Hæstiréttur vísaði í dag frá kæru Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns Stundarinnar, á niðurstöðu Landsréttar í máli hans gegn Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Aðalsteinn kærði ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem veitti honum réttarstöðu sakbornings og hugðist kalla hann til skýrslutöku vegna umfjöllunar hans um skæruliðadeild Samherja. Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði upphaflega að lögreglu hefði verið óheimilt að veita Aðalsteini réttarstöðu grunaðs manns en Landsréttur vísaði þeim dómi frá. Aðalsteinn áfrýjaði þeim úrskurði til Hæstaréttar sem nú hefur birt ákvörðun sína.
Frávísun Hæstaréttar gerist sama dag og dómnefnd Blaðamannverðalauna Blaðamannafélags Íslands tilkynnti að Aðalsteinn væri tilnefndur til blaðamannaverðlauna ársins 2021, meðal annars fyrir umfjöllun um téða skæruliðadeild Samherja.
Telur ekki heimilt að kæra úrskurð Landsréttar
Í dómi Hæstaréttar kemur fram sú lögskýring að Aðalsteinn hafi ekki haft heimild til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar, þar eð kæruheimild sú sem stuðst var við og fram kemur í lögum um sakamál hafi verið verið skýrð svo að hún tæki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hefðu verið með ákæru. Kæruheimildinn næði hins vegar ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannóknarúrskurð eða úrskurða um réttarfarsatriði.
Í dómi Hæstaréttar segir að hin kærða niðurstaða Landsréttar hafi ekki falið í sér endanlegar lyktir sakamáls heldur þá niðurstöðu að dómstólar hefðu ekki vald til þess að kveða á um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu á þessu stigi sakamálarannsóknar. Ekki væri því heimild fyrir hendi til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og var málinu því vísað frá.
Undanþáguákvæði eru í lögum er lúta að blaðamönnum
Hæstiréttur tekur því ekki efnislega afstöðu til þess hvort Lögreglunni á Norðurlandi eystra hafi verið heimilt að veita Aðalsteini réttarstöðu grunaðs manns og kalla hann til yfirheyrslu, ekki frekar en Landsréttur gerði. Í úrskurði Héraðsdóms kom hins vegar fram að í almennum hegningarlögum sé undanþáguákvæði er snúi að þeim greinum laganna sem lögreglan vill maina að Aðalsteinn hafi gerst brotlegur við, það er brot á friðhelgi einkalífs. Lögin eigi ekki við þegar um sé að ræða almanna- eða einkahagsmuni. „Er ljóst að þar er meðal annars átt við móttöku blaðamanna á gögnum sem innihalda upplýsingar sem eiga erindi við almenning,“ sagði í dómi Héraðsdóms. Enn fremur sagði í dómnum að „blaðamaður verði ekki talinn brotlegur við 228. gr. og/eða 229. gr. almennra hegningarlaga fyrir það eitt að móttaka og sjá viðkvæm persónuleg gögn sem ekki varða almenning, enda er það þáttur í starfi blaðamanna að móttaka ýmis gögn og ábendingar sem þeir meta hvort eigi erindi við almenning.“
Í greinargerð lögreglu, bæði fyrir héraðsdómi og fyrir Landsrétti kom fram að þeir blaðamenn sem fjölluðu um skæruliðadeild Samherja, þar á meðal Aðalsteinn, væru grunaðir um að hafa tekið á móti eða deilt með öðrum kynferðislegu efni af Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja og meðlimi í yfirlýstri „skæruliðadeild“ útgerðarinnar. Páll kærði hins vegar ekki slík brot til lögreglu og lögregla hefur ekki sýnt væri fram á að slíkt efni hafi farið í dreifingu.
Tilefni til að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins, segir niðurstöðu Hæstaréttar vonbrigði þó hún hafi ekki verið með öllu ófyrirséð, eftir niðurstöðu Landsréttar. „Eins og fjallað er um í dómi Hæstaréttar þá töldum við þetta kæranlegt, hverju sem liði einhverjum fyrri fordæmum. Niðurstaðan felur hins vegar í sér að skýrslutakan af Aðalsteini hljóti að fara fram með einhverjum hætti. Tilgangur hennar er hins vegar orðinn afskaplega takmarkaður eftir málatilbúnað lögreglu og það sem fram hefur komið þar. Miðað við það sem komið hefur fram í málinu virðist manni ennþá minna tilefni nú en áður til þess að kalla Aðalstein og aðra blaðamenn sem málið varðar til skýrslutöku.“
Spurður hvort til greina komi að vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu segir Gunnar Ingi að ekki liggi fyrir ákvörðun þar um. „Ég tel það hins vegar gerlegt, þetta mál hefur byggt að verulegu leyti á dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. Það væri því ekki óeðlilegt að bera það undir dómstólinn hvort þessi málsmeðferð standist, að ekki sé hægt að láta reyna á vafasamar rannsóknarathafnir lögreglu, að dómstólar eigi ekki endurskoðunarvald um það og að það sé ekki einu sinni kæranlegt til Hæstaréttar. Að ekki sé hægt að fá endurskoðun á frávísun á málinu á öðru dómstigi, það er vafasamt að það sé smrýmanlegt réttlátri málsmeðferð gagnvart sakborningi.“
Athugasemdir