Sendiherrar aðildarríkja Evrópusambandsins komu saman á fundi í Brussel nú í byrjun maí til þess að ræða nýjar og hertari efnahagsþvinganir gegn Rússum og Hvítrússum. Enn einu sinni var þar tekin fyrir tillaga um að íslenski kjörræðismaðurinn í Hvíta-Rússlandi, Aleksander Moshensky, yrði settur á lista yfir einstaklinga sem beittir yrðu viðskipta- og ferðaþvingunum af hálfu ESB.
Verklagið innan ESB við setningu viðskiptaþvingana er þannig að algjöran samhljóm þarf meðal aðildarríkjanna 27 til að hægt sé að bæta einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum á svartan lista sambandsins. Í því felast enda mjög íþyngjandi aðgerðir, svo sem eins og bann við ferðum viðkomandi inn á áhrifasvæði ESB, auk þess sem blátt bann er lagt við því að einstaklingar eða fjármálastofnanir stundi viðskipti við viðkomandi.
Eins og Stundin hefur fjallað um hefur á þessum vettvangi ESB ítrekað verið lagt til að Moshensky og fyrirtæki hans verði látin sæta viðskiptaþvingunum, vegna tengsla hans og stuðnings við stjórn einræðisherrans Aleksander Lukashenko. Íslensk stjórnvöld hafa verið sögð hafa beitt sér fyrir því að Moshensky yrði ekki beittur slíkum aðgerðum, þó því hafi verið neitað. Þó er vitað að íslensk stjórnvöld hringdu hátt í þrjátíu símtöl til ESB-ríkja eftir að Moshensky viðraði áhyggjur sínar af því að vera í sigti ESB í árslok 2020.
Tíu þjóðir lögðu tillöguna fram
Nú í byrjun maí var ólígarkinn Moshensky enn einu sinni til umræðu, þegar sendiherrar ESB komu saman til að ræða 6. pakka efnahagsþvingana gegn Rússum og Hvítrússum, samkvæmt viðmælendum Stundarinnar sem þekkja til viðræðnannna. Evrópskur diplómat sem tók þátt í undirbúningi þeirra lýsti því þannig í samtali við Stundina að tillaga um að Moshensky yrði bætt á listann hefði verið lögð fram af hópi tíu þjóða, eftir að litáíska utanríkisráðuneytið lagði nafn hans fram.
Rökin voru eins og áður þau að tengsl Moshensky við Lukashenko hefðu nýst báðum til að styrkja völd sín og auð. Moshensky væri stuðningsmaður Lukashenko og styrkti þar með völd hans í landinu, á kostnað almennra borgara og lýðræðis, en í staðinn hefði Moshensky fengið að auðgast gríðarlega í skjóli Lukashenko í hinu miðstýrða efnahagskerfi Hvíta-Rússlands og atvinnulífi sem ætti allt sitt undir velvild Lukashenko.
Auk Litáa mæltu Lettar, Eistar, Danir, Pólverjar, Tékkar, Hollendingar, Rúmenar, Írar og Grikkir fyrir tillögunni um að beita Aleksander Moshensky viðskiptaþvingunum af hálfu ESB-ríkjanna. Allar þessar þjóðir teljast til vinaþjóða Íslendinga. Samkvæmt frásögn heimildarmanna Stundarinnar virtist sem hinar 17 aðildarþjóðir sambandsins stæðu allar með tillögunni.
Ungverjar vörðu Moshensky
„Það kom auðvitað svolítið á óvart þegar sendiherra Ungverjalands lýsti því yfir að Ungverjar gætu ekki sætt sig við að Moshensky yrði á listanum,“ sagði evrópskur diplómati í samtali við Stundina. Hann vildi ekki að nafn hans kæmi fram þar sem viðræður sendiherrahópsins séu haldnar fyrir luktum dyrum.
„Þetta vakti talsverða reiði á fundinum og pólski sendiherrann spurði kollega sinn frá Ungverjalandi að því hvers vegna hann legðist gegn tillögunni um Moshensky og hvaða hagsmuni Ungverjar hefðu af því að halda honum utan aðgerðanna,“ sagði viðmælandi Stundarinnar, sem sagði að fátt hefði verið um svör frá ungverska sendiherranum og fljótlega hefði orðið ljóst að ákvörðun Ungverja yrði ekki haggað.
Frásögn diplómatans rímar við frásagnir annarra viðmælenda Stundarinnar sem þekkja til viðræðnanna. Eftir því sem þeir hafa lýst vakti afstaða Ungverjanna reiði meðal fleiri þjóða. „Eistarnir eru mjög reiðir yfir þessu,“ sagði annar viðmælandi við Stundina. Eystrasaltsþjóðirnar og Pólverjar lögðu að sögn áherslu á að rökin fyrir því að bæta Moshensky á listann væru innrásinni í Úkraínu í raun óviðkomandi. Heldur byggðu þau fyrst og fremst á stöðunni eins og hún væri og hefði verið innan Hvíta-Rússlands til fjölda ára.
„Það er ekkert sem bendir til þess að Moshensky sé að fjarlægjast eða eða reyna að fjarlægja sig Lukashenko, nema síður sé,“ sagði diplómatinn sem kom að viðræðunum, í samtali við Stundina. Hann sagði það lykilatriði að herða á viðskiptaþvingunum gagnvart þeim fámenna hópi sem auðgast hefði undir verndarvæng einræðisherrans í skiptum fyrir stuðning við hann. Athygli vekur að sú skoðun íslenskra stjórnvalda, að álita Moshensky ekki náinn bandamanna eða stuðningsmann Lukashenko, virðist í engu samræmi við mat stjórnvalda í nágrannaríkjum Hvíta-Rússlands, og meðal aðildarríkja ESB - utan Ungverjalands.
Stundin sendi formlega fyrirspurn til Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, í ljósi þess að krafan um beitingu refsiaðgerðanna gegn Moshensky, var sögð kominn frá litháenskum stjórnvöldum. Í svari frá ráðuneyti hans er því hvorki játað né neitað, en vísað til þess að sökum yfirstandandi viðræðna um viðskiptaþvinganirnar, vilji ráðuneytið síður tjá sig um þær.
„Litháensk stjórnvöld hafa alltaf verið talsmenn þess að beita auknum þvingunum gegn rússneskum, en ekki síður hvít-rússneskum, stjórnvöldum.“
Moshensky svarar ekki
Heimildir Stundarinnar herma að Moshensky hafi – líkt og áður – lagt í mikla vinnu ásamt lobbíistum á hans vegum við að reyna að koma í veg fyrir að til aðgerðanna kæmi. Stundin sendi Moshensky fyrirspurn um málið nokkrum dögum áður en blaðið fór í prentun, en svar hefur ekki borist. Í viðtali við Stundina föstudaginn 6. maí kvaðst Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ekki hafa upplýsingar um að nágranna- og vinaþjóðir Íslands hefðu krafist þess að Moshensky, sem er kjörræðismaður Íslands, yrði beittur refsiaðgerðum, en hann komist hjá þeim vegna mótmæla Ungverja.
Utanríkisráðuneytið hefur ekki viljað afhenda Stundinni nein gögn um samskipi ráðuneytisins við erlend ríki eða alþjóðastofnanir í tengslum við Moshensky og áhyggjur hans af því að hann yrði beittur refsiaðgerðum í árslok 2020. Ráðherra mun á næstunni svara fyrirspurn þingmanns Pírata sem óskað hefur eftir frekari upplýsingum um málið.
Þetta er í sjötta sinn sem bætt er í refsiaðgerðir ESB gagnvart Rússum og Hvítrússum frá því fyrstu sameiginlegu aðgerðirnar voru kynntar þann 23. febrúar síðastliðinn, eftir innrásina í Úkraínu. Hert var á aðgerðunum í tvígang fram að mánaðamótum í þeim mánuði og þann 2. mars ákvað Evrópusambandið að láta aðgerðirnar einnig ná til aðila í Hvíta-Rússlandi, vegna þeirrar aðstoðar sem stjórnvöld í Minsk veittu Rússum við innrásina.
ESB hefur þess utan sett á viðskiptaþvinganir gegn Hvít-Rússum með reglubundnum hætti frá árinu 2006. Eins og fram hefur komið í Stundinni hefur nafn Aleksander Moshensky, kjörræðismanns Íslands, ítrekað verið til umræðu í tengslum við þær aðgerðir, allt frá árinu 2011.
Við þurfum ekki að leita til annara landa eftir slíkum. Olígarki er nafn á þeim sem hafa auðgast á að hafa fengið eignir ríkisins ódýrt eða gefins - eins og okkar sægreifar.