Fyrir nokkru birtist á prenti bókin Hæstiréttur í hundrað ár. Saga eftir Arnþór Gunnarsson sagnfræðing. Bókin er að ýmsu leyti fróðleg, meðal annars fyrir þá sök að þar er sagt undanbragðalaust frá ýmsum hneykslum sem hafa skekið réttinn. Óhugsandi væri að finna mætti slíkar frásagnir í hliðstæðum söguritum um æðstu dómstóla nálægra landa, enda hafa þarlendir dómstólar ekki gefið slíkan höggstað á sér. Í kaflanum um fyrstu 15 árin, 1920–1935, eru millikaflar sem bera heitin „Valdabarátta“, „Að skíta í eigin hreiður“, „Leiksoppur í höndum pólitíkusa?“, „Réttarfarshneyksli – réttarfarsbætur?“ og „Pólitískur kapall“. Þetta eru fimm millifyrirsagnir af 15 og segja sína sögu um efnisinnihaldið og framhaldið.
Fleiri hneyksli
Bókin greinir einnig frá Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, réttarhneyksli sem margir telja rétt nefnt dómsmorð og leiddi eftir dúk og disk til fjallhárra skaðabóta handa sakborningum og afkomendum þeirra. Þá er einnig sagt frá sprenghlægilegum dómsmálum sem dómararnir hafa höfðað hver gegn öðrum síðustu ár. Hlægilegast þeirra allra er dómsmálið sem sitjandi forseti Hæstaréttar tapaði á öllum dómstigum og situr samt enn sem fastast sem forseti réttarins, að því er virðist án þess að skynja að dómari sem tapar máli sem hann höfðar sjálfur er varla eins sleipur í lögum og sá sem lagði hann. Og sá sem lagði hann er fv. hæstaréttardómari sem tapaði sjálfur á báðum dómstigum máli sem hann hafði sjálfur höfðað. Vindhöggin ganga á víxl. Annað eins og þetta getur gerzt í Rússlandi og öðrum slíkum löndum þar sem dómarar og saksóknarar taka við símtölum með fyrirmælum frá stjórnmálamönnum eins og að drekka vatn, en svona nokkuð væri óhugsandi í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Og þá er ótalin óvissan sem leikur um væntanlega úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu um lagagildi ýmissa fallinna hrundóma þar eð í ljós kom að sumir dómararnir áttu hlutafé í föllnu bönkunum. Það virðist duga til að draga megi í efa óhlutdrægni þeirra í dómum gegn brotlegum bankamönnum. Öllu þessu er til haga haldið í bók Arnþórs þótt vandræðalegt sé.
Annað sem miklu skiptir vantar í bókina. Hér ætla ég að tiltaka tvö atriði.
Hæstiréttur og fiskveiðistjórnin
Í frásögn bókarinnar af dómum Hæstaréttar um fiskveiðistjórnina er frækilegum sigri Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu 1998 haldið til haga. Hæstiréttur dæmdi Valdimar í vil á þá leið að fiskveiðistjórnarkerfið bryti gegn stjórnarskránni eins og Valdimar hélt fram. Málið dæmdu Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason. Oddvitar ríkisstjórnarinnar brugðust ókvæða við dóminum og fullyrti forsætisráðherrann að landið myndi tæmast af fólki fengi dómurinn að standa.
„Ekkert af þessu kemur fram í bókinni eins og málið komi Hæstarétti ekki við“
Bókin heldur einnig til haga viðsnúningi Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu 2000 þegar rétturinn skýldi sér á bak við málamyndabreytingu á fiskveiðistjórnarlögunum í millitíðinni og sá nú ekkert athugavert við mismununina sem bjó að baki fyrri dóminum 1998 og er til þessa dags hryggjarstykkið í fiskveiðistjórninni. Málið dæmdu Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein, en Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson skiluðu séráliti í samræmi við dóminn frá 1998, og það gerði einnig Hjörtur Torfason, sem markaði sér stöðu miðsvæðis milli meirihluta dómsins og minnihlutans. Hæstiréttur hafði verið barinn til hlýðni í augsýn allrar þjóðarinnar.
Og þar lýkur frásögn bókarinnar af fiskveiðistjórnarmálinu. Þar er ekki einu orði vikið að því að tveir vestfirzkir sjómenn, Erlingur Sveinn Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson, kærðu síðari niðurstöðu Hæstaréttar til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og höfðu þar fullan sigur gegn ríkinu 2007. Mannréttindanefndin birti bindandi álit þess efnis að stjórnvöldum bæri að nema mannréttindabrotaþáttinn, þ.e. mismununina, burt úr fiskveiðistjórninni, og greiða sjómönnunum bætur.
Nánar tiltekið segir í áliti nefndarinnar að fiskveiðistjórnarkerfið brjóti gegn 26. grein Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Álit nefndarinnar er í fullu samræmi við Valdimarsdóm Hæstaréttar 1998, enda er 26. grein Alþjóðasamningsins nánast samhljóða 65. grein stjórnarskrár Íslands frá 1944. Þótt álitið væri bindandi, þar eð Ísland hefur fullgilt Alþjóðasamninginn, hafði mannréttindanefndin engin tök á að tryggja að ríkisstjórnin virti álitið, næmi mannréttindabrotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórnarkerfinu og bætti fórnarlömbum skaðann. Mannréttindanefndin gat gert það eitt að setja Ísland á lista með þeim löndum sem neita að falla frá mannréttindabrotum. Það er ekki góður félagsskapur.
Svikið loforð
Áður en til þess kæmi að Ísland lenti á þeim svarta lista lofaði ríkisstjórnin 2009–13 að leysa málið með því að innleiða nýja stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni frá 2011–2013 svarar þessu kalli mannréttindanefndarinnar. Nefndin leysti Ísland niður af króknum 2012 og lét málið niður falla gegn þessu hátíðlega loforði um nýja stjórnarskrá sem Alþingi á þó enn eftir að staðfesta. Það veldur vonbrigðum að Mannréttindanefnd SÞ hafi látið ljúga sig fulla með þessu móti. Sjómennirnir tveir voru skipulega rúnir inn að skinni. Hæstiréttur vísaði frá bótakröfu þeirra sem var þó reist á áliti mannréttindanefndarinnar. Örn Snævar er nú látinn, en Erlingur Sveinn heldur áfram ótrauður að berjast gegn ranglætinu með okkur hinum.
Ekkert af þessu kemur fram í bókinni eins og málið komi Hæstarétti ekki við. En málið varðar Hæstarétt meðal annars vegna þess að flestir þeirra dómara sem hafa fjallað um fiskveiðistjórnina og afleiðingar hennar í Hæstarétti hlutu að teljast vanhæfir til verka í ljósi margvíslegra og óviðurkvæmilegra hagsmunatengsla eins og við Lýður Árnason læknir og Þórður Már Jónsson landsréttarlögmaður röktum rækilega í Fréttablaðinu og Stundinni fyrir nokkru. En dómarar úrskurða sjálfir um eigið vanhæfi í krafti laga og fara sínu fram. Siðaráð Dómarafélagsins fjallaði um málið og brást við erindi okkar þremenninganna meðal annars með þessum orðum: „úrskurðar siðaráðið ekki um ætluð brot gegn reglunum.“ Hvers virði er slíkt siðaráð?
Hæstiréttur og stjórnlagaþingskosningin
Bókin segir einnig frá ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings 2010, en fer í kringum málið eins og heitan graut. Málavextir voru þessir:
Þrír menn, allir í formlegum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn, kærðu kosningar til stjórnlagaþings á grundvelli meintra tæknilegra galla á framkvæmd kosninganna. Sex hæstaréttardómarar (Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson, allir nema Viðar Már, bróðir aðaleiganda Morgunblaðsins, skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins) úrskurðuðu kosningarnar ógildar.
Frá þessu er sagt í bókinni án þess greina frá því að Reynir Axelsson dósent fjallaði skömmu síðar um ógildingarúrskurð Hæstaréttar í vandaðri ritgerð og voru lokaorð hans þessi:
„Eini raunverulegi og eini verulegi annmarkinn á kosningunni var að Hæstiréttur eyðilagði hana með ákvörðun sem hvílir á sannanlega röngum forsendum og byggist á hæpnum réttarheimildum.“
Í bókinni kemur ekki skýrt fram að Hæstiréttur sneri við blaðinu árið eftir þegar hann komst sjálfur að sömu niðurstöðu og Reynir Axelsson. Það var þegar Ragnar Aðalsteinsson hrl. bar fram kæru fyrir hönd þriggja einstaklinga vegna meintra galla á framkvæmd forsetakosninganna 2012. Í úrskurði 12 dómara Hæstaréttar (Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson, Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson) 2012 um kærur vegna framkvæmdar forsetakjörsins 2012 segir svo:
„Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 ... kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skuli því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit. ... Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjöri 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess ...“
Í hópi þessara 12 dómara eru fjórir sem ári áður höfðu úrskurðað kosninguna til stjórnlagaþings ógilda enda þótt enginn hefði nokkru sinni haldið því fram að meintir gallar á framkvæmd hennar hefðu haft áhrif á úrslit kosningarinnar. Hæstiréttur sneri sem sagt við blaðinu 2012 og viðurkenndi í reynd að ógildingarúrskurðurinn um kosninguna til stjórnlagaþings 2011 var rangur.
Þetta hefði þurft að koma fram í bókinni.
Djúpar sprungur
Allar götur frá 2001 hafa sex af hverjum tíu sem Gallup spyr sagzt vantreysta dómskerfinu, enda er það skilgetið afkvæmi spilltrar og villuráfandi stjórnmálastéttar. Tuttugu ár hafa ekki dugað til að hagga þessari hörmulegu staðreynd. Vantraustið er verðskuldað, landlægt og djúpstætt. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem stóðu báðir berskjaldaðir frammi fyrir landsmönnum eftir hrun, hafa stýrt dómsmálaráðuneytinu og skipað alla dómara landsins frá 1926 ef frá eru talin ellefu ár (1944-47, 1956-59, 1979-80, 1987-88, 2009-13).
Í þessu ljósi sendi ég forsætisráðherra stutta minnisgrein 27. marz 2009 með afriti til tveggja af helztu lögfræðingum landsins sem ég hafði ráðfært mig við og lagði þar til endurskoðun dómstólaskipunarinnar áður en bankahrunið kæmi til kasta dómstólanna. Mér var ekki svarað.
Þannig líður lýðræðið á íslandi fyrir ójafnvægi milli framkvæmdavaldsins og löggjafavalds og dómsvalds.