Allt að sjö prósent raforku sem framleidd hefur verið í Fljótsdalsstöð á Austurlandi hefur farið inn á byggðalínuna og þannig nýst annars staðar en í álverinu á Reyðarfirði. Í umfjöllun Stundarinnar frá 12. mars kom fram að orkan nýttist bara í álverið og gerði Landsvirkjun athugasemd við það. Í kjölfarið óskaði Stundin eftir gögnum um hversu mikil orka hefur verið framleidd og farið annað en í álverið.
Á tímabilinu 2014 til 2021 var á bilinu 2-7 prósent af framleiddri orku flutt úr Fljótsdalsstöð inn á byggðalínuna. Þannig getur rafmagn úr Fljótsdalsstöð nýst annarsstaðar á landinu þar sem byggðalínan tengir landshlutana saman. Eftir sem áður er langsamlega stærstur hluti framleiddrar orku í Fljótsdalsstöð fluttur beinustu leið á Reyðarfjörð þar sem það er nýtt til framleiðslu á áli í verksmiðju Alcoa. Enda var það tilgangur og markmið byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fljótsdalsstöðvar.
Langstærsta raforkuverið
Virkjunin er sú langstærsta sem hefur nokkru sinni verið reyst og gangsett á Íslandi. Fjórðungur alls rafmagns sem framleitt var á síðasta ári varð til í Fljótsdalsstöð eða um það bil 4,9 teravattstundir á ári. Landsvirkjun gerir hins vegar ráð fyrir að bæði orkuframleiðsla og orkuflutningur frá Fljótsdal og í aðra landshluti muni aukast á þessu ári. Orkuframleiðslan stefnir í 5,2 teravattstundir, samkvæmt mati fyrirtækisins.
„Þannig hefur myndast meira svigrúm til að nýta Fljótsdalsvirkjun í þágu raforkukerfisins.“
Áætlanir, miðað við fyrstu tvo mánuði ársins, gerir líka ráð fyrir að 328 megavattstundir, það er um 6 prósent af áætlaðri framleiðslu virkjunarinnar, fari annað en í álverið á Reyðarfirði. Það sé hægt vegna aukinnar flutningsgetu frá Fljótsdal út á byggðalínuna með tilkomu Kröflulínu 3, sem kláraðist síðastliðið haust.
„Þannig hefur myndast meira svigrúm til að nýta Fljótsdalsvirkjun í þágu raforkukerfisins,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, forstöðumaður þróunar vatnsafls hjá Landsvirkjun.
Skert orka annars staðar
Tilgangurinn með að flytja orku á milli staða er að bregðast við takmörkunum í orkuframleiðslu á ólíkum svæðum. Undanfarna mánuði hefur þurft að takmarka afhendingu á orku vegna slæmrar vatnsstöðu í miðlunarlónum, sér í lagi á Suðurlandi. Meiri framleiðslugeta hefur verið á norðurlandi en notkun en öfugt er farið á suðurlandi.
Þessi tilfærsla á rafmagni úr stærsta raforkuveri landsins hefur þó hvergi nærri dugað til og hefur Landsvirkjun gripið til þess að skerða orku til þeirra kaupenda sem hafa samninga um kaup á skerðanlegrar orku. Þetta eru fyrsta og fremst fiskimjölsverksmiðjur en í lok síðasta árs tilkynnti Landsvirkjun að langtímasamningar við álver og gagnaver sem gerðu ráð fyrir skerðanlegrar orku myndu líka þurfa að þola skerðingar.
Kárahnjúkavirkjun hefur líka ekki getað framleitt meira rafmagn og nam framhjárennsli eða yfirfall úr miðlunarlóni virkjunarinnar 1,6 teravattsstund á síðasta ári. Alla jafna nemur framhjárennslið upp undir 1,3 teravattsstund á ári, en mest hefur það verið rúmar 2,6 teravattsstundir.
Flutningskerfinu kennt um
Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að nota þessa orku sem rann framhjá Kárahnjúkavirkjun er að sögn Landsvirkjunar veikt flutningskerfi. Undir þetta tóku starfsmenn Landsnets í umfjöllun Stundarinnar um flutningskerfi raforku frá því í lok febrúar.
„Ef einhver virkjun framleiðir auka orku er ekki hægt að flytja hana með byggðalínunni. Byggðalínan er fullnýtt í dag, það er enginn sveigjanleiki. Þetta varð mjög opinbert í sumar, það var lítið af vatni á Suðurlandi, lítið í lónunum þar en á sama tíma var ágætt vatnsmagn í til dæmis Blöndulóni fyrir norðan og Hálslóni fyrir austan. Það sem gerðist var að þegar þau lón fylltust þá rann vatnið bara yfir í þeim, á yfirfalli, án þess að hægt væri að nýta það,“ sagði Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar og tæknisviðs Landsnets.
„Ef byggðalínan hefði meiri flutningsgetu þá hefði verið hægt að keyra þessar virkjanir alveg í botn. Hvað sem fólki finnst um virkjanir yfirleitt þá er ansi fúlt að geta ekki nýtt þær að fullu þegar búið er að byggja þær, raska umhverfi, byggja lón og svo framvegis. Það heitir bara sóun.“
væri hvort sem er ljótt.
Mikið af fallegu landi var eyðilagt.