Sé litið til Eystrasaltsríkjanna voru þau einhuga um Evrópusamrunann og NATO eftir fall Sovétríkjanna. Þau vildu tengjast Vesturlöndum og stofnunum þeirra eins sterkum böndum og hugsast gat. Þau gengu öll í ESB og NATO árið 2004 og hafa nú öll tekið upp evruna, Eistland 2011, Lettland 2014 og Litáen 2015. Öll löndin eiga landamæri að Rússlandi, Eistland og Lettland austurlandamæri og Litáen landamæri að sunnan við Kaliningrad, sem er hluti af Rússlandi. Óttinn við Rússland var ein meginástæða þess að löndin kusu svo náinn samruna við Evrópu, og samvinnu við Bandaríkin með NATO aðild. Margir telja að Úkraína ætti að fara sömu leið til lengri tíma litið.
Norðurlöndin hafa aftur á móti verið tvístíga bæði varðandi Evrópusamrunann og NATO. Þrjú þeirra, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, eru í ESB, en aðeins eitt þeirra, Finnland, sem er með löng austurlandamæri við Rússland, er á evrusvæðinu. Ísland og Noregur standa utan ESB en eru í EFTA og á Evrópska efnahagssvæðinu. Danmörk, Ísland og Noregur voru meðal stofnaðila NATO frá 1949. Finnland og Svíþjóð standa enn utan NATO en á því kann að verða breyting áður en langt um líður.
Danmörk varð fyrst Norðurlandanna til að ganga í ESB 1973. Finnland og Svíþjóð gengu í ESB 1995 eftir fall Sovétríkjanna 1991. Tímasetningin var engin tilviljun. Rússland var veikt eftir fall Sovétríkjanna. Finnland og Svíþjóð nýttu sér tækifærið. Hvorugt landið hefur tekið upp evruna. Danir þurfa aldrei að taka evruna upp (hafa svokallað opt-out) en fræðilega þurfa Svíar einhvern tíma að gera það. Noregur og Ísland hafa verið hikandi með ESB aðild. Noregur hefur tvisvar sótt um ESB aðild sem var felld í atkvæðagreiðslu 1973 og 1994. Ísland sótti um 2009 en dró umsókn sína til baka 2013.
Fyrir utan ESB aðild hafa Finnland og Eystrasaltsríkin talið aukið öryggi felast í að vera aðili að myntbandalagi. Því má segja að Rússland hafi átt sinn þátt í að stækka evrusvæðið og halda því saman. Bankakerfi Eystrasaltsríkjanna er aðallega í eigu skandinavískra landa, einkum sænskra, sem með stuðningi ESB kröfðust fastgengisstefnu í kjölfar efnahagshrunsins 2008/09 og settu sem skilyrði fyrir upptöku evrunnar. Það forðaði þessum erlendu bönkum frá miklu útlánatapi. Segja má að Svíþjóð hafi að töluverðu leyti flutt efnahagskreppuna 2008/09 út til Eystrasaltsríkjanna. Seinna var svo víðtækt peningaþvætti skandinavískra banka í Eystrasaltsríkjunum opinbert. Eystrasaltsríkin færðu miklar fórnir fyrir upptöku evrunnar í efnahagskreppunni 2008/09, meðal annars með miklum niðurskurði í ríkisfjármálum. Eins og Úkraína hafa þau þurft að horfast í augu við mikinn fólksflótta ungs fólks. Við fall Sovétríkjanna 1991 bjuggu um 8 milljónir í Svíþjóð og svipaður fjöldi í Eystrasaltsríkjunum. Nú búa rúmlega 10 milljónir manna í Svíþjóð en innan við 6 milljónir í Eystrasaltsríkjunum.
Hugmyndin með sameiginlegum gjaldmiðli í Evrópu tengist ekki efnahagsmálum eingöngu, heldur líka öryggismálum. Frakkland og Þýskaland höfðu átt í tveimur heimsstyrjöldum, fyrri og seinni heimsstyrjöldinni. Með sama gjaldmiðilinn voru minni líkur taldar á þriðju heimsstyrjöldinni vegna þess hve löndin yrðu háð hvert öðru. Það að lönd séu háð hvert öðru hefur þó ekki alltaf stuðlað að friði. Mörg Evrópulönd eru háð gasi frá Rússlandi sem hefur valdið árekstrum, nú síðast vegna stríðsins í Úkraínu.
Varðandi undirbúning umsókna Finnlands og Svíþjóðar um inngöngu í NATO kann mat þeirra að vera að Rússland hafi veikst í Úkraínustríðinu og að nú sé tækfæri fyrir þau líkt og þegar þau gengu í ESB 1995 eftir fall Sovétríkjanna. Rússland var líka veikt þegar Eystrasaltsríkin gengu í ESB og NATO 2004.
Þegar Úkraína og Georgía áttu að ganga í NATO samkvæmt samþykkt leiðtogafundar NATO í Búkarest 2008 varð mælirinn fullur í Moskvu. Átök urðu í Georgíu 2008 og Úkraínu 2014. Þessi átök hafa nú þróast í allsherjar stríð í Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld vissu sem var að lönd sem eiga í landamæradeilum og hernaðarátökum fá hvorki aðild að ESB né NATO.
Svo er spurningin með trúverðugleika NATO. Bandaríkin voru að minnka útgjöld sín til varnarmála í Evrópu á sama tíma og NATO var að stækka 1999 og 2004. Haldi hagkerfi Kína áfram að vaxa er líklegt að áframhald verði á þessu. Bandaríkin færi sig í auknum mæli hernaðarlega frá Evrópu til Asíu. Og til lengri tíma litið er Rússland ekki aðalvandamál Bandaríkjanna heldur Kína.
Stríðið í Úkraínu er farið að líta út eins og stríð milli Rússlands og Bandaríkjanna, þótt það sé háð á úkraínskri grund og hermenn Úkraínu berjist eru vopn Bandaríkjanna og vinaþjóða þeirra í Evrópu lykillinn að árangri í vörnum Úkraínu. Rússland veikist, Kína styrkist. Hagkerfi Úkraínu hrynur, kreppan í Rússlandi dýpkar og samdráttur verður í mörgum Evrópuríkjum. Hvað verður svo um Úkraínu? Vaxandi eyðilegging með tímanum og óvissa um uppbyggingu að stríði loknu. Hvorki ESB né NATO aðild eru í augsýn. Skásti kosturinn gæti verið fyrir ESB að samþykkja Úkraínu sem umsóknarríki, veita landinu fullan aðgang að sameiginlegum markaði ESB og fjárfestingastyrki til uppbyggingar. Ríkari lönd ESB munu tæpast samþykkja fulla aðild Úkraínu í náinni framtíð. Spurningin um NATO aðild er að mestu í höndum Bandaríkjanna, en er varla möguleg til skamms tíma ef semja á við Rússa um frið. Mestu skiptir að stríðið sé stöðvað og sjálfstæði Úkraínu tryggt með stuðningi ESB og Bandaríkjanna.
Athugasemdir