Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hafi ekki haft lagaheimild til að setja Ásdísi Höllu Bragadóttur tímabundið í nýtt embætti ráðuneytisstjóra. Ráðuneytið hafði vísað í lög um látna embættismenn máli sínu til stuðnings, eitthvað sem Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hafnar í nýbirtu áliti á vef embættis síns.
Ráðuneytið hafði borið því við að innan við sólarhringur hefði liðið frá formlegri stofnun ráðuneytisins með forestaúrskurði þar til það átti að taka til starfa. Umboðsmaður bendir á í áliti sínu að ráðherra hefði getað falið öðrum starfsmönnum ráðuneytisins tímabundin verkefni sem nauðsynlegt væri að sinna og kæmu annars í hlut ráðuneytisstjóra á meðan skipunarferlinu stæði.
„Væri það afstaða stjórnvalda að slíkar ráðstafanir væru ófullnægjandi var þeim einnig í lófa lagið að fresta stofnun hins nýja ráðuneytis til þess tíma er viðhlítandi undirbúningur fyrir starfsemi þess væri lokið að gættum þeim lagareglum sem við áttu. Ólögfest sjónarmið um skyldur stjórnvalda til tafarlausra viðbragða gagnvart yfirvofandi utanaðkomandi aðstæðum geta því ekki réttlætt téða ákvörðun ráðherra um tímabundna setningu ráðuneytisstjóra án auglýsingar,“ segir svo í álitinu.
Ásdís Halla var upphaflega ráðin til að stýra vinnu við undirbúning þessa nýja ráðuneytis í desember á síðasta ári. Þegar ráðuneytið tók svo til starfa 1. febrúar síðastliðinn var hún settur ráðuneytisstjóri til þriggja mánaða. Embættið var svo auglýst laust til umsóknar í kjölfarið og er Ásdís Halla meðal umsækjenda. Leiða má að því líkur að staða hennar sé nokkuð sterk þar sem hún hefur það fram yfir alla aðra umsækjendur að hafa stýrt þessu nýja ráðuneyti. Það er þó annar ráðuneytisstjóri á meðal umsækjenda, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.
Athugasemdir (1)