Eftir að hafa lesið greinargerð lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til héraðsdóms Norðurlands eystra hef ég enn minni hugmynd um hvað það er sem ég á að hafa unnið mér til saka. Ég var sem sagt boðaður í skýrslutöku þar sem ég fékk réttarstöðu sakbornings vegna starfa minna sem blaðamaður og ákvað að láta reyna á lögmæti þeirrar ákvörðunar á grundvelli laga um vernd heimildarmanna.
Lögreglan fullyrðir að hún viti hver heimildarmaður þeirra frétta sem sagðar voru af skæruliðadeild Samherja sé, án þess að hún geti vitað það fyrir víst. Í greinargerð lögreglu er ítarlega farið yfir það hvernig talið er að sá einstaklingur hafi brotið af sér. Eins og ég hef áður sagt er sjálfsagt og eðlilegt að fólk leiti réttar síns, kæri til lögreglu þegar brotið er á þeim og lögreglu er skylt að rannsaka það. Greinargerðin staðfestir þó fyrir mér að ekkert þeirra brota sem Páll Steingrímsson kærði snýr að mér. Hvort sem um ræðir byrlun, stuld á farsíma eða hvað það er. Samkvæmt greinargerð lögreglu er meint kynferðisbrot einnig til rannsóknar.
Lögreglan staðfestir í greinargerð sinni að ég er ekki grunaður um að hafa framið neitt af þessum brotum. Ég er ekki grunaður um að hafa stolið síma. Ég er ekki grunaður um að hafa byrlað fyrir neinum. Ég virðist ekki heldur vera grunaður um að hafa afritað síma. Ég er hvorki grunaður um að hafa framið slík afbrot né að hafa skipulagt þau, líkt og ég hef opinberlega verið sakaður um. Nú hefur lögreglan loks staðfest að svo er ekki.
En hvað er þá undir?
Greinargerð lögreglu er í sautján liðum. Þegar búið er að sigta frá lýsingar lögreglu á brotum sem talið er að önnur manneskja hafi framið stendur afskaplega fátt eftir. Umrædd manneskja virðist vera nákomin Páli Steingrímssyni og starfar hvorki á né með fjölmiðlum.
Samkvæmt greinargerð lögreglu virðast yfirvöld telja að umrædd manneskja hafi afhent mér gögn. Svo það sé sagt, þá hefur lögreglan enga vitneskju um minn heimildarmann. Það er ekkert í málinu sem segir að viðkomandi hafi afhent mér gögn. Hvað þá að ég hafi nokkurn tímann haft öll gögn úr síma mannsins undir höndum. Ég er enn bundinn af lögum sem kveða á um vernd heimildarmanna og meina mér að veita upplýsingar um mínar heimildir. Þó að lögreglan gefi sér eitthvað, þá er ekki þar með sagt að það sé rétt, hún verður að geta sýnt fram á það. Í þessu tilfelli er það ekki gert, enda ekki hægt. Engir vitnisburðir né gögn staðfesta þessa kenningu.
Það er óhugnanlegt að sjá hvernig lögreglan leggur sig fram í greinargerðinni við að mála upp skakka mynd með dylgjum og ásökunum sem eru svo ótengdar mér, frásögnum af brotum sem tengjast hvorki mér eða öðrum blaðamönnum með neinum hætti. Mynd sem er ætlað að gera okkur sem störfum á fjölmiðlum að vonda kallinum, um leið og lögreglan lítur algjörlega framhjá efni umfjöllunarinnar, hlutverki fjölmiðla og lögum sem um þá gilda. Frásögn lögreglu af atvikum er augljóslega ætlað að vekja hughrif, en þegar rýnt er í greinargerðina kemur í ljós að þar er ekkert sem réttlætir það að stilla mér upp sem sakamanni fyrir að hafa sagt fréttir af skæruliðadeild Samherja. Fréttir sem hafið er yfir allan skynsamlegan vafa að áttu erindi til almennings. Þrátt fyrir það reynir lögreglan að réttlæta aðför sína að mér og öðrum blaðamönnum, með aðdróttunum um að ég hafi mögulega og hugsanlega fengið gögn undir hendur þar sem meðal annars gætu leynst myndir og myndbönd af kynferðislegum toga. Það er kannski rétt að taka það fram að þessi þáttur er vægast sagt loðinn. Í greinargerðinni er hvorki sýnt fram á né fullyrt að ég hafi nokkurn tímann haft slík gögn undir höndum, hvað þá dreift þeim.
Ef ég var einhverntíman efins um að nauðsynlegt væri að standa fast gegn ásókn yfirvalda þá er ég þess fullviss núna, eftir að hafa lesið málatilbúnað lögreglunnar, að málið varðar grundvallarsjónarmið um frelsi fjölmiðla og rétt almennings til upplýsinga. Hingað til hefur sá háttur verið hafður á, ef lögreglu grunar að gögn og afhending þeirra til blaðamanna kalli á skoðun eða rannsókn, að þeir séu kallaðir til sem vitni. Í þeirri stöðu hef ég einnig verið og mætt í skýrslutöku án athugasemda. Flestir lögreglumenn hafa nefnilega skilning á því að starf blaðamanns felur í sér viðtöku allskonar gagna. Hlutverk fjölmiðla er að meta hvað á erindi við almenning og miðla þeim upplýsingum.
Ég óttast ekki sannleikann í þessu máli eins og valdakarlar hafa ýjað að. Ég hef ekkert að fela. Málið snýst ekki um mig eða mína persónu heldur um rétt almennings til upplýsinga og frelsi blaðamanna til að sinna störfum sínum óáreittir frá yfirvöldum.
A-Ö blönduð pólitík ... En það má líklega ekki segja þetta frekar enn margt annað 🤔
Þetta er svo hallærislega vandræðalegt og þeim sjálfum til minnkunar. Og ekki máttu þeir við þvi.
Held að þeir ættu bara að þegja hér eftir og skammast sín. En það er kannski ekki hægt að ætlast til að svona kjánar geti það.