Laxadauðinn hjá íslenska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish í Dýrafirði er helmingi eða tvöfalt meiri en fyrirtækið taldi að hann yrði. Laxadauðinn er nú sagður vera 3.000 tonn af eldislaxi eða tæplega 430 til 600 þúsund eldislaxar. Upphaflega gaf fyrirtækið það út að laxadauðinn væri talinn hafa verið á milli 1.500 og 2.000 tonn. Þetta kemur fram í afkomukynningu frá eiganda Arctic Fish, Norway Royal Salmon, í dag.
„Áætlaður dauði 3.0 þúsund tonn“
Í kynningunni er fjallað um afkomu Norway Royal Salmon á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og er einnig greint frá laxadauðanum í Dýrafirði á sérstakri glæru sem kölluð er „Atvikið í Dýrafirði“. Þar segir að sökum laxadauðans verði ársframleiðsla Arctich Fish 10.100 tonn eða ekki 13.000 tonn eins og áætlað var. „Áætlaður dauði 3.0 þúsund tonn,“ segir í kynningunni.
Þá kemur fram í tilkynningunni að áætlaður kostnaður vegna laxadauðans, sé „einskiptiskostnaður upp á 106 milljónir norskra króna“. Þetta þýðir að tjónið vegna laxadauðans er talið vera tæplega 1,5 milljarður íslenskra króna.
Dauðinn sagður 1.500 till 2.000 tonn
Stundin hefur fjallað ítrekað um laxadauðann síðustu vikur enda er hann án hliðstæðu hér á landi.
Laxadauðinn leiddi til þess að eigandi Arctic Fish, Norway Royal Salmon, sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku. Ástæðan er sú að fyrirtækið er skráð á markað í Noregi og þarf að greina frá slíkum upplýsingum um dóttur- og hlutdeildarfélög sín opinberlega.
Í tilkynningunni sagði: „Arctic Fish hefur upplifað alvarleg líffræðileg vandamál í tveimur af eldisstæðum sínum í Dýrafirði, á Íslandi. Umfang laxadauðans er til skoðunar en samkvæmt áætlunum mun hann vera 1,5 til 2 þúsund tonn af stórum fiski sem var í sláturstærð og tilbúinn fyrir markaðinn.“
Nú liggur fyrir að laxadauðinn er talsvert meiri en þetta.
Ástæður laxadauðans hjarta- og vöðvabólga og þrengsli
Norway Royal Salmon lýsir því í kynningu sinni hverjar helstu ástæður laxadauðans voru.
Um er að ræða blóðflæðisvandamál vegna þrengsla í kvíunum, slæms ástands á tálknum fiskanna auk veirunnar HSMI sem er kölluð hjarta- og vöðvabólga á íslensku. „Hæsta dauðatíðnin er í sjókvíum með stærstu fiskunum. Rannsóknir á fiskunum sýna að dauðatíðnin er tilkomin vegna blóðflæðisvandamála, bágs ástands á tálknum og hjarta - og vöðvabólgu (HSMI). HSMI er skilgreint sem landlægt vandamál á Íslandi.“
Út frá þessu er ljóst að ein af ástæðum laxadauðans er að beðið var of lengi með að slátra eldislaxinum og að stærð hans í kvíunum skapaði líffræðileg vandamál sökum þrengsla. Kvíarnar rúmuðu ekki allan þennan stóra lax. Þegar við bættist vonskuveður og kuldi var niðurstaðan þetta slys sem laxadauðinn er.
kannski meira ef kostnaður við 2 dælu- og flutningaskip er talinn með,
líklega að mestu ótryggt. Mikil lexía fyrir norska eigandann.
Heppilegt umræðuefni á "fræðsluráðstefnu laxeldisins" sem halda á
í Reykjavík í mars.