kyiv.“

Var það ást við fyrstu sýn?

„Nánast. Hún er tattúartisti og settist við borðið hjá mér og addaði mér á Instagram. Ég sá á síðunni hennar að hún var að gera tattú og ég er eins og skissubók; ég er allur í tattúum. Ég sendi henni síðar skilaboð og spurði hvort ég gæti komið í tattú til hennar og ég gerði það. Síðan leiddi eitt af öðru.“

Ma Riika teiknaði grímu á maga Óskars. „Ég er ekki grannur þannig að þetta tók langan tíma,“ segir hann og hlær.

Óskar var í Kyiv í um þrjár vikur og fór síðan til Dubai, þaðan til Indlands og  og að lokum til Georgíu. Hann og Ma Riika voru í net- og símasambandi á meðan hann flakkaði á milli landa.

Hvað var  það sem heillaði hana í fari hans? „Persónuleiki hans. Ég veit það ekki. Hann ferðaðist mikið eftir að við kynntumst og hann sýndi mér svo mikinn stuðning þegar hann talaði við mig í síma. Hann vildi alltaf hringja í mig. Ég var í ömurlegu starfi,“ segir Ma Riika og Óskar segir að hún hafi unnið hjá bandarísku fyrirtæki sem hafi ráðið ódýrt vinnuafl frá Úkraínu í gegnum netið. Starf hennar fólst í að fylla út Excel-skjöl með tölum sem hún fann á netinu. „Þetta var ógeðslega leiðinlegt. Þetta var hræðilegt. Ég hefði skotið mig eftir mánuð ef ég hefði unnið við þetta,“ segir hann, „og það var ekki gott fyrir andlega heilsu hennar og helmingurinn af samtölunum fór í að hún fékk tækifæri til að fá útrás út af þessu starfi.“

Hvað vissi Ma Riika um Ísland áður en hún hitti Íslendinginn sem fékk grímu á magann? „Ég vissi að það var mjög fallegt. Ég man að amma sagði eftir að ég kynntist Óskari að mig hafi dreymt alla ævi um að fara til Íslands.“ Hún hlær og segist ekki muna eftir þessu. „Hún mundi að ég hafði einhvern tímann sagt það. Ég hafði gleymt því. Svo hitti ég Óskar,“ segir Ma Riika sem er frá Odesa en hafði búið í Kyiv í um mánuð þegar hún hitti Óskar þar. 

Eins og í transi

Aðfaranótt 24. febrúar voru hjónin sofandi á heimili sínu í Kyiv og vöknuðu við sprengingar.

Búist hafði verið við að eitthvað gæti gerst og íbúum í Úkraínu bent á að hafa töskur tilbúnar með helstu nauðsynjum og skjölum. „Við höfðum allt sem við þurftum tilbúið, þannig að ef við þyrftum að yfirgefa íbúðina skyndilega þá gætum við það. Við vissum að þetta gæti gerst en við sögðum að Rússar myndu aldrei gera þetta. En svo auðvitað gerðu þeir það,“ segir Óskar.

„Það er mjög súrrealísk upplifun að ganga í gegnum þetta. Þetta er tilfinningaleg rússíbanaferð. Við ákváðum að taka engar ákvarðanir í paniki. Það var fyrsta regla. Við sögðum að ef við tækjum ákvörðun þá tækjum við hana saman og afslöppuð. Jafnvel þótt við hefðum lítinn tíma þá myndum við alltaf ræða hverjir möguleikar okkar væru og hvers vegna þessi leið væri betri en einhver önnur,“ segir hann og bætir við að það hafi verið góð ákvörðun að taka enga ákvörðun meðan þau voru í miklu uppnámi. 

„Það var bein bílalína til Vesturlanda frá Úkraínu og allar lestir voru fullar af fólki klukkutímum saman; kannski 13-16 tíma ferðir frá Úkraínu,“ segir Ma Riika og Óskar bætir við að þegar fólk hafi verið komið á ákvörðunarstað hafi lítið sem ekkert tekið á móti því enda um að ræða um milljón flóttafólks sem kom skyndilega í litla borg. 

„Við sáum þetta. Ég komst snemma í áreiðanleg gögn og byggði allar okkar ákvarðanir á þeim, ekki á fréttum. Við lásum þessar skýrslur og sáum hvar herdeildir Rússa voru og fórum ekki eftir fréttum sem ýktu stundum.“
Óskar segir að þau hafi komist í þessar skýrslur; þetta séu opnar skýrslur sem komi frá stórum hópi rannsakenda.  „Við sáum hver staðan var við landamærin í Vestur-Úkraínu, við sáum borgina okkar vígbúast svakalega og við sáum að loftvarnir og annað varð betra með hverjum degi sem leið og þannig séð varð Kyiv aldrei fyrir neinni árás. Þeir komu í borgina fyrstu tvo dagana en var svo ýtt út.“

Hjónin ákváðu því að vera um kyrrt í Kyiv. „Við höfðum alltaf möguleikann á að fara út á lestarstöð sem er í tíu mínútna göngufjarlægð. Það er öruggt vestanmegin við Kyiv. Það voru engir rússneskir hermenn þar. Það er ekkert stríð í gangi þar. Þannig að það er alltaf leið út úr borginni. Við sáum hvað vinir okkar voru að ganga í gegnum sem fríkuðu út. Á fyrsta degi settu þeir bara eitthvað í töskur og hlupu út um dyrnar. Þeir voru ekki með neinn pening og sváfu einhvers staðar á gólfinu. Við vorum bara heima hjá okkur í hlýjunni að horfa á Netflix. Við lentum aldrei í neinu veseni við að vera heima. Það var miklu öruggara fyrir utan að andlega heilsan var miklu betri hjá okkur heldur en vinum okkar sem völdu að vera flóttamenn.“

Ma Riika segir að fyrstu mánuðina hafi þetta verið sérstaklega erfitt. Hún hafi ekki vitað hvort hún gæti farið að teikna fyrstu mánuðina eftir innrásina. „Ég var eins og í transi. Ég gat ekki trúað öllu þessu ofbeldi í garð almennra borgara. Rússar vörpuðu ekki bara sprengjum á hernaðarlega mikilvæg skotmörk heldur líka á almenna borgara. Ég byrjaði síðan að teikna og vildi breyta þessari orku í eitthvað gott og gagnlegt.“

Og Ma Riika lagði sitt af mörkum til úkraínskra hersins því hópur húðflúrara tók sig saman og tólf helgar í röð húðflúruðu þeir fólk alla laugardaga og í staðinn fyrir að borga þeim rann allur ágóði til hersins.

Óskar segir að ein stórkostlegasta manneskja sem hann hafi kynnst sé Olga Babentsova sem rekur lítið kaffihús nálægt heimili hjónanna. „Eftir innrásina sagðist hún þurfa að gera eitthvað og í litlu eldhúsi kaffihússins var farið að elda fyrir 1.000-1.500 úkraínska hermenn á dag. Ég er að tala um samstöðu. Fólk í Kyiv þurfti stundum að bíða klukkustundum saman í röð við verslanir til að geta fyllt poka af matvörum bara til að fara með í eldhúsið svo hægt væri að elda fyrir hermennina. Þetta er eitt dæmi af fjölmörgum. Við gætum talað allan daginn um svona dæmi. Ég verð stoltur þegar ég hugsa um þetta.“

Fjöldagrafir

Ma Riika segir að Rússar vilji að Úkraínumenn lifi í ótta. Það sé markmið þeirra. „Við ætlum ekki að gera þeim það til geðs; við verðum sterkari og reiðari en við brotnum ekki.“

Óskar segir að þetta sé alveg rétt. „Í fyrstu vorum við náttúrlega óttaslegin. Hjá mér gekk það fljótt yfir af því að við ákváðum að leyfa ekki Pútín að terrorisera okkur. Auðvitað verðum við reið. Ég fór til dæmis til Bucha fjórum dögum eftir að þeir opnuðu borgina og var að mynda fjöldagrafir. Auðvitað verður maður rosalega reiður en í stað þess að verða óttasleginn og leyfa þeim þannig að vinna ákváðum við að flýja ekki. Ég veit að þetta hljómar fáránlega en það er alveg hægt að taka ákvörðun um þetta: Nei, við ætlum ekki að leyfa þetta; við ætlum ekki að panika og ætlum að halda áfram okkar lífi eins og við getum í þessum aðstæðum. Við stjórnum ekki aðstæðunum en við getum stjórnað því hvernig við dílum við þær. Og það er það sem við gerðum.“

Fjöldagrafir. Það var erfitt að sjá það. 

„Ég bjó mig undir það andlega að ég væri að fara inn í Bucha. Það var ekkert búið að gera nema pikka upp eiginlega öll líkin af götunum. Það var rosaleg upplifun og rosalega erfitt. Það sem hefur verið erfiðast fyrir mig í þessu stríði eru hlutirnir sem maður býr sig ekki undir. Þetta hefur svo margar hliðar og það eru svo ógeðslega margar hliðar sem þú býrð þig ekkert undir. Erfiðast hefur verið fyrir mig persónulega að fara inn á heimili fólks, svo sem í Bucha og Irpin. Þar eru nýbyggingar; þetta er eins og að fara í Grafarholtið. Það hefur margt hræðilegt gerst á heimilum þar; þú sérð kannski blóð á gólfinu eða að rússneskir hermenn hafa hreiðrað þar um sig meðan á umsátrinu stóð. Þar er líf fólks gjörsamlega tekið og rústað. Ég fer alltaf á þessum stöðum inn á heimili fólks til þess að fá einhverja tengingu við þetta,“ segir Óskar, sem myndar fyrir Morgunblaðið auk þess að mynda fyrir ýmsa erlenda aðila. Hann hefur hitt fórnarlömb stríðsins og fjölskyldur fórnarlamba. „Það er eitthvað sem er mjög erfitt. Kynferðisofbeldi er búið að vera eitt af þessum „terrorista tactics“ hjá Rússum; og það er mjög algengt.“

„Ég er bara manneskja sem hef upplifað traumatíska atburði stanslaust í fimm mánuði“
Óskar

Óskar segir að þetta hafi breytt sér. „Það er erfitt að koma þessu í orð en þetta hefur kannski breytt mér. En ég er enn þá sami ég. Ég er ekkert orðinn ný manneskja eftir þetta. Ég er bara manneskja sem hef upplifað traumatíska atburði stanslaust í fimm mánuði. En við tvö erum rosalega gott team upp á að díla við þetta. Við höfum haldið hvort öðru tiltölulega sane í gegnum allt þetta rugl.“

Ættingjar Ma Riika eru í Odesa. Óskar segir að sumir vinir þeirra hjóna sem flúðu til annarra landa hafi komið aftur til Úkraínu. „Það er mikið af fólki frá Kyiv sem er komið til baka. Kyiv er mikið að vakna til lífsins. Stríðið gengur svakalega illa hjá Rússum og á eftir að ganga enn verr á næstunni þannig að það er komin vonarglæta í okkur um að þessu ljúki. En við erum raunsæ og vitum að þetta er ekki að verða búið á morgun og ekki í næstu viku. Þetta verða einhverjir mánuðir pottþétt og örugglega eitthvað inn í veturinn. Síðan eftir að stríðið er búið, hvenær svo sem það verður, þá eru einhver ár í uppbyggingu. Þetta er eitthvað sem allir þurfa að díla við.“

Liggja saman á baðherberginuVerk af þeim liggjandi inni á baðherbergi heima, en því breyttu þau í sprengjuskýli.

Ljómandi þægilegt

Hjónin komu til Íslands fyrir nokkrum vikum til að setja upp sýninguna Ljómandi þægilegt í Gallery Porti sem er nú lokið. Verkin unnu þau eftir að stríðið skall á og er um að ræða handsaumuð teppi úr ull og akríl. Um sýninguna segir: „ Nafn sýningarinnar, Ljómandi þægilegt, vísar í ljósið sem hlýjar í lægðum, ljósið við endann á göngunum, ljómann sem skín af þeim sem sýna dug og spyrna á móti þegar vindar blása, ljóma sem við fáum frá hvert öðru í samstöðu og ljómann sem við munum finna innan frá þegar þessu lýkur. Verkin eru handsaumuð teppi úr ull og akríl. Teppin tengjast öll saman sem ein sería til að skapa ímyndaðan heim.“

Óskar segir að fyrir þessa sýningu hafi þau hjónin tekið eigin raunveruleika og klætt hann í þeirra eigin heim; eins og þau myndu setja hann í ný föt.

Hann talar um eitt verkið á sýningunni sem kallast Ömmublóm. Það tengist því þegar gömul, úkraínsk kona henti sólblómafræjum í rússneskan hermann, húðskammaði hann og sagði að hann ætti að koma sér heim og að ef mamma hans vissi hvað hann væri að gera þá myndi hún skammast sín fyrir hann. „Hún sagði „taktu þessi fræ og settu þau í vasann hjá þér svo þau vaxi úr þér þegar þú ert dauður svo það sé eitthvert gagn af þér í Úkraínu“. Núna er þessi gamla kona sameiningartákn í Úkraínu. Líka sólblómið sjálft,“ segir Óskar en sólblómið er jú þjóðarblóm landsins. „Það er þessi tilfinning sem við reyndum að fjalla um á sýningunni; þessi blanda af mótstöðu, samhug, samkennd og að láta ekki hræða sig af því að það er það sem Pútín vill.“

Óskar segir að þau Ma Riika hafi unnið verkin eins og það séu alltaf þau sem eru á myndunum. „Það getur þó hver og einn fundið sjálfan sig í verkunum af því að þetta er í raun og veru ekki 100% bein tenging við stríðið en fyrir okkur er það svo. Stærsta verkið er svarthvítt; það er mynd af okkur liggjandi inni á baðherbergi heima hjá okkur. Við breyttum baðherberginu í sprengjuskýli. Við settum teppi á gólfið og vorum þar með sængurföt og gerðum það umhverfi kósí. Þegar loftvarnabjöllurnar byrjuðu að óma og sprengjurnar byrjuðu að falla í hverfinu okkar þá hlupum við þangað inn,“ segir Óskar og bætir við að þrisvar sinnum hafi verið gerð árás í um eins kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra og í hvert skipti hafi þrjú til fjögur flugskeyti fallið. „Þú finnur vel fyrir því þegar flugskeyti lendir einn kílómetra frá þér. Við vorum í byrjun stríðsins mikið inni á klósetti, sem var öruggasti staðurinn til að vera á í byggingunni. Kjallarinn var öruggasti staðurinn en við búum uppi á 8. hæð og við nenntum ekkert að hlaupa upp og niður átta hæðir fjórum til fimm sinnum á dag.“

Óskar er virkur á Instagram og gefur reglulega upplýsingar um stríðið. instagram.com/skari

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Tugir sjúklinga dvöldu á bráðamóttökunni lengur en í 100 klukkustundir
2
FréttirÁ vettvangi

Tug­ir sjúk­linga dvöldu á bráða­mót­tök­unni leng­ur en í 100 klukku­stund­ir

Vegna pláss­leys­is á legu­deild­um Land­spít­al­ans er bráða­mót­tak­an oft yf­ir­full og því þurftu 69 sjúk­ling­ar að dvelja á bráða­mót­tök­unni leng­ur en í 100 klukku­stund­ir í sept­em­ber og októ­ber. Þetta kem­ur fram í þáttar­öð­inni Á vett­vangi sem Jó­hann­es Kr. Kristjáns­son vinn­ur fyr­ir Heim­ild­ina. Í fjóra mán­uði hef­ur hann ver­ið á vett­vangi bráða­mótt­tök­unn­ar og þar öðl­ast ein­staka inn­sýni í starf­sem­ina, þar sem líf og heilsa fólks er und­ir.
Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
3
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
5
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár