Ítarlegasta kosningaprófið sem í boði er fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 hefur nú verið opnað á Stundinni.
Þau sem taka prófið fá niðurstöður sem sýna hvaða flokkur og hvaða einstöku frambjóðendur eiga mesta samsvörun við afstöðu þeirra í hátt í 50 málefnum.
Meðal málefna sem spurt er út í eru flokkun á sorpi, útsvar, fasteignagjöld, bílastæðamál, lausaganga katta, almenningssamgöngur, lóðamál og dagvistunarmál.
Áskrifendur Stundarinnar fá enn ítarlegri niðurstöður en áður. Þeir geta valið lykilatriði, það er að segja þær spurningar sem frambjóðendur verða svara eins og kjósandinn. Þá munu áskrifendur geta séð meðaltalssvörun allra kjósenda í sveitarfélaginu þegar tekin hafa verið nægilega mörg próf til að endurspegla þýðið, þótt athuga beri út frá aðferðafræðilegum forsendum að úrtakið er ekki af handahófi heldur samkvæmt sjálfvali.
Prófið gildir fyrir fjölmennustu sveitarfélög landsins, en stefnt er að því að smærri sveitarfélögum verði bætt við þar til íbúar í 25 sveitarfélögum hafa tækifæri til að nýta prófið.
Tilgangur prófsins er að auka gagnsæi í kosningunum, efla frambjóðendur með því að gefa þeim tækifæri til að kynna sig óháð fjárhagsstöðu og auðvelda almenningi að taka afstöðu út frá málefnum.
Fleiri valmöguleikum verður bætt við kosningaprófið eftir því sem nær líður sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 14. maí næstkomandi.
Þetta er í fimmta sinn sem Stundin stendur að kosningaprófi og er prófið þróað frá grunni af Stundinni.
Athugasemdir (3)