Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lét rasísk orð falla um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands í boði Framsóknarflokksins fyrir viku síðan. Stundin birtir hér mynd sem tekin var þegar ummælin féllu.
Vigdís birti síðastliðinn mánudag færslu á Facebook þar sem hún sagðist aldrei hafa látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina sig. Nú telji hún sig hins vegar knúna til að tjá sig um það sem gerðist og fer svo í stuttu máli yfir atvik sem varð í tengslum við búnaðarþing á fimmtudagskvöld.
Þar segir meðal annars að þá hafi starfsfólk Bændasamtakanna, þar með talin hún, þegið boð til stjórnmálaflokka sem haldin séu í tengslum við Búnaðarþing og löng hefð sé fyrir. Starfsfólk Bændasamtakanna hafi óskaði eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og fleiri væru með í myndatöku sem hún hafi síðar komið að.
„Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna. Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð,“ skrifar Vigdís en ummæli Sigurðar Inga sem hún vísar í voru samkvæmt heimildum Stundarinnar innan Bændasamtakanna rasísk en hann á að hafa sagt: „á að mynda mig með þeirri svörtu“.
Sigurður Ingi baðst sama dag afsökunar á ummælunum í færslu á Facebook-síðu sinni. „Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við alla. En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra,“ skrifað Sigurður Ingi.
Á myndinni sjást þeir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Höskuldur Sæmundsson og Ásgeir Helgi Jóhannsson halda á Vigdísi. Sigurður Ingi stendur milli Höskuldar og Ásgeirs en virðist ekki taka þátt í að halda Vigdísi.
Sigurgeir Sindri er fyrrverandi formaður Bændasamtakanna og fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins. Höskuldur er sérfræðingur á markaðssviði Bændasamtakanna og Ásgeir er lögfræðingur samtakanna.
Athugasemdir (2)