Efri hæð áfangaheimilisins Betra lífs í Fannborg fjögur í Kópavogi hefur nú verið lokað sem gistirými vegna þess að Arnar Hjálmtýsson, eigandi og rekstraraðili áfangaheimilisins, uppfyllti ekki kröfur slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um brunavarnir og í stað þess að uppfylla þær fyrir ákveðin tíma ákvað hann að loka hæðinni. Fyrst fékk Arnar frest til þess að uppfylla brunavarnir í húsnæði í maí 2021 en svo var honum ítrekað gefinn lengri frestur þar til að hann lokaði efri hæðinni nú í gær. Nú mega því aðeins tíu íbúar leigja herbergi í húsinu, á neðri hæð hússins. Húsið hafði pláss fyrir 24 einstaklinga og þurfa þeir sem komast ekki fyrir á neðri hæðina nú að leita annað.
Arnar sagði nýverið í samtali við Stundina að ástæða þess að hann ákvað að breyta ekki húsnæðinu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði væri vegna þess að til stæði að rífa húsið um næstu áramót. Í húsnæðinu leigja í flestum, ef ekki öllum, tilfellum einstaklingar með fjölþættan vanda, þá vímuefna- og geðrænan vanda auk húsnæðisleysis.
Eins og Arnar orðar það sjálfur rekur hann „blautt úrræði“ sem hann segir sjálfur vera áfangaheimili þar sem heimilisfólki er heimilt að vera í virkri vímuefnaneyslu, margir þeirra hafa til að mynda notað vímuefni um æð. Þrátt fyrir það eru engir starfsmenn á áfangaheimilinu og því ekkert eftirlit. Fjórir íbúar Betra lífs hafa látist úr ofneyslu lyfja þar síðan 2020, síðast nú í febrúar. Fyrrverandi íbúar Betra lífs lýsa í viðtali við Stundina aðstæðum þar sem hættulegum og óboðlegum þar sem aðbúnaður í húsinu er slæmur upp á hreinlæti og öryggi að gera. Ekkert eftirlit er með starfsemi sjálfstætt rekinna áfangaheimila og ekkert regluverk til í kringum það hver má stofna til slíkra úrræða og því engar kröfur gerðar til forstöðumanna eða rekstur þeirra.
Ekki náðist í Arnar við vinnslu fréttarinnar.
En ég kann alls ekki að meta fullyrðingar sem ekki eru á rökum reistar ! Gunnar bróðir er sá heimilismaður sem lést þarna í febrúar, það var ekki haft samband við neinn í fjölskyldunni til að fá þessar upplýsingar réttar.
Gunnar bróðir lést EKKI úr ofneyslu, aka overdose. Ekki að það skipti öllu máli, en það er ólíðandi að fjölmiðlar hafi ekki staðreyndir á hreinu um viðkvæm málefni sem þessi !
Gunnar á dóttur, foreldra, systkini og vini ♥️ Hann er nýlega látinn og ef það á að draga andlát hans á einn eða annan hátt inn í fréttaefni skulu heimildir vera réttar ! Við erum mörg að syrgja bróður minn og þetta er ekki að hjálpa !
Skammist ykkar !!