Ég er á leiðinni á „rendez-vous“ við Tom Cruise. Eða það stendur allavega á e-miðanum mínum úr tölvukerfi kvikmyndahátíðarinnar í Cannes sem nú stendur yfir og ég er viðstaddur. Tom hefur ekki verið á hátíðinni í þrjátíu ár, ekki síðan að hann afhenti aðalverðlaunin, Gullpálmann, árið 1992, og er hann því sérstakur viðhafnargestur þetta árið. Okkur blaðamönnunum er leyft að hitta hann í hálftíma í rauðdregluðu höllinni við sjóinn, Palais des festivals, þar sem fína og fræga fólkið mætir einu sinni á ári, sýnir sín mest „avant garde“ verk, sýpur „champagne“ og skilur eftir sig kolefnisfótspor á stærð við Ásbyrgi.
Hvað gæti ég mögulega spurt þessa mannveru, sem fyrir mér hefur í raun alltaf verið til, en ég hef aldrei séð í eigin persónu? Ég gæti alveg eins fallið á kné fyrir framan altaristöflu og spurt Jesúm út í ferilinn hans. Með hverjum af lærisveinunum fannst þér best að vinna? …
Athugasemdir (2)