Það er ráðist á fólk. Á götum úti. Á heimilum þess. Í verslunum, á lestarstöðvum. Fólk er drepið með hrottalegum hætti. Skriðdrekar keyra yfir bíla, miða skotum á skóla, sjúkrahús, verslanir, íbúðablokkir. Jafnvel kjarnorkuver.
Hús eru sprengd í loft upp, heilu hverfin lögð í rúst, fjölskyldum er tvístrað, fólk hrakið á flótta. Börn eru drepin, mæður eru drepnar, afar eru drepnir. Heilli fjörutíu og fjögurra milljóna manna þjóð er steypt inn í helvíti þjáningar og stríðs.
Allt til þess að einn maður fái svalað hégóma sínum, til þess að einn maður fái hugsanlega stærri sess í sögunni: Sjáiði bara, Nikulás keisari, Lenín og Stalín! Ég stækkaði Rússland líka!
Þvílík heimska. Þvílíkur hégómi. Þvílík örlög. Þvílíkur fáránleiki. Þvílíkur harmur.
Og þvílík meðvirkni víða um heim. Meðvirkni sem segir: Já auðvitað getur Rússland ekki sætt sig við að nágrannaland þeirra fari inn í Nató. Auðvitað getur Rússland ekki sætt sig við að nágrannaland þeirra fari inn í ESB. Auðvitað getur Rússland ekki sætt sig við að nágrannaland þeirra sé sjálfstætt.
Þetta er eins og meðvirkni með nauðgara. Já auðvitað er skiljanlegt að hann berji konuna sína og nauðgi henni, drepi hana jafnvel. Ég meina, voruð þið ekki búin að vera að kynna hana fyrir allskonar nýjum hlutum eins og sjálfstæðri hugsun, endurmenntun, lífsgleði… í raun er það ykkur að kenna að hann nauðgaði henni og drap hana. Það er ykkur að kenna!
Úkraína er ekki eiginkona Rússlands. Hún var ekki á of stuttu pilsi, hún var ekki of full. Minnum okkur á það: Úkraína var og er sjálfstætt ríki, sjálfstætt land. Úkraínumenn eru stolt þjóð sem á aldagamla menningu, Kiev er sex hundruð árum eldri en Moskva.
Við eigum ekki að láta plata okkur til að hlusta á annað. Við eigum ekki að hlusta á rugludallarök fyrir innrásinni og við eigum ekki að hlusta á hrútskýringar rússasnobbsins, við eigum ekki að hlusta á hrútskýringar Pútíns og Lavrovs. Og við eigum alls ekki að hlusta á viðtöl við rússneska sendiherrann, lélegasta leikara sögunnar.
Því allt þeirra tal er lygi reist á lygi. Illa innrættur skáldskapur sem ætlað er að réttlæta voðaverk.
Lykillinn að veldi Pútíns fólst í árás hans á eigin borgara, eins og við sáum í heimildamyndinni á RÚV. Til að ná kosningu um aldamótin síðustu lét hann sprengja íbúðablokk í Moskvu og kenndi Tsjetsjenum um. Svo hann gæti orðið sterki maðurinn, verndari Rússa. Veldi Pútíns er því reist á rústum, hann elskar rústir, sprengjurústir, hrundar íbúðablokkir, lík kramin undir burðarbitum, þetta er fólkið sem hann kann best við. Og þess vegna fer hann inn í Úkraínu til að gleðja fólkið með hrundum íbúðablokkum, brunnum bílhræjum og nýmyrtum börnum. Þetta eru gullhamrar hans og ástarjátningar.
Rithöfundurinn Andrei Kurkov, vinur minn í Kiev, sendir fundinum þakkarkveðju og þessa hugsun hér, sem ég les nú fyrir ykkur:
„Pútín sagði að ein af helstu ástæðum innrásarinnar væri „þjóðarmorð úkraínskra nasista á rússneskumælandi fólki í Úkraínu“. En nú hefur stríðið staðið í níu daga og helstu fórnarlömb þess eru einmitt rússneskumælandi fólk í Úkraínu. Í Kharkiv, Chernyhiv, Sumy og Kiev. Hann stundar semsagt sjálfur þjóðarmorð á „sínu fólki“. 95% íbúa í Kharkiv eru rússneskumælandi en sú borg hefur einmitt orðið harðast úti á fyrstu dögum stríðsins. Þar hafa flestir fallið.“
Þetta segir Kurkov, og það stemmir við það sem við sáum í heimildamyndinni á RÚV og ég var að tala um áðan. Blokkarrústir eru Pútíns ær og kýr, hann byggir veldi sitt á rústum, upp úr rústum reis hann og á rústum lifir hann, að rústum mun hann því verða.
Því svo elskar Pútín fólkið sitt að hann drepur það í sprengjuárásum, þær eru hans helsta tjáningarform, það tungumál sem hann skilur best.
Þetta er enda háttur heigla. Pútín er heigull og veit það, lítill kall sem þorir ekki einu sinni að sitja með fólki til borðs nema borðið sé 12 metra langt. Ég meina hvað hefur maður, sem ekki þorir að heilsa öðrum með handabandi, að gera í stríð? Hvernig ætlar sá maður að kalla sig stríðsherra?
Pútín er enginn stríðsherra. Hann er bara lítill heigull í helli.
Og þess vegna mun Pútín tapa þessu stríði. Hans bíða sömu örlög og Napóleons og Hitlers í drullunni á sléttum Úkraínu, þar munu áform hans sökkva í jörð, eins og hinna tveggja.
Pútín mun tapa, Zelensky mun sigra. Pútín er dauðinn, Úkraína er lífið!
Og því segjum við: Stöðvum stríðið! Stöðvum stríðið! Stöðvum stríðið!
Og þess vegna segjum við: Ísland styður Úkraínu!
Á úkraínsku hljómar það svona: Islandiya pidtrymuye Ukrayinu! Islandiya pidtrymuye Ukrayinu! Islandiya pidtrymuye Ukrayinu!
stopworldcontrol.com/ukraine
Pútíns verður minnst sem eins versta brennuvargs sögunnar sem tekur óskynsamlegar ákvarðanir með sínu ískalda hjarta þar sem hann hefur barið niður öll mannréttindi og þar með lýðræðið innan landamæra Rússlands.
Vonandi verður til samsæri um að koma honum fyrir kattarnef og innleiða lýðræði og mannréttindi aftur innan Rússlands. Rússar eiga betra skilið en sitja uppi með svona skrýmsli.
Við vitum hverjir eru veikir á skaptinu og hverjir eru að framleða vopn .
Það eru menn eins og skáldið sem alla á ófriði og ota saman saklaus fólki .
Verðum að athuga að ástandið í heiminum er ekki af völdum almennigs í BNA eða almennigs í Rúslandi sem eru bara falbissufóður fyrir þá siblyndu og oft geveku osóknarbrjáluðu menn eins og veljast oftast í að stjóna veldunum .
Það á að vera val almnennigs hver er hverju sinni við stjórnvölin í líðraeðisríkjum .
En vegna þess að þeir ofsóknarbrjáluðu oft gamalmenni sem hafa gleimt að þroskast og eru eins og ómálga börn í tindataleik og falsa kosnigar ef hitna fer undir þeim .
Og fasitar á íslandi eru þar ekki undanþegnir, svo þá ´se sagt