Eftir að hafa yfirgefið Kastljósið og lofað að sameina Reykvíkinga, frá úthverfum til miðborgar, hefur Einar Þorsteinsson náð að tryggja sér borgarstjórastólinn í Reykjavík. Þetta var tilkynnt rétt í þessu á blaðamannafundi nýs meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur í Elliðaárdal.
Nýr meirihluti í borgarstjórn hefur verið innsiglaður með brotthvarfi Vinstri grænna og innkomu Framsóknarflokksins, sem fær borgarstjórastólinn í ársbyrjun 2024. Þá verður oddvitinn Einar Þorsteinsson fyrsti borgarfulltrúi Framsóknarflokksins til að gegna embætti borgarstjóra Reykjavíkur eftir sögulega upprisu flokksins í 18,7% fylgi úr 3,2% fjórum árum fyrr.
Meirihlutasamningur Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar telur 33 síður og er kynntur undir 18 punktum. Hann felur meðal annars í sér stórátak í uppbyggingu húsnæðis og áframhaldandi áherslu á borgarlínu. Andspænis nýjum meirihluta standa síðan flokkar frá vinstri og hægri, annars vegar Sósíalistaflokkurinn og Vinstri græn, og hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn.
„Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er ákaflega ánægður með þennan sáttmála, hann svarar að öllu leyti kröfu Framsóknar um breytingar á þessu kjörtímabili,“ sagði Einar á fundinum fyrir skemmstu.
„Það er mikill ferskleiki yfir þessum nýja meirihluta“
„Einar byrjar á að leiða borgarráð, en verður síðan borgarstjóri í byrjun árs 2024,“ sagði Dagur B. Eggertsson, sem situr áfram í stóli borgarstjóra þangað til og hefur svo sætaskipti við Einar. „Það er mikill ferskleiki yfir þessum nýja meirihluta,“ sagði Dagur.
„Meirihlutinn féll, en minnihlutinn gerði það líka,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sem verður forseti Borgarstjórnar.
Mesta uppbyggingarskeið sögunnar
Að sögn Dags er framundan „mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar“.
„Þetta er meirihlutasamstarf um að þróa borgina áfram og í græna átt og ég er sammála því sem hér er sagt að við erum sameiginlega að reyna að svara kalli um að við séum að fara inn í mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Ekki síst í húsnæðismálum en líka í samgöngumálum, borgarlínu, Sundabraut og fleiri verkefni sem við höfum náð saman um, forgangsraðað og sett niður á blað. Þetta er verkefnaáætlun um leið og þetta er samstarfsyfirlýsing.“
Einar var sáttur með margt
Einar sagði á blaðamannafundinum að hann hefði í kosningabaráttunni tiltekið að margt gott hefði verið gert í Reykjavík og byggt yrði á því.
„Kosningabaráttan leiddi í ljós kröfu um breytingar í húsnæðismálum, samgöngumálum og ýmsum velferðarmálum. Ég held að það sé óhætt að segja að við náðum mjög vel saman utan um þessi mál í okkar viðræðum. Ég er þakklátur fyrir það að við öll hér vorum lausnamiðuð og samstarfsfús og mjög einbeitt í því að ná saman texta sem tryggir áframhaldandi vegferð í borginni og velferð, aukna uppbyggingu í húsnæðismálum og ýmsu slíku.“
Píratar yfir umhverfi og skipulagi
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, verður formaður skipulagsráðs sem taka mun yfir umhverfismál.
„Loftagsmálin eru leiðarljós í gegnum þennan sáttmála, lýðræði, gagnsæði og réttlætt og gott velferðarsamfélag fyrir öll og alla hópa. Við erum gríðarlega ánægð og hlökkum til og höldum að þetta geti orðið gjöfult samstarf öllum borgarbúum til heilla. Þetta endurspeglast meðal annars í því að við erum að taka umhverfismálin aftur inn í skipulagsmálin, með sameinuðu ráði umhverfis- og skipulagsmála og fleiri áherslum,“ sagði Dóra rétt í þessu.
Þórdís Lóa tók undir með Dóru Björt um grænar áherslur.
„Ætlum að taka sérstaklega utan um atvinnu- og nýsköpunarmál, tryggja uppbyggingu atvinnumála og fyrirtækja í borginni. Við erum sérstaklega að taka mjög vel utan um loftlagsmálin og græna þróun. Og við erum hér með metnaðarfulla sýn í skólaþróun og velferðarmálum, menningar- og íþróttamálum og svona get ég lengi upp talið, því þetta er allt saman á þessum tæplega 40 síðum.“
Brú milli úthverfa og miðborgar
Einar Þorsteinsson er fæddur á aðfangadag árið 1978 og er með BA-gráðu í stjórnmálafræði. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum í Sjálfstæðisflokknum og var formaður Félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, en gekk í Framsóknarflokkinn í vor. Hann er kvæntur Millu Ósk Magnúsdóttur, fyrrverandi fréttakonu á RÚV, sem gegnt hefur stöðu aðstoðarmanns Lilju Alfreðsdóttur og Willums Þórs Þórssonar, ráðherra Framsóknarflokksins.
Einar hefur starfað sem fréttamaður, nú síðast sem stjórnandi í Kastljósinu, þar til hann sagði stöðu sinni lausri í ársbyrjun. Hann tilkynnti um framboð sitt í Framsóknarflokknum í þættinum Vikunni með Gísla Marteini á RÚV í byrjun mars.
„Maður er að þjóna almenningi og áhorfendum sem eru að horfa. Og svo þegar ég fór að máta mig við stjórnmálaflokka þá var það einhvern veginn bara augljóst mál að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ég get verið í af því að þar er verið að skoða hlutina frá báðum hliðum – og öfgalaust,“ sagði hann þá.
Einar bauð sig fram undir þeim formerkjum að sameina klofna borg. Þannig væru íbúar úthverfanna reiðir vegna áherslu á borgina vestan Elliðaáa. „Það er eins og það búi tvær þjóðir í Reykjavík,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið. Það var einmitt við Elliðaárnar sem hann leiddi blaðamannafund um nýjan borgarstjórnarmeirihluta í dag.
Fyrir kosningar vildi hann bjóða börnum frítt í sund og frítt í Strætó, auk þess að tvöfalda frístundastyrk. Hann boðaði einnig að Framsóknarflokkurinn vildi flýta uppbyggingu á Keldum, byggja meira upp í Úlfarsárdal og Örfirisey, og þétta byggð í Grafarvogi og Breiðholti.
Athugasemdir (1)