Niðurstaðan í dómsmáli leikarans Johnny Depp á hendur fyrrverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Amber Heard, er áhyggjuefni fyrir þolendur ofbeldis. Niðurstaða málsins gæti valdið því að fólk sem stígur fram og lýsir því að hafa verið í ofbeldissambandi, án þess þó að nafngreina geranda og án þess að tilgreina sérstök atvik þess efnis eða tímasetningar, eigi á hættu að vera kærð fyrir þau ummæli. „Þá værum við farin að sjá ansi mikla og kröftuga þöggun, það væru áhrifin sem þetta væri að hafa og það er óskandi að slíkt gerist ekki,“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, fyrirlesari og aktívisti, í viðtali við Eddu Falak í nýjast þætti Eigin kvenna.
Í máli Depp á hendur Heard var tekist um blaðagrein sem Heard skrifaði þar sem hún lýsti því að hún væri þolandi heimilisofbeldis. Í greininni nefndi hún Depp ekki á nafn né lýsti atvikum með þeim hætti að hægt væri með vissu að fullyrða að Depp væri umfjöllunarefni hennar. Depp tók hins vegar greinina til sín og kærði Heard fyrir meiðyrði. Í málarekstri á hendur henni í Bretlandi tapaði Depp málinu en hann höfðaði síðan mál að nýju í Bandaríkjunum. Kviðdómur í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að Heard hefði gerst sek um meiðyrði í garð Depp.
Þórdís Elva segir að niðurstaðan í máli leikarahjónanna fyrrverandi veki henni áhyggjur. „Segjum bara Edda að þú hafir átt tíu kærasta og þú ákveðir svo eftir hálft ár að stíga fram og segja: „Ég var beitt ofbeldi í sambandi.“ Áttu þá von á því að að tíu manns megi kæra þig af því þeim finnst þetta kássast upp á sína ímynd?“
Hrósa sigri yfir að hafa fundið konuna sem lýgur
Segja má að réttarhöldin hafi verið fyrstu internet réttarhöldin, þar sem fylgst var með málflutningi í rauntíma og viðbrögð fólks birtust jafnt og þétt á samfélagsmiðlum. Í raun hafi þau orðið að ákveðinni tegund afþreyingar, segir Þórdís Elva. Á netinu hafi birst gríðarleg hópaskipting eftir afstöðu fólks en langstærstur hluti þeirra sem hafi tekið afstöðu hafi skipað sér í lið með Depp, leikurinn hafi fjarri því verið jafn.
Þórdís Elva segir að vissulega hafi unnið með Depp að hann sé ein stærsta stjarna samtímans og fólk eigi oft erfitt með að trúa nokkru illu upp á stjörnurnar sínar. Hitt hafi hins vegar einnig spilað inn í að í Amber Heard hafi fólk fundið konu sem ekki væri hinn fullkomni þolandi ofbeldis, sem ekki væri eins og staðalímyndin sem fólk máli gjarnan upp. „Þarna var ákveðinn hópur fólks tilbúinn að rísa upp á afturlappirnar og hrósa sigri yfir því að hafa fundið konuna sem lýgur. Auðvitað hefur konan sem lýgur verið táknmynd sem leitað hefur verið logandi ljósi að frá því að MeToo hreyfingin varð til. Þá skapaðist krafa um að við tryðum þolendum. Öllum sem fannst það óþægilegt, sem fannst það ógna sinni heimsmynd, að þurfa allt í einu að trúa þolendum, fyrir þá er mjög hentugt að komin sé fram kona sem hægt er að úthrópa sem lygara. Það er eins og að fá pálmann upp í hendurnar. Ég held það skýri á ákveðinn hátt hluta af heiftinni,“ segir Þórdís Elva og bendir á að Heard hafi meðal annars orðið margsaga í sínum vitnisburði.
„Fólk sem beitir ofbeldi gerir líka alls konar aðra hluti, sem eru jafnvel frábærir eða til bóta fyrir samfélagið“
Það er vel hægt að skilja að ákveðinn hópur fólks taki því tveimur höndum þegar í ljós kemur að kona sem segist hafa orðið fyrir ofbeldi reynist ekki passa inn í þá fyrirfram gefnu mynd af þolanda sem fólk gefur sér, að mati Þórdísar Elvu. Það er vegna þess að það er óþægilegt þegar heimsmynd fólks er ógnað. „Það er óþægilegt að þurfa að gera breytingar á ríkjandi ástandi, það er svo þægilegt að gangast upp í því sem hefur alltaf verið. Ef ég þarf að horfast í augu við að hjartaknúsarinn sem ég hef alltaf litið upp til og fundist frábær leikari sé ekki endilega allur þar sem hann er séður, eða ef fyrirliðinn minn í fótbolta sem ég hélt að væri mögulega besta fyrirmyndin fyrir börnin mín, eða uppáhaldsleikstjórinn minn eða Bill Cosby eða hver sem það er sem liggur undir grun, að hann sé mögulega manneskja sem er fær um að beita ofbeldi, þá er það að sjálfsögðu mjög óþægilegt. Auðvitað er notaleg tilhugsun að fólk skiptist bara í tvo flokka, góða menn og vonda menn, og það sé auðvelt að gera greinarmun þar á. Ef það væri raunin væri auðveldara að lifa í þessum heimi. Þess vegna skil ég tilhneigingu fólks til að ríghalda í þetta, sakleysi, skulum við segja. En þetta er auðvitað ekki sakleysi, heldur ranghugmynd, því alls konar fólk beitir ofbeldi. Og fólk sem beitir ofbeldi gerir líka alls konar aðra hluti, sem eru jafnvel frábærir eða til bóta fyrir samfélagið í heild. Það að þurfa að halda báðum þessum hugsunum í höfðinu samtímis er flókið, það er ekkert hlaupið að því þegar heimsmyndin þín hefur alltaf verið svarthvít. Þá er þægilegt að geta gripið í steríótýpurnar og geta haldið þeim á lofti. Það er held ég það sem hefur gerst í þessu máli.“
Meðferðin á Heard og Depp stafrænt ofbeldi
Sú útreið sem Heard fékk á internetinu, og raunar Depp líka þó í minna mæli hafi verið, er í raun stafrænt ofbeldi að sögn Þórdísar Elvu. „Eflaust er það svo að það sem hefur knúið fólk áfram er að fólki þykir það hafa fundið sannleikann í málinu og þar af leiðandi megi það taka afstöðu sem er mjög hatrömm. Það írónískasta í málinu er að í grunn og botn er þetta ærumeiðingamál og heimsbyggðin nú er búin að ærumeiða Amber Heard í fimm, sex vikur.“
Miðað við málsgögn í málinu, segir Þórdís, að sjá megi að bæði hafi Heard játað að hún hafi í einhverjum tilvikum haft frumkvæði að líkamlegum átökum en einnig sé margt sem bendi til að hún hafi verið í ofbeldissambandi við Depp. Sömuleiðis hafi komið fram gögn sem bendi til að hún hafi beitt hann líkamlegu ofbeldi og einnig að þau hafi bæði beitt hvort annað andlegu ofbeldi. Þórdís segir að þó að mikil og yfirgnæfandi slagsíða hefði verið í átt að stuðningi við Depp hafi þau bæði verið dregin sundur og saman í háði á internetinu. Fólk verði hins vegar að átta sig á ábyrgð sinni, hvað það lætur frá sér fara, og hvaða afleiðingar það geti haft. „Það er harla ólíklegt að ef þú setur svona á internetið að þessar stórstjörnur sjái það nokkurn tíma eða þetta muni hafa áhrif á þeirra líf. Hins vegar er mjög líklegt að fólk í þínu nærumhverfi, sem hefur einhverja reynslu af ofbeldi, sjái þetta og dragi þá ályktun að þér sé ekki treystandi fyrir þeirra sögu. Jafnvel þaggi þetta niður í þeim enn frekar, til langs tíma. Ég held að við þurfum þarna að stoppa og skoða og spyrja okkur sjálf: Hvað erum við að gera með því að taka þátt í þessari tegund af persónuárásum.“
„Eins og að hinn fullkomni þolandi hafi úfið hár, í hvaða handbók stendur það?“
Það að stórstjörnurnar sjái kannski aldrei það sem fólk lætur frá sér fara, hæðni í þeirra garð, breytir ekki því að aðrir sjá það segir Þórdís Elva. Það geti mögulega orðið til þess að þolendur ofbeldis skríði lengra inn í sína skel. „Segjum að þú sért að hæðast að Johnny Depp með þessum orðum: „Karlkyns þolandi heimilisofbeldis! Hefurðu séð Amber Heard? Hún er fimmtíu kíló með skólatösku.“ Þú heldur mögulega að með þessu sértu að iðka einhvern skaðlausan leik vegna þess að þetta muni Johnny Depp aldrei sjá eða taka til sín. En mögulega mun karlkyns þolandi heimilisofbeldis í þínu nærumhverfi sjá þetta og skríða enn lengra inn í sína skel. Af því að það er í lagi að draga hans karlmennsku í efa eða hans trúverðugleika, ef hann passar ekki inn í staðalmynd þolenda. Slíkt hið sama á við um Amber Heard, þar var fólk að hæðast að öllu mögulegu, hvernig hárgreiðslan hennar var, fatavalið hennar, hvernig hún grét. Þessi hugmynd um hinn fullkomna þolanda hefur á margan hátt styrkst í sessi við þessi réttarhöld, því það virtust svo margir hafa þá mynd á hreinu. Eins og að hinn fullkomni þolandi hafi úfið hár, í hvaða handbók stendur það?“
Þórdís bendir á að ekki séu til nein sérstök viðbrögð við ofbeldi og áratugi hafi tekið að koma þeim skilningi á framfæri. „Við erum loksins núna farin að opna augun fyrir því að það er mögulegt að fólk sem er í afneitun eða áfalli hagi sér með alls konar hætti. Stífmáli sig eða bjóði ofbeldismanninum sínum á deit, slíkt hefur gerst. En það grefur ekki undan því að ofbeldið hafi átt sér stað.“
Þetta er tekið mjög alvarlega og kviðdómendur eru minntir á þettta margsinnis hvern dag. Ef það kæmist upp að kviðdómari hefði brotið þessar reglur, þá er honum umsvifalaust vísað úr kviðdómnum og varamaður kemur í staðinn.
Þannig að svona tal er ekki aðeins fáfræði um réttarkerfið vestra, heldur líka ásökun um óheilindi á kviðdómendur, fólk sem Þórdís veit ekkert um. Fólk sem er valið eftir mjög ströngu ferli til að sinna þessum skyldum. Ferli þar sem báðir aðilar málsins geta farið fram á að einstaklingar séu útilokaðir frá störfum sem kviðdómari, ef þeim lýst illa á viðkomandi af einhverjum orsökum.
En hér kristallast einmit ástæða þess að þessum réttarhöldum er sjónvarpað. Það er til að fólk geti séð hvernig ferlið er svo það sé enginn vafi um að það sé réttlátt.